Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna fer fram í dag. António Guterres, aðalritari SÞ, hvatti alla þjóðarleiðtoga til að mæta á ráðstefnuna með raunhæfar áætlanir um hvernig hver og ein þjóð getur aukið við núverandi aðgerðir sínar til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Á heimasíðu Sameinuðu þjóðanna kemur fram að ekki er nóg að áætlanir snúist aðeins um mótvægisaðgerðir heldur verða þær einnig að varða leiðina að fullri umbreytingu hagkerfa sem samrýmast markmiðum um sjálfbæra þróun.
Forsagan og vandinn
Árið 2016 gerðu flestar þjóðir heims með sér samkomulag í loftslagsmálum sem kennt er við París, og nefndist því Parísarsamkomulagið. Samkomulagið fólst í því að hver og ein þjóð setti sér markmið um minni losun og aðgerðaráætlun um hvernig markmiðunum yrði náð.
Margar þjóðir settu sér þó ekki nægilega metnaðarfull markmið miðað við þolmörk vistkerfa. Vísindamenn eru flestir sammála um að þolmörk þeirra vistkerfa sem fólk er háð með einum eða öðrum hætti er 1,5 gráðu hækkun. Ef allar ríkisstjórnir standa við þau markmið sem þau settu sér er áætlað að meðalhitastig hækki um 3 gráður.
Ofan á þetta bætist að þrátt fyrir að markmiðin hafi ekki verið nægilega metnaðarfull þá eru flestar þjóðir heims langt frá því að standa við skuldbindingar sínar.
Markvissasta og hagkvæmasta leiðin
Þar sem svo erfiðlega hefur reynst fyrir margar þjóðir að standa við skuldbindingar sínar er vert að spyrja hver sé markvissasta og hagkvæmasta leiðin til að ná því markmiði að halda hitastigi innan nauðsynlegra marka. Samkvæmt sérfræðingum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og OECD er hækkun kolefnisgjalds markvissasta leiðin til að ná slíkum markmiðum.
Þrátt fyrir það þá helmingaði núverandi ríkisstjórn, undir forystu Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, fyrirætlanir fyrri ríkisstjórnar um hækkun kolefnisgjalds.
Vegna áherslna Sameinuðu þjóðanna á umbreytingu hagkerfa og ráðlegginga frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og OECD um hækkun kolefnisgjalds, setti Kjarninn sig í samband við Þórólf Geir Matthíasson, prófessors í hagfræði og spurði um tilgang og verkun kolefnisgjalds og mögulegar efasemdaraddir frá hægri og vinstri.
Hver er hugmyndin að baki kolefnisgjaldi?
„Fyrirtæki sem framleiðir eitthvað gagnlegt og verðmætt en losar mengandi efni út í umhverfið, það framleiðir vöru sem það selur einhverjum kaupanda, en í þessari framleiðslu verður einnig til reykur, sót eða úrgangsefni. Þannig er mengun í rauninni framleiðsla á hliðarafurðum sem veldur þriðja aðila, sem er ekki að kaupa vöruna, skaða. Kostnaðurinn við að takast á við afleiðingar mengunarinnar, hann lendir á þessum „þriðja“ aðila, en ekki á þeim sem býr til mengunina með starfsemi sinni.
Hugmyndin með umhverfisgjöldum eins og kolefnisgjaldi er sú að láta framleiðandann borga fyrir þau óþægindi sem starfsemi hans veldur „þriðja“ aðila. Þannig er í rauninni búinn til markaður fyrir mengun, þar sem ekki var til markaður áður. Stjórnvöld, eða einhver annar aðili, selur mengaranum rétt til að menga og mengarinn borgar í réttu hlutfalli við fjölda „mengunareininga‘‘ sem hann þarf að kaupa.
Þetta er heila pælingin. Hún er ekki flókin, það er sem sagt, þegar að þú framleiðir að þá verða til tvær vörur, önnur er gagnleg, einhver kaupir hana og borgar þér fullt verð fyrir og það eru engin vandræði í sambandi við það. En vöruframleiðandinn framleiðir einnig eitthvað sem er veldur skaða, eins og t.d. CO2 eða eitthvað þess háttar. Á meðan framleiðandinn þarf ekki að borga neitt fyrir að valda vandræðum þá mælir hann ekki einu sinni hvað hann framleiðir mikla mengun.
