Nokkrir stjórnendur Símans og hópur annarra fjárfesta, meðal annars erlendra, keyptu í dag fimm prósent hlut í félaginu á 1.330 milljónir króna. Miðað við það verð er markaðsvirði Símans 26,6 milljarðar króna. Hópinn leiðir hollenski fjárfestirinn Bertrand Kan, sem er fyrrum yfirmaður hjá Morgan Stanley. Kan þekkir vel til Símans, en hann stýrði meðal annars söluferli hans árið 2005, þegar Síminn var einkavæddur, fyrir hönd Morgan Stanley.
Á meðal annarra sem keyptu er Orri Hauksson, forstjóri Símans, sem keypti samtals 0,4 prósent hlut fyrir um 106 milljónir króna.
Þá vekur athygli að fyrrum forstjóri eins helsta samkeppnisaðila Símans, Vodafone á Íslandi, er á meðal þeirra fjárfesta sem tilheyra hópnum. Sá heitir Ómar Svavarsson og stýrði Vodafone á Íslandi í fimm ár, eða þar til í maí 2014 þegar honum var sagt upp störfum. Ómar hafði þá starfað hjá Vodafone frá árinu 2005.
Eftir söluna á Arion banki enn 33 prósent hlut í Símanum, sem stærsta fjarskiptafyrirtæki landsins. Stefnt er að því að skrá hlutabréf Símans í Kauphöll Íslands í haust og í aðdraganda þess áformar Arion banki að minnka enn frekar hlut sinn. Aðrir stórir eigendur Símans eru íslenskir lífeyrissjóðir, þeirra stærstur er Lífeyrissjóður verslunarmanna 13,23 prósent hlut.
Menn sem störfuðu hjá Morgan Stanley og Goldman Sachs
Fjárfestahópurinn samanstendur af fjárfestum frá fimm löndum ásamt nokkrum af stjórnendum Símasamstæðunnar. Á meðal þeirra er Orri Hauksson, forstjóri Símans. Aðrir úr stjórnendahópnum sem kaupa eru þeir sem sitja framkvæmdastjórnarfundi Símans (framkvæmdastjórar Símans eru Birna Ósk Einarsdóttir, Magnús Ragnarsson, Eric Figueras og Óskar Hauksson), framkvæmdastjóri Mílu (Jón Ríkharð Kristjánsson) og framkvæmdastjóri Sensa (Valgerður Hrund Skúladóttir).
Til viðbótar eru fimm erlendir einstaklingar í fjárfestingahópnum. Þeir eru, auk Kan, þeir Joe Ravitch, Adam Samuelsson, Troels Askerud og Kaj Juul-Pedersen. Hópurinn kemur úr ýmsum áttum en Ravitch var til að mynda í stjórnendahópi Goldman Sachs í á annan áratug og Juul-Pedersen er fyrrum framkvæmdastjóri hjá Ericsson.
Þá eru þrír íslenskir einkafjárfestir líka með í hópnum. Á meðal þeirra er Sigurbjörn Þorkelsson, sem starfaði lengi sem yfirmaður hjá Lehman Brothers, var einn eigandi Haga og stofnaði fyrr á þessu ári verðbréfamiðlunina Fossa markaði með nokkrum fyrrum lykilstarfsmönnum úr Straumi. Hinir íslensku fjárfestarnir eru Stefán Ákason, fyrrum forstöðumaður skuldabréfamiðlunar Kaupþings, og Ómar Svavarsson, fyrrum forstjóri Vodafone á Íslandi.
Ómar Svavarsson var forstjóri Vodafone þegar það félag var skráð í Kauphöll Íslands. Nú er hann hluthafi í Símanum.
Markaðsvirði Símans 26,6 milljarðar
Kaupverðið fyrir fimm prósent hlutinn var 1.330 milljónir króna , eða um 2,5 krónur á hlut. Síminn birtir ekki hálfsársuppgjör sitt fyrr en 27. ágúst en félagið hagnaðist um 3,3 milljarða króna á árinu 2014. Hagnaður þess fyrir fjármagnskostnað, afskriftir og skatta var 8,3 milljarðar króna, velta þess um 30 milljarðar króna og eigið fé félagsins 29,9 milljarðar króna.
Miðað við kaupverðið sem stjórnendur Símans og alþjóðlegir viðskiptafélagar þeirra greiddu fyrir fimm prósent hlut í félaginu þá er markaðsvirði Símans 26,6 milljarðar króna, eða nokkru lægra en eigið fé hans um síðustu áramót.
Orri Hauksson, forstjóri Símans.
