Elín Ey tónlistarkona og tónskáld var að klára nýja plötu. Á plötunni mætir íslensk alþýðutónlist hennar hinum rafræna heimi. Elín safnar nú fyrir útgáfu plötunnar á Karolina Fund og er langt komin með að ná markmiði sínu. Enn eru heilir þrettán dagar eftir til að ganga úr skugga um að svo verði.
Kjarninn tók Elínu tali af þessu tilefni.
Hvaðan kom innblásturinn við gerð þessarar plötu?
„Innblásturinn er búinn að koma úr öllum áttum síðustu 7 ár, eða frá því að ég gaf síðast eitthvað út. Ég er búin að semja mikið efni og meira en á eina plötu en hefur alltaf langað til að gera íslenska plötu og lítur allt út fyrir að ég geti látið þann draum rætast.“
Hvers vegna ákvaðst þú að fara með plötuna í hópfjármögnun?
„Ég þekki til margra sem hafa farið þessa leið að gefa út plötuna sína í gegnum Karolina Fund eða aðra hópfjármögnun. Þetta er frábært, mikil hjálp fjárhagslega og svo er þetta innblástur fyrir mig sem tónlistarkonu, að sjá að fólk hafi trú á manni.“
Var platan unnin eingöngu af þér eða komu fleiri góðir að þessu verki?
„Það eru margir frábærir að koma að þessari plötu, Alison vinkona mín og söngkona í Kimono tekur upp söng og gítar og svo kemur fjölskyldan mín sterk inn eins og venjulega.“
Hvernig tónlist kemur til með að óma af plötunni?
„Tónlistin er íslensk folk-tónlist með elektrónísku ívafi.“