Þá segja menn sem svo, bíddu nú við, af hverju kópíerum við ekki það sem á sér stað milli aðilanna sem eru að kaupa og selja framleiðsluvöruna. Segjum að um sé að ræða efnaverksmiðju sem er að framleiða járn, af hverju notum við ekki sömu aðferð við að jafna reikninga járnframleiðandans og járnkaupandans annars vegar og járnframleiðandans og mengunarþolans hins vegar, þó með öfugum formerkjum, þannig að mengunarþolinn selji í rauninni mengaranum réttinn til að menga?
Það sem svo er hægt að gera er að láta mengunarkvótann gufa upp, þannig að hann minnki um til dæmis 5% á ári, þannig að þú verðir alltaf annað hvort að kaupa viðbót við kvótann sem þú hefur, ef þú ert með mengandi fyrirtæki, eða að þú verður að gera eitthvað með framleiðsluferlið hjá þér sem minnkar losunina.“
Ef fyrirtæki veldur meiri skaða en gagni þá er framleiðslan ekki réttlætanleg
Hvað með þau áhrif sem kolefnisskattur gæti haft á fyrirtæki. Sum þeirra gætu lagt upp laupana, ekki satt?
„Það gæti gerst, það eru alveg dæmi um að það hafi gerst, en fyrirtækið veldur skaða og ef skaðinn er svo mikill að það getur ekki borgað þeim skaðabætur sem fyrir verða þá er ekki þjóðhagslega réttlætanlegt að framleiða viðkomandi vöru.
Fyrirtækið er að taka vinnuafl, fjármuni og náttúruauðlindir og breyta því í tvær vörur, mengun og framleiðsluvöruna sína. Nettótekjurnar af þessari starfsemi eru þá ekki nógar til þess að borga þann skaða sem þær valda gagnvart þriðja aðila. Það er bara alveg eins og að fyrirtæki sem framleiðir einhverja vöru sem ekki er lengur eftirspurn eftir fer á hausinn.
En svo laga fyrirtækin sig líka að nýjum veruleika. Núna hafa álverin til dæmis losað mjög mikið af CO2. Ef það væru sett á frekari kolefnisgjöld þá myndu þau leggja miklu meira í það að finna út einhverja aðferð til þess að losa súrefnið úr súrálinu með öðrum hætti en að binda það við kolefni. Það yrði mjög hagkvæmt fyrir þá að fara í svoleiðis aðgerðir. Álverseigendur eru að vinna í þessu af meir alvöru núna af því þeir þykjast sjá að þeir munu þurfa að borga meira fyrir koltvísýringslosun í framtíðinni.
Tímaritið Economist hefur mælt með aðferð við sölu mengunarréttar sem gengur lengra í að nýta tækni markaðsviðskipta með því sem hefur verið nefnt „cap and trade‘‘, sem snýst um að setja þak eða kvóta og láta síðan fyrirtækin versla með mengunarkvótann. Þetta er svipuð hugsun og með kvótakerfið í sjávarútveginum. Í sjávarútveginum er þetta þannig að gefinn er út heildarkvóti og svo eru einhverjir sem eiga rétt á að veiða og þeir mega versla með þennan rétt sín á milli.
Fyrirtæki fóru á hausinn við kvótakerfið eða hættu starfsemi. Sala mengunarkvóta er hvorki betra né verra en það sem átti sér stað þegar kvótinn var settur á í sjávarútveginum. Þannig að fjármagnseigendur hafa komið á svona kerfum og sóst eftir svona kerfum þannig að það er ekkert verið að brjóta lögmál kapítalismans með þessu, alls ekki. Þvert á móti er verið að nota lögmál kapítalismans í þágu heildarinnar.
Verðið sem fyrirtækin væru tilbúin til að kaupa mengunina á væri mjög mismunandi í upphafi. Alveg eins og þegar kvótinn var settur á, þá voru sum fyrirtæki sem að gátu auðveldlega keypt kvóta á gangverði á meðan önnur gátu það ekki, vegna þess að tilkostnaður þeirra var mismunandi. Það sem hins vegar gerist þegar að þau fara síðan að keppa um þessi mengunarréttindi að þá verður ávinningur þeirra af því að menga að hann verður miklu líkari yfir alla línuna. “
Áhrifin af niðurgreiðslum minni en af því að hækka kolefnisgjaldið
Hefur sýnt sig að kolefnisgjald virki eða er hugmyndin bara kenning?
„Það hefur sýnt sig að þetta virkar. Markvissasta leiðin er að vera með einhvers konar sambland af kvóta og markaðskerfi vegna þess að þá fara menn að vinna beint í því að minnka losunina.
Menn hafa svo sem verið að beita fleiru en bara kolefnisgjöldum, menn hafa líka verið að beita niðurgreiðslum á rafknúnum farartækjum eins og til dæmis í Noregi. Þar hefur sýnt sig að áhrifin af því að gefa eftir gjöld eða niðurgreiða til dæmis rafmagnsbíla, eru miklu minni heldur en af því að hækka kolefnisgjaldið.
