Besta platan með Portishead – Dummy

Gefin út af Go! Beat þann 22. ágúst 1994, ýmist 10 lög á 44 mínútum og 29 sekúndum eða 11 lög á 49 mínútum og 17 sekúndum.

portisheaddd.jpeg
Auglýsing

Hugmyndin um bestu plötuna hverju sinni byggist eingöngu á skoðun minni og þekkingu. Skoðunin er oftast mjög sterk en þekkingin getur verið allavega. Þannig hika ég ekki við að tilnefna bestu plötuna og þá skiptir engu hvort ég þekki allar útgáfur viðkomandi mjög vel eða bara þessa einu – já eða eitthvað þar á milli.

Ég er þess vegna alltaf til í rökræður og uppfræðslu frá lesendum sem annað hvort vita betur eða telja sig vita betur. Aðalmálið er að hlusta á og ræða hljómplötur sem heild, bestu plötuna í hvert skipti.

Hljómsveitin Portishead var stofnuð árið 1991 í Bristol-sýslu á Englandi. Portishead hefur gefið út 3 breiðskífur á ferlinum:

Auglýsing

Dummy (1994)

Portishead (1997)

Third (2008)

Portishead hefur aldrei fullkomlega skilgreint meðlimi hljómsveitarinnar en í daglegu tali eru þau yfirleitt nefnd þrjú til sögunnar, Geoff Barrow sem raftónlistargúru, Beth Gibbons sem söngkona og Adrian Utley sem gítarleikari. Þetta er ekki alveg svona einfalt eins og kemur í ljós síðar. En byrjum á þeirri staðreynd að þegar bandið var stofnað var Barrow 19 ára, Gibbons 26 ára og Utley 34 ára. Í dag eru þau því 47, 54 og 62 ára. 

Rokkarinn sem féll

Ég var rokkhundur og þoldi ekki hip hop. Það var vissulega ansi skilyrt því á þessum tíma varstu á öðrum hvorum vagninum. Og ég var á rokkvagninum. Eða við skulum frekar segja að ég hafi verið á hljóðfæravagninum. Mjög lengi framan af var ég haldinn þeirri ranghugmynd að tónlist þyrfti að vera flutt af manneskjum sem spiluðu á hljóðfæri og/eða sungu. Tölvur og tónlist voru ekki í sama menginu. Þegar ég reyni að greina þetta svona eftir á held ég að í þessu hafi falist að tónlistarflutningi skyldi alltaf fylgja möguleikinn á að mistakast verkið, eða í það minnsta að framkvæmdin væri misjöfn. 

Tónlistarflutningur átti að litast af spennunni sem myndaðist í hvert skipti, óvissunni um hvernig allt yrði. Hvers vegna ætti ég að mæta á tónleika hjá einhverjum sem ýtir bara á takka til að setja það í gang sem hljómaði nákvæmlega eins í gær og fyrradag? Þá get ég alveg eins setið heima og hlustað á plötuna. Ég er auðvitað fallinn frá þessu í dag. Í það minnsta 98%. Ég á ennþá erfitt með að hlusta á tónlistarfólk sem ýtir bara á play, bætir engu við það sem á upptökunni er og kallar það lifandi flutning. Auðvitað eru tölvur ekki verri hljóðfæri en önnur, skárra væri það nú, en svona var ég og það langt inn á tíunda áratug síðustu aldar, átti mjög erfitt með allar rappplötur veraldar og lét elektróníska listamenn fara mjög í taugarnar á mér. Ég var í hinu liðinu!

Það eru fleiri plötur en Dummy sem áttu þátt í að snúa mér frá þessari villu en hún vó líklega þyngst. Þetta var nefnilega allt svo skrýtið. Þetta hljómaði eins og lifandi trommuleikur. En samt eins og einhvers konar forritun. Og ofan á það allskonar trommuheilahljóð sem samt voru ekki alveg á eðlilegum stöðum og hljómuðu oft undarlega. Jú, fullt af gítar, það hjálpaði til. En hann var stundum mjög niðurklipptur og rafrænn og tölvulykt af öllu saman. Sem sagt, frábær hljóðfæraleikur um allt en samt hljómaði allt pínu eins og hip hop. Afar rólegt hip hop. Og til viðbótar þessi ótrúlegi söngur sem hljómar eins og ekkert annað, fullkominn en samt svo gallaður. Já, að því er virðist yfirnáttúrulegur á köflum. Hvað var þetta? Hvernig gerir maður svona?

