Djúp spor er nýtt heimildarverk um baráttuna við ástina, áföll og fyrirgefninguna. Verkið er unnið upp úr viðtölum við einstaklinga sem þekkja afleiðingar ölvunaraksturs af eigin raun. Verkið er unnið og leikið af Jennýju Láru Arnórsdóttur og Jóel Sæmundssyni.
Byggir það á raunverulegum atburðum, en Jenný Lára hefur áður unnið verkið Elska með þessari aðferð. Elska var unnið upp úr viðtölum varðandi hugmyndir fólks um ástina og sambönd. Það var sýnt víða á Norðurlandi, í Reykjavík og á Act Alone leiklistarhátíðinni og hlaut góðar viðtökur. Leikstjóri er Bjartmar Þórðarson en hann hefur komið víða við sem leikstjóri, dramatúrg og leikari, nú síðast með eigin verki, Gripahúsinu, í Tjarnarbíói, sem var frumsýnt í gær, og í 90(210) Garðabæ í Kassa Þjóðleikhússins. Jóel hefur aðallega verið að vinna við sjónvarpsþætti og kvikmyndir undanfarið og líklegast kannast einhverjir við hann úr sjónvarpsþáttunum Ófærð þar sem hann fór með hlutverk Þórs.
Hver er bakgrunnur leikhópsins Artik?
Leikhópurinn Artik var stofnaður af þeim Jennýju Láru Arnórsdóttur og Unnari Geir Unnarssyni árið 2012. Þá voru þau bæði tiltölulega nýútskrifuð frá leiklistarskólanum KADA í London og langaði bæði til að flytja heim til Íslands. Þau voru á röltinum í miðbæ London þegar talið barst að því hvernig best væri að bera sig að þegar heim kæmi. Þar sem þau lærðu leiklist erlendis kannaðist lítið af bransafólki við þau þannig að þau vissu að ekki yrði auðvelt að fá starf við leikhúsin strax. Þau höfðu ekki heldur nein sambönd í kvikmyndaiðnaðinum.
Þeim var því ljóst að eina leiðin væri að stofna sjálfstæðan leikhóp þar sem þau myndu skiptast á að leika og leikstýra og fá svo aðra listamenn til samvinnu. Þau hoppuðu því næst inn í næsta Tesco, keyptu Prosecco og skáluðu á Trafalgar Square. Nokkrum vikum síðar fluttu þau bæði til Íslands og fljótlega hófust æfingar á Hinum fullkomna jafningja eftir Felix Bergson, þar sem Unnar lék og Jenný leikstýrði. Verkið var svo frumsýnd seinna um haustið á Norðurpólnum og ferðaðist síðan á Act Alone einleikjahátíðina á Suðureyri sem og á alþjóðlega hinsegin leiklistarhátíð í Dublin.
Þá var komið að Unnari að leikstýra og Jennýju að leika. Leikverkið Blink eftir Phil Porter varð fyrir valinu. Þriðji leikarin, Hafsteinn Þór Auðunsson bættist í hópinn en Súsanna Svavarsdóttir þýddi verkið á íslensku. Kallaðist það Blik á okkar ylhýra. Og nú er komið að næsta verki, Djúpum sporum. Í þetta sinn var ákveðið að búa til sýningu alveg frá grunni, skrifa handritið sjálf. Stuttu seinna var Unnar ráðinn í stöðu forstöðumanns Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs og sá sér því ekki fært að taka þátt í uppsetningunni. En í hópinn bættust þá þeir Jóel Sæmundsson leikari og Bjartmar Þórðarson leikstjóri.
Af hverju baráttan við ást, áföll og fyrirgefning?
Í verkinu eru báðar hliðar málsins skoðaðar. Við kynnumst bæði gerandanum og aðstandanda fórnarlambsins. Í Djúpum sporum kynnumst við Selmu og Alex sem hafa ekki hist í fimm ár. Þegar þau hittast fyrir tilvilun standa þau frammi fyrir því að þurfa að gera upp drauga fortíðar, ákveða hvort þau séu tilbúin til að axla ábyrgð á gjörðum sínum og fyrirgefa. Smám saman raðast saman sú atburðarrás sem varð til þess að þau slitu sambandi og er ástæða þess að þau eiga erfitt með að halda áfram með líf sitt.
Eitt af því þungbærasta sem við förum í gegnum í lífinu er þegar þegar einhver svíkur okkur eða gerir á okkar hlut, einkum ef það er manneskja sem við elskum. Þörfin fyrir að fyrirgefa er næstum óbærileg – en spurning hvort það er bara hægt. Stundum tekst það og stundum ekki. Það fara langflestir í gegnum slíkan tilfinningarússíbana einhverntímann á lífsleiðinni. Þess vegna ættu allir að geta samsamað sig verkinu. Jafnvel þótt aðstæður séu nokkuð rosalegar í verkinu skiljum við öll slíka tilfinningaárekstra. Fyrirgefning er mjög sterkt afl og við erum stöðugt að taka afstöðu til hennar, ekki síst í hvers kyn bataferlum.
Alvarlegar afleiðingar ölvunaraksturs geta verið all-rosalegar og bataferlið sem fylgir er langt og strangt. Í rauninni lýkur því aldrei. Það er alveg sama frá hvaða sjónarhorni þú skoðar það. Það er svo fjarri íslenskri þjóðarsál að taka líf annarrar manneskju. Við erum ein friðsælasta þjóð heims, með engan her og lögregly sem er sjaldnast vopnuð. Það var mjög sterk reynsla að skoða hvaða áhrif það hefur á manneskju að taka líf? Getur hún lifað með því? Fyrirgefur hún sjálfri sér? Og hvað með aðstandendur fórnarlambsins? Hvaða áhrif hefur þetta á líf þeirra? Geta þau nokkurn tíman fyrirgefið? Hvernig er bataferlið? Okkur langaði til að skoða hvernig áföll móta okkur og hafa áhrif á allt okkar líf. Hvernig ákvarðanir teknar af hugsunar- eða kæruleysi geta umturnað lífi okkar; hvernig við tökumst á við slíkt. Og það hefur verið ansi magnað að skoða hvað mannssálin er ótrúlega öflugt fyrirbæri.
Hvar munu sýningar á leikverkinu Djúp spor fara fram?
Fumsýning á Djúpum sporum verður í Tjarnarbíói 31. mars næstkomandi, en leikhópurinn fékk samstarfssamning við leikhúsið með sýninguna. Einnig stendur yfir söfnun á Karolina Fund þar sem hægt er að tryggja sér miða með því að styrkja sýninguna fyrirfram og þar með hjálpa hópnum við að búa sem best um sýninguna.
Verkefnið er að finna hér.