Niðurgreiðsla á rafmagnsbílum hefur reynst ágætis stuðningur við seljendur Tesla bifreiða í Noregi, þó svo ódýrari rafmagnsbílar séu alveg jafn umhverfisvænir.
Ef þú borgar niður kostnað við að aka um á rafmagnsbíl, það sem að þá gerist er að þú selur fleiri Teslur og færri Nissan Leaf. En það hvort þú ekur um á Teslu eða Nissan Leaf hefur alveg sömu áhrif á losunina. En Tesla eigandinn fékk miklu fleiri krónur í meðgjöf heldur en sá sem keypti sér Nissan Leaf.“
Hrein markaðslausn sem borgar sig
Má ætla að hækkun kolefnisgjalds fari ljúflegar niður hjá fólki sem er vinstra megin í pólitíkinni, vegna þess að það má líta svo á að kolefnisgjald sé skattur?
„Með þessari aðferð er settur kvóti og síðan er heimiluð verslun með kvótann. Þá er mengunin orðin eins og hver önnur vara á markaði. Það er mikilvægt að átta sig á að kolefnisgjöld eða kaup á kolefniskvóta er ekki skattheimta heldur er bara verið að flytja til hver það er sem ber kostnaðinn.
Ef við lítum á hefðbundna mengun, sót og þess háttar, að þá eru það nágrannar hinnar mengandi starfsemi sem bera kostnaðinn. Ef þú setur á mengunargjald þá lendir sá kostnaður á þeim sem býr til mengunina.
Með CO2 þá eru það náttúrulega að einhverju leiti framtíðarkynslóðir sem bera kostnaðinn. Þannig að við erum að staðsetja kostnaðinn núna og þar fyrir utan að þvinga hagkerfið inn á þróunarbraut sem er væntanlega ódýrari með hliðsjón af framtíðinni heldur en ef ekkert er að gert.“
Hvernig er hægt að sannfæra þá sem eru vinstra megin í pólitíkinni um markaðslausn á vandanum?
„Ég sé ekki af hverju það ætti að skipta máli hvort kötturinn er svartur eða hvítur ef hann veiðir mýs? Þetta er bara stjórntæki.“
Kolefnisgjald hefði ekki aðeins áhrif á fyrirtæki. Fólk þyrfti að borga meira fyrir til dæmis bensín og það myndi væntanlega vera erfiðast fyrir tekjulægri hópa ekki satt?
„Það á náttúrulega við um alla hluti að verð hafa bæði tekjuskiptingaráhrif, áhrif á hvernig þú notar framleiðsluþætti og hvaða vörur eru framleiddar og notaðar.
Það er hægt að meðhöndla þessi áhrif, tekjuskiptingaráhrifin og áhrifin á vöruframleiðsluna í tvennu lagi. Setjum sem svo að þú setjir á hátt kolefnisgjald og hvetjir þannig til minni losunar CO2. Þá opnast sá möguleiki að nota hluta af tekjunum til að vera með mótvægisaðgerðir til dæmis með því að minnka virðisaukaskatt eða eitthvað þess háttar á móti.
Það er líka hægt að vera með annars konar mótvægisaðgerðir. Til dæmis ef það eru einhverjir þjóðfélagshópar sem menn hafa áhyggjur af að þá er hægt að bæta þeim þetta upp til dæmis með hærri húsaleigubótum ef leigjendur eru þeir sem eru taldir tilheyra ákveðnum tekjuhópum.
Aðalatriðið er að það er hægt að takast á við slíka hluti með sjálfstæðum hætti þannig að það eru ekki sjálfstæð rök gegn hugmyndinni að þetta kosti eitthvað fyrir einhvern.“
Ríkisstjórnin helmingaði hækkun
Kolefnisgjald virðist enn standa í pólitíkusum á Íslandi. Til dæmis átti að hækka kolefnisgjald um 100% en svo var gjaldið aðeins hækkað um 50%, af hverju er þetta svo að þínu mati?
„Þeir hugsa um næstu 2-4 árin en ekki lengra. Við sáum það þegar Vinstri græn komu inn í ríkisstjórn að eitt það fyrsta sem þeir gerðu var að lækka þessi gjöld frá hugmyndum Benedikts Jóhannessonar. Hann var með hugmynd um hækkun á þessum gjöldum þegar hann var í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og Bjartri framtíð. Þessir þrír flokkar voru búnir að samþykkja 100% hækkun.“