Afslöppuð ríðitónlist

Enda þótt stefnan sem Portishead er kennd við – stefnan sem hóf sig til flugs frá Bristol á þessum tíma með þessbæjar listafólki á borð við Massive Attack, Tricky og auðvitað Portishead og kölluð er trip hop – sé í hugum fólks yfirleitt afslöppuð ríðitónlist hafa meðlimir Portishead margoft lýst því hvernig þeir sjá hana sem mun agressívari tónlist en svo. Já, þeir segi ég, því Gibbons hefur jú aðeins veitt örfá viðtöl á ferlinum sem eykur enn á hið mistíska viðmót hennar og persónu. Hvort þessi franska upplifun varð til þess að fæla hana frá slíku skal ekki fullyrt, en það er þó ekki ólíklegt:


En sem sagt. Svo virðist vera að Barrow og Utley sjái Portishead sem meira hávaðaband en við hin viljum meina. Barrow hefur oftar en ekki nefnt Nirvana til útskýringar, ekki að hann sjái þessar tvær sveitir sem svipaðar heldur öllu heldur að Nirvana hafi verið band sem hikaði ekki við að fara frá lægstu lægðum og upp í hæstu hæðir, frá vögguvísum í algert brjálæði. Og þegar maður hugsar þetta svona er kannski eitthvað til þessu því vissulega gerist svoleiðis reglulega hjá Portishead. En beri maður saman Glory Box og Smells Like Teen Spirit fellur kenningin vitanlega um sig sjálfa.


Maður skyldi víst aldrei skilgreina list sína sjálfur.

Trip hop í boði Thatcher

Dummy er fyrsta plata Portishead og varð til samhliða bandinu. Geoff Barrow og Beth Gibbons höfðu hist á fundi fyrir atvinnulausa frumkvöðla í boði Margaret Thatcher og hafið samstarf um leið. Barrow var þá strax orðinn uppgjafa rokkari sem hafði fiktað helling í tækjum og tólum, orðinn fær samplari og ágætis hljóðfæraleikari. Gibbons átti handfylli af lögum sem sum hver enduðu einmitt á Dummy og hafði skýra stefnu í þá átt að vilja vinna fyrir sér sem tónlistar- og söngkona. 

Eftir fikt og tilraunir réðust þau í að setja saman fyrsta lagið, It Could Be Sweet og einhvers staðar í ferlinu skildu þau dyrnar eftir opnar fram á gang. Í öðru herbergi hljóðversins hafði hinn starfsleiði leigugítarleikari Adrian Utley nýlokið við að taka upp einhvern skyldudjass og heyrði lagið óma. Hann sveif á Barrow án fyrirvara og með þeim tókst vinskapur sem stendur enn í dag. Utley vildi vita allt um stafræna hljóðvinnslu og á móti kynnti hann Barrow fyrir allrahanda furðuhljóðfærum á borð við þeremín og cimbalom sem svo aftur lita umrædda plötu gríðarlega sterkum litum. 

Dummy undir nálinni.

Þannig má glöggt sjá að Barrow er ekki bara forritari heldur allra handa snillingur, Gibbons er ekki aðeins söngkona heldur ofboðslegur lagasmiður og Utley er ekki bara gítarleikari heldur glúrinn pælari og fyrirtaks útsetjari. Í þessu samhengi varð platan til í subbulegum hljóðverum og æfingahúsnæðum. Meðlimir segjast helst muna eftir slæmum skyndibita og gríðarlega óhóflegum sígarettureykingum.

