Greiningaraðilar telja að útboðsgengi í tilboðsbók B hjá Símanum verði allt að 3,2 krónur á hlut, en útboði á 18-21 prósent hlut í honum lýkur á miðvikudag. Þar af verður 13-16 prósent selt í gegnum tilboðsbók B. Þeir telja einnig að verðið muni hækka á næstu tólf mánuðum í kjölfar skráningar Simans á markað, eru jákvæðir á kaup í útboðinu og segja að færa með rök fyrir þvi að þátttakendur í því fái að njóta frumútboðafsláttar. Þetta er meðal þess sem kemur fram í greiningum IFS-greiningar og Greiningar Íslandsbanka á hlutafjárútboði Símans, sem Kjarninn hefur undir höndum.
Í lok ágúst var hópi stjórnenda í Símanum og völdum fjárfestum seldur fimm prósent hlutur í félaginu fyrir 2,5 krónur á hlut. Miðað við efstu spá greiningaraðila hefur virði hlutar þeirra þegar hækkað um 28 prósent. Auk þess var völdum viðskiptavinum í einkabankaþjónustu Arion banka, seljenda hlutanna og umsjónaraðila útboðsins, seldur hlutur á genginu 2,8 krónur á hlut fyrir nokkrum dögum síðan. Sá hlutur er orðinn rúmlega fjórtán prósent verðmætari í dag miðað við vænt útboðsgengi.
Útboði lýkur á miðvikudag
Almennt útboð á 18-21 prósent hlut í eigu Arion banka í félaginu hófst í dag á að ljúka á miðvikudag. Útboðið fer þannig fram að um tvær tilboðsbækur verður að ræða. Í þeirri fyrri, tilboðsbók A, geti þeir skráð sig sem vilja kaupa hlut fyrir 100 þúsund krónur og upp að tíu milljónum króna. Þetta eru litlir fjárfestar. Þeim býðst að bjóða á bilinu 2,7 til 3,1 krónur á hlut. Takmarkaður hlutur er í boði og því gilda því vitanlega hæstu tilboð umfram önnur. Með öðrum orðum ætti tilboð upp á 3,1 krónur á hlut að duga áhugasömum fjárfesti til að eignast hlut í Símanum í útboðinu. Í gegnum þessa tilboðsbók ætlar Arion banki að selja fimm prósent hlut í Símanum.
Seinni tilboðsbókin, tilboðsbók B, er fyrir þá sem ætla að kaupa fyrir meira en tíu milljónir króna. Í gegnum hana fer stóra útboðið fram, enda eru þar til sölu 13 til 16 prósent hlutur í Símanum.
Þeir sem taka þátt í þessari leið eru aðallega fagfjárfestar, meðal annars lífeyrissjóðir. Í þessari leið er ekkert hámark á því hvað viðkomandi fjárfestir getur skráð sig fyrir stórum hluta þess hlutafjár sem er til sölu, en ef umframeftirspurn verður, sem er oftast í íslenskum hlutafjárútboðum, meðal annars vegna einsleits fjárfestingaumhverfis hagkerfis í höftum, mun sú upphæð skerðast. Í þessari leið er einungis lágmarksverð, 2,7 krónur á hlut, en ekkert hámarksverð.
Vænt útboðsgengi 3,2 krónur á hlut
Sérfræðingar hafa undanfarið verið að greina útboðið fyrir viðskiptavini sína. Kjarninn hefur undir höndum tvær slíkar greiningarskýrslur. Sú fyrri er frá IFS-greiningu. Samkvæmt henni býst IFS-greining við því að fjárfestar í tilboðsbók B muni greiða 3,2 krónur á hlut í útboðinu og að það verð sé sanngjarnt. Þar segir einnig að sú greining byggi á spá um að virði hlutar fari upp í 3,6 krónur á hlut innan árs. IFS eru jákvæðir á kaup í útboðinu og segja að færa með rök fyrir þvi að þátttakendur í því fái að njóta frumútboðafsláttar.
Hitt matið er frá Greiningu Íslandsbanka. Samkvæmt því er verðmatsgengi hlutar í Símanum 3,08 krónur á hlut, eða rétt við efra verðbil tilboðsbókar A, sem 3,1 krónur á hlut. Þetta verðmat byggir á sjóðstreymisgreiningu á Símanum miðað við 9,6 prósent ávöxtunarkröfu.
Búist er við því að fyrsti viðskiptadagur Símans á aðalmarkaði Kaupahallar Íslands verði 15. október næstkomandi.
Stjórnendur og valdir fjárfestar fengu að kaupa
Á síðustu vikum, í aðdraganda útboðsins valdir aðilar, hópur fjárfesta, yfirstjórnendur Símans og vildarviðskiptavinir Arion banka, fengið að kaupa hluti í Símanum á mun lægra verði en því sem greiningaraðilar spá að fjárfestar þurfi að greiða í útboðinu.
Í ágúst siðastliðinum fékk félagið L1088 ehf. að kaupa fimm prósent hlut í Símanum á genginu 2,5 krónur á hlut. Sá hópur var settur saman af Orra Haukssyni, forstjóra Símans, og hann átti frumkvæði að því að leita til Arion banka til að koma viðskiptunum á. Að hópnum standa nokkrir erlendir fjárfestar með reynslu úr fjarskiptageiranum og Orri. Forstjórinn á alls 0,4 prósent hlut í Símanum og greiddi hann rúmlega 100 milljónir króna fyrir hlutinn.
Aðrir í yfirstjórn Símans fengu líka að kaupa hluti. Eign þeirra er þó öllu minni, en stjórnendurnir keypta alls fyrir um 1,8 milljón króna í eigin nafni. Þessum kaupum fylgja ákveðnar söluhömlur. L1088 ehf, félag Orra og fjárfestanna, má ekki selja fyrr en í janúar 2017 og yfirstjórnendurnir mega ekki selja fyrr en 1. mars 2016.
Á hluthafafundi sem haldinn var hjá Símanum skömmu eftir að ákvörðunin um að selja ofangreindum hópi fimm prósent hlut var handsalað að öllum fastráðnum starfsmönnum myndi bjóðast að kaupa fyrir allt sex hundruð þúsund krónur á ári á genginu 2,5 krónur á hlut í þrjú ár. Þegar hafa 613 starfsmenn gert samninga um slík kaup fyrir samtals 1,1 milljarð króna. Nýtt hlutafé verður gefið út vegna kaupréttaráætlunar starfsmanna. Við það þynnist hlutur annarra hluthafa, sem að mestu eru íslenskir lífeyrissjóðir.
Hlutur þeirra sem fengu að kaupa á 2,5 krónur mun hafa hækkað um 28 prósent ef skráningargengi Símans verður það sem IFS-greining spáir að það verði, eða 3,2 krónur á hlut.
Síðari hluta septembermánaðar, nokkrum dögum áður en yfirstandandi hlutafjárútboð hófst, fengu nokkrir valdir viðskiptavinir Arion banka að kaupa fimm prósent hlut í Símanum á genginu 2,8 krónur á hlut. Ekki hefur verið gefið upp hverjir fjárfestarnir eru. Þessi hópur má ekki selja hluti sína fyrr en 15. janúar 2016. Hlutur þessa hóps mun hafa hækkað um 14,3 prósent í verði á nokkrum dögum miðað við spá IFS-greiningu um útboðsgengi.