Það var yfirsjón hjá félagsmálaráðuneytinu þegar það staðfesti breytingar á samþykktum húsnæðissamvinnufélagsins Búmenn árið 2006 og ráðuneytið hefur enga heimild í lögum til að veita slíkum samþykktum aukið gildi. Ráðherrann sem sat í ráðuneytinu man ekkert eftir því að hafa staðfest breytingarnar þrátt fyrir að bréf hafi verið sent til Búmanna fyrir hans hönd þar sem ráðuneytið staðfestir þær. Á grunni þessarrar staðfestingar hafa Búmenn neitað að viðurkenna kaupskyldu sína gagnvart búsetturéttarhöfum í félaginu. Þ.e. félagið hefur ekki viljað viðurkenna að því beri að kaupa þann hlut sem búsetturéttarhafarnir, sem flestir eru á efri árum, greiddu inn í félagið, til baka þegar þeir vilja komast út úr því aftur.
Og margir vilja nú komast út, enda hafa vondar fjárfestingar á árunum fyrir hrun gert það að verkum að Búmenn eru tæknilega gjaldþrota og í greiðslustöðvun.
Afdrifarík "stemning"
Hugmyndin að baki Búmönnum, sem voru stofnaðir árið 1998, var sú að búa til húsnæðissamvinnufélag sem byggði íbúðir fyrir 50 ára og eldri. Íbúarnir áttu sjálfir að greiða 10-30 prósent af byggingarkostnaðinum en Búmenn að taka lán hjá Íbúðalánasjóði til 50 ára fyrir því sem vantaði upp á til greiða greiða verktakanum sem byggir húsnæðið. Félagið sendir síðan íbúum mánaðarlegan greiðsluseðil vegna þeirra gjalda sem falla mánaðarlega á híbýli þeirra. Á meðal þess sem er innifalið í þeirri greiðslu eru afborganir lána, fasteignagjöld, tryggingar, viðhaldssjóður, hússjóður og þjónustugjald. Reksturinn er ekki ágóðastarfsemi. Það er því enginn að taka arð út úr félaginu.
Árið 2003 voru sett ný lög um húsnæðissamvinnufélög. Í þeim var opnað fyrir þann möguleika að búseturétthafar gætu sagt upp búseturétti sínum með sex mánaða fyrirvara. Ef ekki tækist að selja búseturéttinn átti rétthafinn rétt á því að fá hann greiddan frá húsnæðisamvinnufélaginu tólf mánuðum eftir að þeir sex mánuðir voru liðnir. Virði réttarins uppfærðist á þessum tíma í takt við vísitölu neysluverðs.
Í samtali við Kjarnann í september 2013 sagði Daníel Hafsteinsson, framkvæmdastjóri Búmanna, að „stemning“ hefði myndast á meðal félaga innan Búmanna um að breyta þessu fyrirkomulagi. Fólki hafi fundist vísitala neysluverðs ekki hafa mælt nægilega vel hækkun á húsnæðisverði.
Magnús Stefánsson man ekkert eftir staðfestingu
Á aðalfundi Búmanna árið 2006 var því samþykkt að breyta samþykktum félagsins á þann veg að kaupskylda þess yrði afnumin og að heimilt yrði að selja búseturétt á markaðsverði. Þetta þýddi í raun að Búmönnum bar ekki lengur nokkur skylda til að kaupa búseturétt af þeim félagsmönnum sem vildu losna úr íbúðum sínum. Þess í stað þurftu félagsmennirnir sjálfir að selja búseturéttinn á frjálsum markaði, og á markaðsverði, eða gera aðrar ráðstafanir gengi það ekki eftir.
Til að ganga úr skugga um að Búmönnum væri stætt á þessari breytingu var sent inn erindi til félagsmálaráðuneytisins.
Þann 29. ágúst 2006 svaraði það með bréfi stílað á Daníel Hafsteinsson, framkvæmdastjóra Búmanna. Í bréfinu, sem Kjarninn hefur undir höndum, er honum tilkynnt að ráðuneytið staðfesti samþykktar breytingar á samþykktum Búmanna sem feli í sér að „afnema kaupskyldu félagsins og að heimilt sé að selja búsetturétt á svonefndu markaðsverði“.
Bréfið sem sent var til Búmanna vegna staðfestingar ráðuneytisins. Líkt og sést á myndinni var það sent fyrir hönd ráðherra. Magnús Stefánsson, þáverandi félagsmálaráðherra, man hins vegar ekkert eftir málinu.
Undir bréfið skrifar þáverandi skrifstofustjóri í félagsmálaráðuneytinu „fyrir hönd ráðherra“. Kjarninn hafði samband við Magnús Stefánsson, þáverandi félagsmálaráðherra ,vegna málsins og spurði hann hvort að Magnús hefði samþykkt að staðfesta umræddar breytingar. Magnús sagðist ekkert muna eftir málinu. Hann gat því ekki sagt af eða á um hvort staðfesting ráðuneytisins hefði verið gefin með hans samþykki eða ekki.