Á þessu stigi málsins er fjöldi meðlima álitamál. Þegar litið er á upplýsingarnar á innra umslagi plötunnar er nokkuð ljóst að Utley hefur ekki talist fullgildur meðlimur heldur eru það þau tvö hin sem eru í forgrunni. Sumar raddir segja að Utley hafi verið gerður fullgildur meðlimur stuttu eftir útgáfuna en aðrar segja að það hafi aldrei verið rætt. Svona var þetta bara á þessum tímapunkti og svo þróaðist þetta þangað sem við erum í dag. Á þessu stigi málsins er líka álitamál hvort Portishead hafi verið hljómsveit eða eitthvað annað. Eitt af því fyrsta sem þau tóku sér fyrir hendur var til að mynda stuttmyndagerð og úr varð stropvirkið To Kill a Dead Man.


Barrow er ekki ánægður með þetta undarlega verk þegar hann hugsar til baka og segist helst halda að þau hafi búið myndina til í þeim tilgangi að skreyta hana með tónlist. Í öllu falli er hin áleitna forsíðumynd Dummy fengin úr myndinni, mynd af Gibbons í hlutverki sínu. 

Yfir vínyl á hjólabretti

Við upptökur plötunnar brutu þau allar reglur sem þekkjast við hljóðupptökur. Stærsta lúðapælingin sneri nú sennilega að trommuupptökunum. Þannig var hinn ofurmannlegi trymbill Clive Dreamer látinn spila trommutakta inn á 16 rása teip sem þaðan voru grófmixaðir og pressaðir á vínylplötur. Þessar plötur voru síðan dregnar eftir gólfinu og einhver segist muna eftir því að hafa rennt sér yfir þær á hjólabretti. 

Eftir það var vínyllinn spilaður á plötuspilara og þá oftar en ekki í gegnum lélegan æfingagítarmagnara, með rispum, braki, suði og öllu saman og þaðan aftur inn á teip. Eftir það voru trommutaktarnir klipptir niður og samplaðir og síðan púslað saman í það sem við heyrum á plötunni í dag. 

Gæti þarna verið komin skýringin á því hvernig ég, maðurinn á rokkvagninum, gat fellt mig við það sem þó var í meginatriðum raftónlist? Vissulega allt saman á endanum unnið í tölvu, niðurklippt og lúppað, en verður þó ekki meira alvöru og lifandi en þetta. Svipaða sögu má segja um aðra hljóðvinnslu á plötunni. Hún er vísvitandi látin hljóma „illa“ til þess að hljóma áhugaverð. Rödd Gibbons er gott dæmi. Þessari englarödd er í eftirvinnslu ýtt upp að eyranu á hlustandanum, svo óskaplega að heyra má smjatt og más, jafnvel nasablástur í smáatriðum.

Verðlaun eru fyrir aumingja

Dummy sló í gegn um leið og hún kom út. Allir virtust sammála um að hún væri ein mikilvægasta plata samtímans og það ferskarsta sem heyrst hafði lengi. Hún fór hátt á vinsældarlista bæði í Evrópu og Bandaríkjunum og allt virtist gerast af sjálfu sér. Á eftir fylgdu tónleikar, þó ekki í neinum stórkostlegum mæli og reyndar hefur Portishead ekki spilað nema rúmlega 200 tónleika á öllum ferlinum. Til samanburðar spilaði Oasis á 241 tónleikum árin 1994 og 1995. 1995 vann sveitin hin stórmerkilegu Mercury-verðlaun sem veitt eru fyrir bestu plötu sem gefin er út ár hvert á Bretlandseyjum. 

Barrow lét hafa eftir sér að verðlaunin væru skrípaleikur líkt og öll önnur keppni í tónlist. Vissulega ekki ótrúleg ummæli frá hrokafullum tvítugum manni sem nýlega hefur slegið í gegn en þar virðist hann þó hafa verið heill í skoðun sinni. Og þau sennilega öll því bandið hefur sama og ekkert gert beinlínis til að viðhalda vinsældum sínum í gegnum tíðina. Bestu lögin á Dummy eru Mysterons, Roads og Glory Box. Og Sour Times. Og Numb. Og Wandering Stars. Jahérna, þessi plata er ótrúleg. Já og It’s a Fire, lagið sem er bara á sumum útgáfum plötunnar, til að mynda ekki á vínylútgáfunni minni. Í dag togast salan á plötunni í átt að 4 milljónum og hún mallar alltaf ár frá ári.

