Slagorðið málað upp um alla veggi á Kúbu eftir fráfall Fídels Castro hljóðar svo: „Fídel er á meðal okkar allra.“
Engum dylst tvífeldnin í orðalaginu. Í fyrsta lagi þá mun stefna og arfleifð Fídels lifa áfram í stjórnarháttum landsins. Í öðru lagi má túlka orðin þannig að andi Fídels sé bókstaflega enn á meðal Kúbverja. Þess vegna má ekki gera grín að honum vegna þess að hann gæti heyrt til þín.
En þegar sólin skín og Kúbverjar eru spurðir um viðhorf sitt til Fídels minna svörin um margt á viðhorf Íslendinga til þjóðkirkjunnar. Mikill meirihluti manna er Fídelistar án þess þó að trúa sérstaklega á ágæti skoðana hans. Hins vegar er ólíkt með Íslendinga og Kúbverja að þeir fyrrnefndu þora fæstir að gera grín að þjóðkirkjunni en Kúbverjar eru snöggir til að hrista brandara um Fídel fram úr erminni.
Viðfangsefnið er oft ótrúlegt langlífi Fídels sem mannveru, byltingarleiðtoga, og forseta. Einn brandaranna hljóðar svo: Fídel liggur á spítala á níræðisaldri og frést hefur að hann gæti átt stutt eftir. Þúsundir manna hafa safnast saman fyrir utan spítalagluggann og Fídel spyr aðstoðarmann sinn til hvers fjöldinn sé samankominn. Aðstoðarmaðurinn svarar svo um að fólkið sé komið til að kveðja. Þá spyr Fídel: „Hver er allt þetta fólk að fara?“
Ein algengasta spurningin um Kúbu áður Fídel dó hljóðaði svo: „Verður maður ekki að heimsækja Kúbu áður en Castro deyr?“ Margir sáu fyrir sér allsherjar innreið bandarískrar neysluhyggju eftir fráfall hans. Í fyllingu tímans myndu Coca Cola og McDonalds auglýsingar hylja ásýnd Havanaborgar með öll sín fallegu sérkenni eins og spænskan nýlendu-arkítektúr, sólbrúnt fólk og amerískra dreka og aðra fornbíla sem þjóta um göturnar eins og í gömlum bíómyndum.
Rétt svar er að það verður alltaf gaman að koma til Kúbu. Fídel skilur eftir sig þjóðfélag sem er útsjónarsamara en flest önnur á heimskringlunni. Útlensk heimsveldi og neysluvörur munu aldrei skyggja á lífsgleðina sem einkennir eyjaskeggja á Kúbu. Sem dæmi um einstakt lífsviðhorf Kúbverja má benda á að ekki er hægt að ganga niður eina einustu götu í landinu án þess að vera heilsað af bláókunnugum manni og finna sig knúinn til að kasta kveðjunni til baka.
Til að fá hugmynd um hvaða breytingar og þróun eru í nánd þarf fyrst að gefa glögga mynd af því hvernig venjulegir Kúbverjar komast í gegnum dag hvern. Lífið á Kúbu er öðruvísi en víðast hvar annars staðar. Ástæður eins og vöruskortur og fátækt eru á meðal helstu skýringanna en hér að neðan eru fleiri ástæður tíundaðar:
Tvöfalt peningakerfi
Á Kúbu eru tveir gjaldmiðlar í notkun. kúbverski pesóinn (CUP) er í daglegu tali kallaður innlent reiðufé (moneda nacional á spænsku). Ríkisstarfsmenn fá greitt í þessum gjaldmiðli og greiða með honum fyrir helstu nauðsynjavörur. Sumar, eins og brauð og egg, eru verulega niðurgreiddar af ríkinu og skammtaðar skv. bók.