Vondar fjárfestingar skila félaginu í greiðslustöðvun
Eftir hrun hafa Búmenn glímt við mikla greiðsluerfiðleika heimild félagsins til greiðslustöðvunar var samþykkt af héraðsdómi Reykjavíkur í maí síðastliðnum. Í lok árs 2014 var eigið fé félagsins enda orðið neikvætt um 540 milljónir króna. Vandræði Búmanna eru fyrst og síðast til komin vegna framkvæmda sem félagið ákvað að ráðast í á Suðurnesjum og í Hveragerði fyrir hrun. Þær íbúðir, en alls eru 38 prósent eigna Búmanna á þessum tveimur svæðum, hafa selst illa og tekjur því alls ekki verið í samræmi við það sem þarf til svo hægt sé að þjónusta lánin sem tekin voru til að byggja þær. Enda hefur húsnæðismarkaðurinn á þessum svæðum, sérstaklega á Suðurnesjum, verið afleitur eftir hrun.
Í glærukynningu sem sýnd var á kröfuhafafundi í lok maí sagði meðal annars: „Fjárhagsvandi Búmanna er umtalsverður og fyrirsjáanlegt að félagið mun ekki geta staðið við skuldbindingar sínar að óbreyttu[...] Ljóst er að félagið mun ekki geta staðið af sér fjárhagsvandann nema til komi breytt uppgjörsfyrirkomulag gagnvart búseturéttarhöfum annars vegar og afskrift hluta af veðskuldum frá ÍLS hins vegar“.
Á mannamáli þýðir þetta að kaupskyldu Búmanna á hlut þeirra sem búa í húsum félagsins en vilja það ekki lengur, verði afnumin.
Til að leysa þennan vanda þarf, að mati forsvarsmanna Búmanna, tvennt að gerast. Annars vegar að flytja eignir með lakari nytingu, sem minnst var á hér að ofan, yfir í leigufélag gegn því að Íbúðalánasjóður létti á greiðslubyrði vegna þeirra. Hins vegar er það sem kallað er „breytt uppgjörsfyrirkomulag búseturéttar með innlausnarskyldu“. Á mannamáli þýðir þetta að kaupskyldu Búmanna á hlut þeirra sem búa í húsum félagsins en vilja það ekki lengur, verði afnumin.
Búseturétthafar telja sig blekkta
Þetta hefur lagst ákaflega illa í búseturétthafa, þ.e. að afnema eigi kaupskylduna. Gunnar Kristinsson, formaður vinnuhóps á vegum búseturétthafa, sagði í fréttum RÚV í maí að verið væri að blekkja búseturétthafa. „Vegna þess að það eru margar sögur um það að fólki finnist stjórn Búmanna og starfsmenn hafa blekkt búsetuhafa. Bæði þá sem hafa verið að kaupa sig inn í íbúðir á síðasta ári þar sem þeir hafa fengið upplýsingar um að það sé allt í góðu lagi með ástandið á Búmönnum. Og síðan þetta fólk sem hefur gert þessa samninga við Búmenn um þessa kaupskyldu sem orðið hefur til þess að fólkið kom inn í þetta kerfi.“
Þessi baráttu milli búsetuhafa og forsvarsmanna Búmanna um hvort félagið sé skylt til að endurgreiða búseturéttargjald þegar íbúi vill flytja út úr húsnæði á vegum þess. Kjarninn greindi frá því í september 2013 að Guðlaug Gunnarsdóttir hefði sagt upp samningi sínum við Búmenn í byrjun þess árs og vildi fá endurgreitt. Búmenn höfnuðu uppsögn hennar og í bréfi frá framkvæmdastjóra félagsins kom fram að litið væri á samning Guðlaugar væri óuppsegjanlegur. Kaupskylda væri einfaldlega ekki fyrir hendi og vísað var í samþykktirnar sem stjórn félagsins hafði samþykkt 2006, og félagsmálaráðuneytið staðfesti.
Annað hljóð í ráðuneytið
Búseturéttarhafarnir hafa ekki viljað una þessari afstöðu og hafa leitað skýringa hjá félags- og húsnæðisráðuneytinu. Í sumar barst síðan Gunnari Kristinssyni, formanni vinnuhóps búseturéttarhafa, bréf frá lögfræðingi ráðuneytisins þar sem segir meðal annars að það sé ekki mælt fyrir um það í húsnæðissamvinnufélög að ráðuneytið skuli staðfesta breytingar á samþykktum húsnæðissamvinnufélaga sem tilkynntar eru ráðuneytinu. „Það er því mat ráðuneytisins að það hafi ekki heimild að lögum til að fjalla um breytingar á samþykktum húsnæðissamvinnufélaga. Verður þannig að líta svo á að um yfirsjón hafi verið að ræða af hálfu ráðuneytisins að staðfesta breytingar á samþykktum Búmanna hsf.“.