Frá því að kórónuveirufaraldurinn hófst hafa um 18 þúsund störf tapast samkvæmt tölum úr staðgreiðsluskrá. Í ágúst síðastliðnum höfðu hins vegar 16.700 störf orðið til á ný. Þetta er meðal þess sem kemur fram í ritinu Peningamál sem Seðlabanki Íslands gaf nýverið út.
Þar segir að flest störfin sem orðið hafi til séu í ferðaþjónustu og að greinin hafi nú endurheimt um helming þeirra starfa sem töpuðust í faraldrinum. Þá hafi störf í atvinnugreinum sem að mestu endurspegla opinbera þjónustu verið tæplega sjö þúsund fleiri í ágúst síðastliðnum en þau voru á árinu 2019.
Í Peningamálum segir að batinn á vinnumarkaði hafi að hluta til verið studdur af vinnumarkaðsaðgerðum stjórnvalda, sérstaklega í sumar þegar boðið var upp á liðlega 2.600 störf fyrir námsmenn og fjöldi fólks var á ráðningarstyrk. Áætlað sé að skráð atvinnuleysi í október, sem var 4,9 prósent, hefði verið um 2,5 prósentustigum meira ef afskráningum vegna ráðningarstyrkja væri bætt við. Seðlabankinn telur að það séu þó sennilega efri mörk áhrifa styrkjanna því að einhver hluti fólks hefði eflaust hafið störf án þeirra.
Óvíst hversu margir á ráðningarstyrk fái áfram vinnu
Sem stendur eru enn í gildi svokallaðir ráðningastyrkir, sem greiddir eru út í tengslum við atvinnuátakið Hefjum störf. Það snýst um að ríkissjóður greiði þorra launa nýrra starfsmanna fyrirtækja tímabundið, en þeir renna flestir út á næstu vikum. Í síðasta mánuði voru 79 prósent auglýstra starfa átaksverkefni eða reynsluráðningar og mörg þúsund manns eru ráðin á þessum ráðningarstyrkjum.
Mikill fjöldi ráðningarstyrkja rennur út á síðasta fjórðungi ársins. Í frétt sem birtist á vef RÚV á miðvikudag kom fram að þeim sem þegar hafa runnið út á samningi hafi aðeins um tuttugu til þrjátíu prósent snúið aftur á atvinnuleysisskrá. Haft var eftir Unni Sverrisdóttur, forstjóri Vinnumálastofnunar, að það væri betri árangur en búist hafði verið við.
Í Peningamálum segir að óvíst sé að hve miklu leyti ráðningarsamböndum sem byggjast á styrkjum verði viðhaldið en á móti vegi mikil ráðningaráform fyrirtækja og skortur á starfsfólki. „Það gæti hægt á hjöðnun atvinnuleysis eða það jafnvel aukist tímabundið ef margir koma aftur inn á skrá þar sem pörun leitenda og nýrra starfa getur tekið tíma.“
Ráðningaráform hafa tekið kipp
Það dregur úr sjálfvirkt úr stuðningi stjórnvalda samhliða minnkandi atvinnuleysi en sérstöku átaksverkefni er sjálfhætt þegar atvinnuleysi á landsvísu eða á einstöku landsvæði mælist sex prósent eða minna. Í átaksverkefninu felast mildari skilyrði og meiri fjárstuðningur en hefðbundnir ráðningarstyrkir veita. Í október voru einungis Suðurnesin, þar sem atvinnuleysi mældist 9,2 prósent, yfir þeim mörkum. Höfuðborgarsvæðið, þar sem langflestir atvinnuleitendur eru, fóru undir þau í september. Atvinnuleysi þar mældist 5,2 prósent í október.
Í Peningamálum segir að ráðningaráform fyrirtækja hafi tekið mikinn kipp á öðrum fjórðungi ársins og reyndust áfram kröftug á þeim þriðja. „Samkvæmt fyrirtækjakönnun Hagstofunnar voru tæplega 8.400 laus störf á þriðja ársfjórðungi og því um 5.400 fleiri en á sama tíma í fyrra og liðlega 3.700 fleiri en á sama fjórðungi árið 2019. Þá var árstíðarleiðréttur munur á hlutfalli fyrirtækja sem vilja fjölga starfsfólki og þeirra sem vilja fækka jákvæður um 28 prósentur í haustkönnun Gallup meðal 400 stærstu fyrirtækja landsins. Kannanirnar benda því til þess að störfum muni áfram fjölga næsta misserið.“
Óvissa sé þó um að hvaða leyti mikill vilji til að ráða starfsfólk endurspegli niðurgreiðslu launakostnaðar í gegnum ráðningarstyrki fremur en raunverulegan bata í vinnuaflseftirspurn.