Hinn gjaldmiðillinn heitir skiptanlegi pesóinn (CUC). Í daglegu tali er jafnan vísað í skammstöfun hans sem gæti hljómað skemmtilega í eyrum Íslendinga. CUC má skipta í hlutföllunum einn á móti einum við Bandaríkjadal á ábyrgð Seðlabankans. Tilurð skiptanlega pesóans má rekja til svokallaðra dollarabúða sem opnuðu árið 1993 og einungis útlendingar og þeir sem höfðu sérstakt leyfi máttu versla þar. Árið 2004 var hætt að taka við dollurum í þessum búðum og skipt yfir í hina sérstöku kúbversku mynt, skiptanlega pesóann eða CUC. Smátt og smátt fjölgaði búðunum sem tóku við skiptanlega pesóanum (m.a. á bensínstöðvum) og notkun hans breiddist út. Flestöll viðskipti í höfuðborginni Havana fyrir utan almenna matvöru fara nú fram í kúk.
Opinberlega er gengi CUP gagnvart CUC einn á móti einum en í praxís er gengið 25 á móti 1. Örfáar opinberar stofnanir nota opinbera gengið. Sem dæmi má nefna að miði á sýningu þjóðarballetsins fræga kostar 30 CUP (um 150 íslenskar krónur) fyrir Kúbverja en fyrir útlendinga kostar hann 30 CUC (um 3.500 krónur). Hins vegar nota grænmetissalar raunverulega gengið og selja pundið af tómötum á 5 innlenda pesóa en ef kaupandinn þarf að greiða í skiptanlega pesóanum borgar hann 20 CUC sent (um 25 krónur íslenskar).
Kúbverjar upplifa muninn á peningunum þannig að þeir sjálfir eru dæmdir til að versla með verðlítinn pappír á meðan útlendingar og Kúbverjar sem fá peningasendingar erlendis frá kaupa vandaðri vörur sem verðlagðar eru í dollurum.
Helsti kostur innlenda pesóans er að almenningsvagnar taka hálfan slíkan í fargjald. Það kostar því heilar fimm krónur íslenskar að taka strætó á Kúbu ef fólk er til í troðninginn. Einnig er það kostur að fyrir flestar niðurgreiddar nauðsynjavörur sem skammtaðar eru þarf einungis að greiða fáránlega lágar upphæðir í CUP. Í hverjum mánuði fær fá fullorðnir 5 pund of grjónum, 3 pund af hvítum sykri, 2 pund af brúnum sykri, 1 lítinn pakka af kaffi, 1,5 pund af kjúklingi, hálft pund a svörtum baunum, 5 egg og 250 gr af matarolíu. Allt þetta í skiptum fyrir nokkra innlenda pesóa sem jafngilda u.þ.b. einum glansandi íslenskum fimmtíukalli. Á þriggja mánaða fresti fá þeir 1 kg af salti þannig að sjaldan er maturinn bragðlaus.
Nýlega innleiddu stjórnvöld reglugerð þar sem allir sölustaðir sem taka við skiptanlega pesóanum voru skyldaðir til að taka einnig við innlenda pesóanum. Var þetta gert til að reyna jafna hlut gjaldmiðlanna tveggja og auka vöruúrval fyrir almenning.
Efnahagsumbætur Raúl Castro, sem tók við sem forseti Kúbu af bróður sínum þegar hann veiktist árið 2006, eru undir miklum áhrifum ráðgjafa frá Kína. Þar í landi var sams konar tvöfalt peningakerfi við líði allt fram til 1987. Það kerfi var einnig hugsað fyrir útlendinga sem þurftu að kaupa FEC (e. Foreign Currency Permit) erlendis fyrir erlendan gjaldeyri. Ólíkt CUC sem er skiptanlegt út fyrir dollar var FEC væri skráð í kínverskum júönum með u.þ.b. 20% álagningu. Það kerfi var endanlega afleitt samfara bættum efnahag. Síðar átti júanið eftir að styrkjast svakalega.
Kúba á langt í land með geta afleitt tvöfalda peningakerfið. Enn fremur sér ekki fram á að endurbætur svipaðar þeim og ollu kínverska kraftaverkinu muni eiga sér stað í bráð.
Helsti munurinn er sá að þegar Deng Xiaoping opnaði Kína fyrir erlendum viðskiptum tók umheimurinn vel á móti kínverskum vörum og síðar fjármagni. Þegar Raúl byrjaði að opna Kúbu var viðskiptabann Bandaríkjanna við líði og er það enn þrátt fyrir þýðu í samskiptum við ríkisstjórn Obama.
