Ljósmyndarinn Martin Schulz er sannkallaður Íslandsvinur. Hann hefur heimsótt landið 15 sinnum og myndað íslenska náttúru og landslag allt árið um kring. Ljósmyndir Martins hafa margoft birst á íslenskum netmiðlum en nú hefur verið sett á fót verkefni á hópfjármögnunarvefnum Karolina Fund þar sem unnendur íslenskrar náttúru og landslags geta fengið hágæða ljósmyndabók með myndum hans frá Íslandi. Bókin verður á íslensku, ensku og þýsku.
Hópfjármögnunin er samvinnuverkefni á milli Martins, Jóns Heiðar Þorsteinssonar sem ritstýrir bókinni og Aðalheiðar Ormarsdóttur sem sér um umbrot og hönnun. Um er að ræða sérútgáfu sem er aðeins hægt að fá á Karolina Fund.
Hver er sagan á bakvið bókina?
Fyrir nokkrum árum síðan kynntumst við Jón Heiðar í gegnum ferðavefinn hans Stuck in Iceland en undanfarin tvö ár hef ég skrifað nokkrar greinar fyrir vefinn og birt fjölda mynda þar. Jón Heiðar sagði strax við mig að hann væri hrifinn af myndunum mínum og að hann vildi gefa þær út á fallegri ljósmyndabók. Fyrir nokkrum vikum spurði hann mig svo hvort við ættum að prófa að safna fyrir bókinni á Karolina Fund og ég heillaðist alveg af hugmyndinni. Ég vona innilega að við náum að safna fyrir prentun og útgáfu bókarinnar. Mér finnst mjög mikilvægt að bókin sé hönnuð og prentuð á Íslandi enda eru myndirnar í henni óður til landsins sem hefur heillað mig í gegnum árin. Jón Heiðar lagði upp verkefnið og setti upp fjárhagsáætlun á meðan ég byrjaði að safna saman myndum. Ég fór svo í mína fimmtándu ferð til Íslands í lok október til að hitta Jón Heiðar og Aðalheiði hönnuð, sem Jón Heiðar fékk til liðs við okkur, til að vinna í bókinni með þeim. Við höfum skýra sýn á hvernig bókin á að líta út og ég er búinn að velja um 50 myndir fyrir hana þannig að þetta er allt að fæðast hjá okkur.
Hvar eru ljósmyndirnar í bókinni teknar?
Á ferðum mínum hef ég haft tækifæri til að kanna Ísland á milli fjalls og fjöru. Ég byrjaði að koma hingað á sumrin en komst fljótt að því að það er vel þess virði að heimsækja Ísland allt árið um kring. Ég kom hingað vorið 2010 þegar gosið í Eyjafjallajökli stóð sem hæst og síðan þá hef ég komið hingað á haustin og á vetrum. Á þessum ferðum mínum hef ég tekið mikinn fjölda mynda á öllum árstíðum út um allt land, bæði á þekktum stöðum en einnig á stöðum sem ekki er hægt að kalla annað en falda fjársjóði. Á Íslandi er fullt af náttúruundrum og stórkostlegum stöðum sem hægt er að koma til þúsund sinnum en það er alltaf hægt að finna ný sjónarhorn. Á ferðum mínum hefur ég upplifað afl náttúrunnar og margbreytileika Íslands, allt frá eldgosum, norðurljósum og rokkhátíðinni Eistnaflug sem er alveg þrælmögnuð.
Er eitthvað þema í ljósmyndum þínum?
Mér finnst ég alltaf svo smár á Íslandi og ég ber gríðarlega virðingu fyrir því fólki sem hér nam land og dugnaði þess. Ég geri mitt besta til þess að myndirnar mínar fangi allt þetta. Ég hef myndað landið og fegurð íslenskra náttúruperlna á öllum árstíðum. Þannig fær maður sanna og margbrotna mynd af þessu stórkostlega landi.
Áttu þér uppáhalds ljósmynd úr þínu safni?
Þetta er erfið spurning! Flestar myndirnar mínar minna mig á augnablikið þegar þær voru teknar og þetta eru allt góðar minningar. Ég á mér þó fjóra staði sem eru í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Fyrst vil ég nefna Jökulsárlón og nágrenni. Ég er svo hrifinn af þessum stað að ég bað konunnar minnar, Alice, þar. Búðir á Snæfellsnesi er yndislegur staður og þar er kjörið að eyða brúðkaupsafmælinu sínu við sólarupprás eins og við hjónin gerðum. Staður sem færri kannast við er Brúarfoss. Að fjölda smárra fossa falli saman í djúpbláan hyl er svo sannarlega stórkostlegt. Ég hef varið ófáum morgnum, kvöldum og nóttum við Kirkjufell á Snæfellsnesi á sérstökum stað sem er fullkominn fyrir myndatökur. Mynd sem sýnir fjallið umvafið norðurljósum er sjálfsagt fallegasta myndin sem ég hef tekið.
Verkefnið er að finna hér