Vegagerðin áætlar að eyða 100 milljónum króna aukalega í viðgerðir vega á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni í sumar. Vegir á höfuðborgarsvæðinu hafa komið verulega illa undan vetri vegna lélegs viðhalds undanfarin ár sem skýrist af fjárskorti hjá borgar- og vegamálayfirvöldum.
Tjónatilkynningum vegna hins lélega ástands rignir inn til tryggingafélaga, borgaryfirvalda og Vegagerðarinnar og hefur fjöldi tilkynninga margfaldast milli ára. Þá hefur Bílgreinasambandið meðal annars vakið athygli á þessari „alvarlegu stöðu sem [...] gæti endað með banaslysi.“
Vegagerðin hefur umsjón með framkvæmdum og viðhaldi þjóðvega í þéttbýli. Á höfuðborgarsvæðinu sér Vegagerðin um helstu stofnbrautir; götur á borð við Miklubraut, Kringlumýrarbraut og Sæbraut. Ráðgert er að alls 36 vegkaflar á suðursvæði verði lagfærðir í sumar, langflestir í þéttbýli.
G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, sagði í samtali við Kjarnann að tæpir 53 kílómetrar af bundnu slitlagi verði lagfærðir eða endurnýjaðir í sumar. Nú verður gamalt slitlag fræst upp og nýtt malbik lagt, ólíkt því sem gert hefur verið undanfarin ár þegar gamla slitlagið hefur verið lagfært.
Vegagerðin mun halda tvö útboð fyrir viðhald vega á suðursvæði í sumar. Ekki er hægt að segja til um hvenær viðgerðir hefjast, enda ræðst það töluvert af veðri, að sögn G. Péturs.