Kúbverska ríkisstjórnin hefur heldur ekki boðið erlendu og brottfluttu kúbversku viðskiptafólki að koma með fjárfestingu inn í landið. Hin risavaxna og flókna innviða- og framleiðslufjárfesting sem er í Kína þekkist ekki á Kúbu.
Fyrir utan nokkur dæmi um opinber verkefni ríkisins og erlendra aðila þora einungis örfáir erlendir ævintýramenn, oft giftir kúbverskum mökum, að koma með fjármagn inn í landið og reyna byggja þar upp stöndug fyrirtæki. Til dæmis eru aðeins 20 Bretar skráðir til búsetu á Kúbu.
Efnahagsbreytingar Raúls
Árið 2006 varð Fídel Castro svo veikur að hann þurfti að láta af embætti. Hver veikindin voru nákvæmlega hefur aldrei verið útskýrt opinberlega en kenningar um ristilkrabbamein eða aðra kvilla í meltingarvegi hafa hlotið mestan hljómgrunn. Vitað er að hann var skorinn upp á Spáni. Heimspressan stóð á öndinni og beðið var eftir því hvort honum yrði endurkvæmt aftur heim til Kúbu.
Þegar hann féll frá tíu árum síðar tjáðu stjórnvöld sig ekki um dánarorsök hans. Líklegt er að hann hafi átt við banvæn veikindi að stríða síðasta áratug ævinnar. Sú staðreynd endurspeglar enn frekar einstakt langlífi hans.
Forsetaembættið fór fyrst tímabundið til Raúl Castro. Innan nokkurra ára var hann formlega búinn að taka við flestum æðstu stöðum ríkisins frá bróður sínum.
Í stað þess að fylgja hugsjónapólitík eldri bróður síns tók Raúl fljótlega til handa við efnahagslegar endurbætur sem enginn gat ímyndað sér að Fídel hefði nokkurn tíma samþykkt í stjórnartíð sinni.
Hann byrjaði á því skipa hátt setta menn í hernum í æðstu embætti ríkisstjórnarinnar. Oftar en ekki voru þetta gamlir fulltrúar úr stjórnsýslu hersins. Aðspurður af því af hverju hann leitaði til þeirra svaraði hann að þetta væru menn sem hann gæti treyst.
Eftir að hafa tryggt bakland sitt leyfði hann einkaframtak í ákveðnum atvinnugreinum líkt og hársnyrtingu og veitingarekstri. Hann sagði upp hundruðum þúsunda ríkisstarfsmanna og sagði í ræðu á þinginu árið 2010: „Við verðum að stroka út þá ímynd fyrir fullt og allt að Kúba sé eina landið í heiminum þar sem fólk geti lifað lífinu án þess að vinna.“
Hann skar niður eða aflagði hádegisverðarmötuneyti fyrir ríkisstarfsemi sem láku gríðarlegu magni matvæla sem hreinlega var stolið. Í staðinn fengu þeir matarpeninga sem duga ekki fyrir litlum pizzum með smá sósu og osti sem nú eru bakaðar á flestum götuhornum. Samanbrotnar gæða Kúbverjar sér á þeim inni í hálfri A4 ljósritunarblaðsíðu.
Raúl minnkaði niðurgreiðslur ríkisins á ýmsum vöru- og þjónustutegundum án þess þó, líkt og Deng gerði í Kína, að eyðileggja heilbrigðiskerfið. Almenna mennta- og heilbrigðiskerfið er enn til fyrirmyndar fyrir alla Ameríkuálfu. Því til viðbótar er félagslegur jöfnuður og jafnræði kynþátta eftirtektarverður á Kúbu, sérstaklega í samanburði við stóra grannan í norðri, Bandaríkin.
Raúl er enginn aukvisi þegar kemur að því að stjórna. Hann hefur ekki vílað fyrir sér að reka háttsetta embættismenn ef upp kemst um brigsl. Það gerði hann m.a. árið 2009 þegar myndbandsupptökur sýndu nokkra af æðstu leiðtogum landsins standa saman í veislu og hneykslast mannabreytingum Raúls sem voru í gangi. Í það skiptið rak hann fyrrum einkaritara Fídels, Felipe Perez Roque, sem þá var utanríkisráðerherra spáð að yrði næsti forseti landsins.