Orri Hauksson er sá stjórnandi Símans sem keypti stærstan hlut þeirra sem festu sér fimm prósent í Símanum í dag. Hann fer nú með 0,4 prósent hlut og miðað við uppgefið kaupverð hefur hann greitt um 106 milljónir króna fyrir þann hlut. Samkvæmt upplýsingum frá Símanum er algengasta upphæð sem keypt var fyrir á meðal annarra stjórnenda átta til tíu milljónir króna.
Í dag var einnig tilkynnt um að stjórn Símans leggi til að fastráðnir starfsmenn fyrirtækisins fái allir tækifæri til að eignast hlutafé í félaginu þegar það verður skráð á markað í haust. Starfsmenn munu geta á fimm árum tryggt sér hlutabréf fyrir allt að sex hundruð þúsund krónur árlega. Sama verð mun standa starfsmönnunum til boða í valréttaráætluninni og fjárfestarnir sem keyptu í dag fengu bréf sín á, eða 2,5 krónur á hlut.
Skráð á markað í haust
Orri tilkynnti það á Kauphallardögum Arion banka 8. apríl síðastliðinn að Síminn yrði skráður á hlutabréfamarkað í haust. Arion banki og Arctica Finance hafa unnið að undirbúningi hlutafjárútboðs vegna skráningarinnar. Ljóst hefur verið um nokkurt skeið að Arion banki ætlaði að selja hluta af eign sinni í Símanum í aðdraganda skráningarinnar en ekki hefur legið fyrir hversu stór sá hluti yrði.
Rúmlega viku síðar var tilkynnt um sameiningu Símans og Skjásins, sem rekur meðal annars Skjáeinn, Skjábíó, Skjákrakka, Skjáheim, Skjásport og útvarpsstöðina K100,5, í morgun. Í raun hefði þetta skref verið stigið fyrir mörgum árum síðan ef eftirlitsyfirvöld hefðu heimilað það, enda Skjárinn verið systurfélag Símans í áratug.
Þess í stað hafði Skjárinn verið að kaupa þjónustu af Símanum árum saman sem gerði það að verkum að skuld upp á meira en milljarð króna hafði myndast á efnahagsreikningi Skjásins. Þeirri skuld var að mestu breytt í hlutafé í lok árs 2013. Síminn hefur á móti, vegna skilyrða sem sett voru af Samkeppniseftirlitinu árið 2005, ekki mátt nýta efni Skjásins við sölu á vörum sínum innan fjarskiptahluta félagsins.
Þetta breyttist allt með því að Samkeppniseftirlitið lyfti hömlum á samstarfi milli félaganna í vor.
Nú er þetta allt breytt. Og ljóst að íslenskir neytendur munu finna vel fyrir þeirri eðlisbreytingu sem er að eiga sér stað á fjölmiðla- og fjarskiptamarkaði á næstu misserum.
Mikið tap eftir hrun
Skipti, móðurfélag Símans, var sameinað dótturfélaginu Símanum á síðasta ári og er samstæðan nú öll rekin undir nafni Símans. Mikill viðsnúningur hefur orðið á rekstri hennar á undanförnum árum. Á tímabilinu 2008 og til loka árs 2013 tapaði félagið samtals 50 milljörðum króna. Í fyrra hagnaðist félagið hins vegar í fyrsta sinn frá hruni, um 3,3 milljarða króna.
Hið mikla tap sem var á rekstri Skipta á árunum eftir hrun var að stóru leyti tilkomin vegna þess að viðskiptavild félagsins var skrúfuð niður um 33 milljarða króna frá árslokum 2008. Á árinu 2013, sama ári og fjárhagslegri endurskipulagningu Skipta lauk, bókfærði félagið til að mynda 17 milljarða króna tap þrátt fyrir að hagnaður fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta hefði verið 8,3 milljarðar króna.
Síminn hefur áður verið á markaði
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Símann fer á markað. Þegar Exista, og viðskiptalegir meðreiðarsveinar þess áður stórtæka fjárfestingarfélags, keyptu Símann af íslenska ríkinu undir hatti félags sem fékk nafnið Skipti á upphæð sem í dag myndi vera um 140 milljarðar króna, árið 2005 fylgdu því ákveðin skilyrði. Eitt slíkt var ákvæði í kaupsamningi um að almenningi og öðrum fjárfestum yrði boðið að kaupa 30 prósent hlut í félaginu í gegnum hlutafjárútboð og skráningu á markað.
Þegar kom að skráningunni í mars 2008 voru óveðursskýin farin að hrannast upp yfir íslensku viðskiptalífi og hlutabréfaverð hafði hríðfallið mánuðina á undan. Skipti voru skráð á markað en fljótlega eftir að fyrstu viðskipti voru hringd inn á skráningardeginum gerði Exista yfirtökutilboð í félagið. Skipti voru síðan afskráð nokkrum mánuðum síðar.