Útvarpsmaðurinn Atli Már Steinarsson var gestur Hismisins og gerði að vanda upp stóru málin í lífi sínu: Ástina, barneignir og framtíðina. Þeir Árni Helgason og Grétar Theodórsson fóru með Atla Má yfir parhúsakaup í Þorlákshöfn á bland.is, kosningamyndband Texas-Magga, hvernig samfélagsmiðar eru að drepa hreinræktaða sérvisku og afsökunarbeiðnir og útskýringar í kjölfar Panama-skjalanna.
Í Kviku vikunnar fóru þau Þórður Snær Júlíusson og Sunna Valgerðardóttir yfir formannsslaginn í Samfylkingunni, skort á erindi flokksins, forsetaframboð, allar hliðar á birtingu frétta úr Panamaskjölunum og áhrif þeirra. Og auðvitað mismunurinn á góðri afsögn og afleitri.
Í Tæknivarpinu ræddu þeir Gunnlaugur Reynir og Atli Stefán við blaðamennina Sæunni Gísladóttur og Samúel Karl Ólason. Umfjöllunarefni þáttarins er ársfjórðungsuppgjör Apple og staða fyrirtækisins. Sæunn og Samúel skrifuðu áhugaverða grein á Vísi um stöðu Apple og aðra um uppgjör samfélagsrisans Facebook. Hvað þýðir nýjasta reikningsuppgjör Apple fyrir fyrirtækið og markaðinn í heild? Eru engir eftir í heiminum til í að kaupa iPhone?