Sá sem nú þykir líklegastur til að taka við nú er Miguel Diaz-Canel. Hann er fyrrum fylkisstjóri Santa Clara, menntamálaráðherra og vara-forsætisráðherra í dag. Hann þykir vera praktískur rekstrarmaður sem lætur lítið fyrir sér fara. Hann var Bítlaaðdáandi og lét sér vaxa langt hár í þá tíð þegar litið var niður á þess slags nýmóðins fólk.
Diaz-Canel brýtur ekki eitt af skilyrðunum sem Raúl hefur sett fyrir framtíðar leiðtoga landsins. Líkt og í Kommúnistaflokki Kína má ekki tilnefna menn í æðsta ráð flokksins eftir að þeir eru orðnir sextugir. Diaz-Canel verður 59 þegar Raúl lætur af völdum.
Túrismi og brottfluttir Kúbverjar
Fyrsti túristinn sem kom til Kúbu gæti hafa verið Kristófer Kólumbus en þangað kom hann í fyrsta Ameríkuleiðangri sínum. Fyrst hélt hann að Kúba væri skagi sem teygði sig út úr Kína. Eyjaskeggjar sannfærðu hann um að svo væri ekki og hann hélt í austur heim á leið til Spánar.
Síðar lögðu Spánverjar Kúbu og mestalla Mið- og Suður Ameríku undir sig og byggðu upp sína helstu flotastöð í Havana. Borgin var í kjölfarið stundum kölluð Lykillinn að Indíum eða Perla Karíbahafsins.
Öll sú atvinnustarfsemi sem fylgir meiri háttar hafnarborg og meira til skaut rótum í Havana. Bakaraiðnin skaffaði þurrt brauð sem bakað var úr möluðu innlendu rótargrænmeti og entist vel á löngum sjóferðum. Brátt varð sykurreyr helsta útflutningsvaran og úr honum var eimað úrvals romm. Sérstaklega vinsælt var og er að njóta þess með annarri útflutningsvöru, kúbverska vindlinum.
Allt þetta, nema áðurnefnt brauð, stendur nú aftur til boða í Havana eftir að Fídel Castro opnaði landið fyrir erlendum ferðamönnum. Hann var neyddur til þess vegna skorts á gjaldeyri í kjölfar falls Sovétríkjanna snemma á tíunda áratugnum. Þar með hvarf helsti viðskiptavinurinn sem keypti sykur frá Kúbu dýrar en á heimsmarkaðsverði.
Af öllum þeim lægðum og kreppum sem herjað hafa á landið í seinni tíð er engin sem hlotið hefur sérstakt nafn líkt og sú sem geisaði eftir fall Sovétríkjanna. Tímabilið er kallað sérstaki tíminn (periodio especial á spönsku). Forsaga þess á rætur sínar að rekja til fyrstu áranna eftir byltinguna.
Fídel Castro stóð upp sem sigurvegari í frelsisbyltingu Kúbverja árið 1959. Þar með losaði hann landið, fyrstur þjóðarleiðtoga Kúbverja, undan afskiptum erlendra heimsvelda (Bandaríkjanna á þessum tíma en áður Spánar og um skamma hríð, Bretlands). Fljótlega varð ljóst að Fídel og Bandaríkin áttu ekki samleið og ríkisvæddi Fídel fjölda sykurplantekra og fyrirtækja sem áður höfðu notið forgangs á eynni vegna bandarísks eignarhalds.
Fídel hallaði sér upp að Sovétríkjunum og seldi þeim sykur í skiptum fyrir Lödur og kjöt í niðursuðudósum. Kúbudeilan árið 1962 tryggði Fídel og Kúbu skringilegan friðarsamning við Bandaríkin. Kommúnisminn virkaði fyrir Kúbu með stuðningi Sovétríkjanna, jöfnuður óx, fólk lifði lengur og allir hlutu menntun. Á áttunda áratugnum fór siðaboðskapur stjórnvalda að ganga of langt og litríkt menningarlíf eyjunnar, sérstaklega tónlist og dans, mátti þola fyrir það.