Thatcher = Tinder

Árið 1997 kom önnur platan út og var samnefnd hljómsveitinni. Hún er frábær en á undarlegan hátt er lítið meira um það að segja. Ég man eftir að hafa keypt hana þegar hún kom út, fundist hún afskaplega fín og síðan sett diskinn upp í hillu við hliðina á Dummy og sennilega 10 smáskífum sem ég hafði safnað af henni. 

Í stórkostlegum rólegheitum varð ein plata til í viðbót, Third sem kom út 11 árum síðar, árið 2008. Sú plata er líka frábær og gaman að heyra hvernig bandið hafði þroskast, þarna hljómaði margt sem ég hafði ekki áður heyrt. Þessar tvær síðari fara stundum á fóninn hjá mér sem og tónleikaplatan Roseland NYC Live sem reyndar ratar oftar í sjónvarpið. Beth Gibbons að spila á rafmagnsgítar og syngja, það er eitthvað rosalegt við það. Ég varð ástfanginn fyrir 10 árum af konunni minni meðan við horfðum, konunni sem ég á tvö börn með og ætla að giftast á næsta ári. Og hún af mér. Takk Thatcher.


Ég hvet ykkur öll til að hlusta á þetta meistaraverk í heild. Hér er mín skoðun en ég skal glaður rökræða hana: Dummy er besta platan með Portishead.

Lagalisti:

01 – Mysterons

02 – Sour Times

03 – Strangers

04 – It Could Be Sweet

05 – Wandering Star

06 – It's a Fire

07 – Numb

08 – Roads

09 – Pedestal

10 – Biscuit

11 – Glory Box


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorkell Sigurlaugsson og Sigmar Vilhjálmsson sitja báðir í undirbúningsnefnd hins nýja félags.
Unnið að stofnun nýrra hagsmunasamtaka lítilla og meðalstórra fyrirtækja
Atvinnufjélaginu er ætlað að vera málsvari fyrir hagsmuni einyrkja og lítilla og meðalstórra fyrirtækja í íslensku atvinnulífi. Þörfin á slíkum samtökum atvinnurekenda er sögð mikil af hálfu stofnenda.
Kjarninn 16. september 2021
Tryggvi Rúnar Brynjarsson
Í Dal hinna föllnu
Kjarninn 16. september 2021
Sif Sigmarsdóttir
Hvernig viljum við lifa?
Kjarninn 16. september 2021
Arnhildur Hálfdánardóttir fékk fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins í fyrra fyrir þáttaröðina Loftslagsþerapían. Hún er þar með síðasti handhafi þeirra verðlauna.
Hætta að veita fjölmiðlaverðlaun á degi íslenskrar náttúru
Algjör sprenging hefur orðið í umfjöllun fjölmiðla um loftslags- og umhverfismál og því telur umhverfis- og auðlindaráðuneytið ekki lengur þörf á að verðlauna miðla sérstaklega fyrir slíkan fréttaflutning.
Kjarninn 16. september 2021
Sif Konráðsdóttir
Áratugur Árósasamnings
Kjarninn 16. september 2021
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í Forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Framlög til barnabótakerfisins aukin og fleiri fá þær, en raunvirði bóta hefur lítið hækkað
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Katrínar Jakobsdóttur um að ríkisstjórn hennar hafi aukið við barnabótakerfið og tryggt að það nái til fleiri en það gerði fyrir fjórum árum síðan.
Kjarninn 15. september 2021
Bjarni Benediktsson og Katrín Jakobsdóttir.
Rúm 40 prósent vilja að Katrín verði áfram forsætisráðherra
Í niðurstöðum könnunar á vegum ÍSKOS kemur í ljós að langflestir vilja að Katrín Jakobsdóttir verði áfram forsætisráðherra. Athygli vekur að Bjarni Benediktsson nýtur minni stuðnings í embættið en Sjálfstæðisflokkurinn nýtur í könnunum.
Kjarninn 15. september 2021
Eyþór Eðvarðsson
Rétturinn til að deyja
Kjarninn 15. september 2021
Meira úr sama flokkiFólk