Hvað dettur fólki í hug þegar Danmörk er nefnd? Hafmeyjan, pylsur, Tívolí, bjór, hakkeböf og Margrét Þórhildur. Þetta er vissulega allt á sínum stað og sumt eins og það hefur alltaf verið. Eitt hefur þó gjörbreyst á síðustu árum: bjórinn.
Fyrir ekki mjög mörgum árum þurftu danskir bjóráhugamenn og ferðamenn að gera upp við sig hvort þeir vildu drekka Carlsberg eða Tuborg. Hof frá Carlsberg eða Grøn frá Tuborg. Í báðum tilvikum pilsner bjórar sem báru höfuð og herðar yfir aðrar tegundir á markaðnum. Hvort það var Hof eða Grøn sem varð fyrir valinu var fyrst og fremst smekksatriði.
Þeir Hof og Grøn eru enn á markaðnum, sá síðarnefndi mest selda einstaka bjórtegundin í landinu og margir Danir láta ekkert annað en aðra þessara tegunda, inn fyrir sínar varir, þegar bjór er annars vegar. Carlsberg keypti árið 1970 Tuborg fyrirtækið en neytendur skynjuðu ekki neinar breytingar við eigendaskiptin. Í danska bjórheiminum hafa hinsvegar á síðustu árum orðið miklar breytingar, mjög miklar er víst óhætt að segja.
Ölgerðarhúsin fimmfalt fleiri en um aldamótin
Árið 2000 voru 18 ölgerðarhús í Danmörku. Í einu dönsku dagblaðanna frá því ári var viðtal við framkvæmdastjóra lítils ölgerðarhúss þar sem hann sagði að baráttan fyrir tilverunni væri hörð og hann spáði því að framleiðendum myndi fækka á næstu árum.
Þessi maður hafði ekki lög að mæla og hefur ekki, frekar en kannski nokkur annar, látið sér til hugar koma að fimmtán árum síðar yrðu ölgerðarhúsin orðin 121 talsins. Þeim hefur fjölgað jafnt og þétt, voru orðin 53 árið 2005, 98 árið 2007 og ári síðar, 2008, voru þau orðin 120. Fækkaði talsvert eftir á árunum eftir hrun en fór aftur að fjölga fyrir tveim árum og eru nú orðin ívið fleiri en 2008 eða 124.
Flest brugghúsin lítil
Á heimasíðu sambands danskra bjórframleiðenda kemur fram að langflest ölgerðarhúsin eru smá í sniðum. Með fáa starfsmenn og takmarkaða framleiðslu. Iðulega er framleiðslan einungis seld á nokkrum stöðum, oft í nágrenni brugghússins. Þetta er reyndar það sem skapar sérstöðuna: að geta gengið inn á krá, eða veitingahús og fengið þar bjór, sem kannski fæst hvergi annars staðar. Hrunið kenndi líka mörgum að ráðlegast væri að færast ekki of mikið í fang.
Til að styrkja reksturinn, og kynna framleiðsluna, auglýsa mörg litlu ölgerðarhúsin sérstök bjórkvöld, fyrir til dæmis starfsmannafélög eða vinahópa. Á slíkum kvöldum, þar sem aðgangseyrir er hóflegur, er framleiðslan kynnt og jafnframt boðið uppá eitthvað matarkyns með. Þátttakendur geta svo auðvitað keypt bjór og haft með sér heim. Sum brugghúsanna selja líka talsvert til útlanda. Víða um heim er bjóráhugafólk sem fylgist grannt með nýjungum og pantar, kannski bara nokkrar flöskur, á netinu og fær sendar heim. Þegar flaskan er tóm fer hún svo í flöskusafnið og vekur kannski athygli gesta af því að enginn hefur áður séð flösku með miða frá þessum framleiðanda.
Miðborg Kaupmannahafnar. Mynd: EPA
1108 nýjar tegundir
Í ársyfirliti sambands bjórframleiðenda kemur fram að á síðasta ári komu á markaðinn í Danmörku 1108 nýjar tegundir af dönskum bjór. Þetta er næsta ótrúleg tala. Í yfirlitinu kemur ekki fram hvað tegundirnar sem hurfu af sjónarsviðinu voru margar en þetta sýnir hversu mikil gerjun er á þessum markaði. Árið 2004 voru nýjar tegundir sem komu á markaðinn 82 talsins og þótti allnokkuð.
Þrátt fyrir allan þennan mikla fjölda ölgerðarhúsa, og tegunda, sem litið hafa dagsins ljós á síðustu árum halda þeir Carlsberg og Tuborg sínu striki. Þetta gamalgróna fyrirtæki sem stendur traustum fótum í heimalandinu og er með fjölmargar verksmiðjur víða um heim. Á heimavellinum hefur risinn þó ekki sofið á verðinum en hefur á síðustu árum sett á markaðinn fjölmargar nýjar tegundir og jafnvel hafið á ný framleiðslu á tegundum sem horfnar voru af markaði eins og til dæmis Gamle Carlsberg sem hætt var að framleiða árið 2003 en var svo endurvakinn, sem svo mætti segja, árið 2012.
Grisk
Þótt nöfnin á bjórtegundunum séu mörg hver ekki sérlega frumleg eða lýsi sérstöku hugmyndaflugi eru þar þó undantekningar. Lítið ölgerðarhús við Hróarskeldufjörðinn, Hornbeer sem var stofnað árið 2008 setti, skömmu eftir hrun, á markaðinn bjór sem nefndur var Grisk (græðgi, gráðugur). Á flöskumiðanum var andlitsmynd af manni sem líktist mjög hinum þýska hrekkjalómi Ugluspegli og undir myndinni stóð SparNar.
Þetta fór fyrir brjóstið á forsvarsmönnum SparNord bankans sem kröfðust lögbanns á notkun miðans og orðanna SparNar. Áður en lögbannskrafan kom til kasta fógeta breytti brugghúsið miðanum lítillega. Hvort sem það hafði einhver áhrif eða ekki varð lögbannsmálið til þess að vekja athygli á bjórnum og eftir að Hróarskeldubankinn (Roskilde Bank) komst í þrot í hruninu fengu margir fyrrverandi starfsmenn þar sendan Grisk bjór frá fyrverandi viðskiptavinum sem tapað höfðu sparifé sínu þegar bankinn varð gjaldþrota. Grisk bjórinn hefur einnig notið vinsælda utan Danmerkur, til dæmis í Noregi.
Framtíðin
Enginn veit hvað framtíðin ber í skauti sér, það gildir um danska bjórinn líkt og annað. Danskir bjórsérfræðingar telja að litlu ölgerðarhúsin muni á næstu árum ná til sín mun stærri hlut af markaðnum. Fyrir tíu árum var markaðshlutdeild þeirra eitt prósent en í dag er hlutfallið komið upp í sex prósent, aukningin lang mest á síðastliðnum tveim árum.