Stjórn Persónuverndar hyggst afgreiða athugun stofnunarinnar á samskiptum Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur, þáverandi lögreglustjóra á Suðurnesjum, og Gísla Freys Valdórssonar, þáverandi aðstoðarmanns Hönnu Birnu Krisjtánsdóttur innanríkisráðherra, við upphaf lekamálsins svokallaða, á fundi sínum á morgun.
Í kjölfar umfjöllunar DV þann 18. nóvember síðastliðinn um samskipti Sigríðar Bjarkar og Gísla Freys, sem áttu sér stað daginn sem fyrstu fréttirnar um hælisleitandann Tony Omos birtust, þar sem fram kom að Sigríður Björk hefði sent aðstoðarmanni ráðherra tölvupóst með greinargerð um Tony Omos, sendi Persónuvernd lögreglunni á Suðurnesjum póst þar sem óskað var skýringa varðandi sendingu umræddar greinargerðarinnar. Bréfið var sent 19. nóvember, eða daginn eftir umfjöllun DV.
Kjarninn greindi frá því 27. nóvember að áðurnefndan tölvupóst væri hvorki að finna í innanríkisráðuneytinu né hjá embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum. Persónuvernd fór þá fram á að Sigríður Björk afhenti tölvupóstinn, sem hún varð síðar við.
Sigríður Björk, sem nú gegnir stöðu lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, hefur staðfastlega neitað að hafa viðhafst nokkuð sem stangast á við góða starfshætti, en eins og Kjarninn benti á í ítarlegri fréttaskýringu í lok nóvember eru uppi ýmis álitamál um hvort Sigríði hafi verið heimilt að afhenda Gísla Frey umbeðna greinargerð, meðal annars vegna þess að hann hafi ekki verið til þess bær að óska eftir slíkum upplýsingum. Þá vakti óneitanlega athygli þegar Sigríður sagði í viðtali við RÚV að hún hefði aldrei látið lögreglu vita af samskiptum hennar og Gísla á meðan rannsókn lekamálsins stóð.
Eftir stjórnarfund hjá Persónuvernd á morgun verður niðurstaða stofnunarinnar send þeim Sigríði Björk og Gísla Frey. Niðurstaða Persónuverndar er endanleg, en búast má við að hún verði birt á vefsíðu stofnunarinnar síðdegis á mánudaginn, til að tryggja að niðurstaðan berist málsaðilum áður en hún verður birt opinberlega.