Hrun Sovétríkjanna kippti fótunum undan efnahagslegu öryggi þjóðarinnar. Ekki var til erlendur gjaldeyrir til að kaupa varahluti í vélarnar í verksmiðjunum og talið er að 60 prósent þeirra hafi einfaldlega lokað. Havanaborg og landið allt ber þess glögg merki þar sem yfirgefnar verksmiðjur ryðga og rotna innan um íbúðahverfi og lestar sem eru löngu hættar að ganga.
Sárlega vantaði erlendan gjaldeyri og Fídel vissi vel að Kúbueyja gæti alltaf dregið að sér túrista. En í þetta skiptið fengju þeir ekki aðeins að sóla sig á hvítum ströndum þar sem hafið er blágrænt og kristaltært. Nú fengju þeir líka að verða vitni að einu útsjónarsamasta og sjálfbærasta samfélagi heims. Þar eiga bílarnir, líkt og kettirnir, sér níu líf og heimamenn sárlangar til að tala við erlenda gesti um lífið í öðrum löndum og helsta sameiginlega áhugamál þjóðarinnar, hafnabolta.
Stjórnvöld höfðu einnig ýmist horft í gegnum fingur sér eða einfaldlega leyft þeim sem vildu flytja á brott að reyna fleyta sér 90 mílur yfir flóann til Flórída á alls kyns heimagerðum flekum (sá flottasti var víst Chevrolet sem hafði verið breytt í bát).
Flóttamennirnir hafa síðan stutt fjölskyldur sínar heima á Kúbu með peningasendingum sem fyrir löngu eru orðnar helsta tekjulind landsins. Árið 2012 er talið að 5 milljarðar dollara hafi verið sendar til Kúbu á hverju ári í beinum peningasendingum eða sem vörur sem fólk ber með sér á eyna í ferðatöskum. Sú tala er hærri en það sem landið þénar á fjórum stærstu atvinnugreinunum: túrisma, sykurframleiðslu, nikkelnámavinnslu og lyfjaframleiðslu.
Hvorki Fídel né Raúl Castro né heldur nokkur kúbverskur hagfræðingur getað ímyndað sér að stærsta tekjulind þjóðarinnar í framtíðinni kæmi frá „músunum sem flúðu skipið.“
Kúba eftir Fídel
Þegar Fídel Castro féll frá nýlega var fljótlega lýst yfir 9 daga þjóðarsorg. Það kvisaðist út þetta ætti að vera þurr þjóðarsorg, þ.e.a.s. háværar skemmtanir yrðu bannaðar og áfengi yrði ekki til sölu á meðan henna stæði. Ansi margir brugðust við með því að rjúka út í búð og kaupa sér rommflösku til að skála fyrir Fídel og „drekka“ frá sér sorgina.
Sannleikurinn er sá að kúbverjar orðnir langþreyttir á þeirri rússíbanareið sem valdatími þeirra Castro bræðra hefur verið. Að sama skapi gera þeir sér flestir grein fyrir því að Fídel tókst það sem engum kúbverskum forseta hafði tekist áður, að tryggja landinu sjálfstæði án inngripa frá erlendum heimsveldum.
Kaldhæðni örlaganna er sú að yngri bróðir Fídels og núverandi forseti, Raúl, er í augum margra orðin helsta vonin um langvarandi breytingar til hins betra. Frá því hann tók við forsetaembættinu árið 2006 hafa nokkur hænuskref verið stiginn í átt að frjálsara og opnara hagkerfi. Hann hefur lýst því yfir að hann láti af embætti árið 2018. Enginn veit hvort sá sem tekur við muni halda áfram með endurbætur.
Uppgangur er mikill í landinu og almennt er tilfinningin sú að endurbótastefnan sem Raúl er búinn að skapa tryggi bætt lífsgæði og áframhaldandi tak Kommúnistaflokksins á stjórnartaumunum.
Annar brandari um langlífi Fídels fjallar um heimsókn hans í dýragarðinn í Havana. Þar er honum færð að gjöf sjaldgæf skjaldbaka og sagt að hún gæti orðið 400 ára gömul. Hann afþakkar hana þar sem hann vill ekki þurfa að syrgja hana þegar hún fellur frá.
Fídel Castro Ruz dó þann 25. nóvember árið 2016, níræður að aldri.