Biðlistar eftir því að hefja afplánun í fangelsi hafa lengst mikið undanfarin ár, sérstaklega eftir bankahrun. Árið 2009 biðu 213 að meðaltali eftir því að hefja afplánun. Árið eftir hafði þeim fjölgað um 63 og 2011 voru þeir 320. Í hitteðfyrra biðu 366 að meðaltali eftir því að hefja afplánun og í fyrra voru þeir 388. Nú eru þeir 475, eða 123 prósent fleiri en biðu fyrir fimm árum. Þetta hefur leitt til þess að mun fleiri dómar fyrnast án þess að dómþolar þurfi að sitja þá af sér. Í fyrra fyrndust 20 dómar, eða tæplega fimm sinnum fleiri en árið 2009. Þetta kemur fram í upplýsingum sem Fangelsismálastofnun tók saman fyrir Kjarnann, sem mun fjalla ítarlega um málaflokkinn næstu daga.
Sérstakar reglur eru til staðar hjá fangelsisyfirvöldum til að bregðast við þessu ástandi. Dómþolum sem dæmdir eru í tveggja ára fangelsi eða hærri eru í forgangi. Sama gildir um þá sem gerast sekir um refisverðan verknað eða reyna að koma sérundan refsingu. Auk þess leitast Fangelsisstofnun við að verða við beiðni þeirra sem óska eftir að hefja afplánun ef þess er nokkur kostur. Svo er alls ekki alltaf.
Fyrning aukist um 450 prósent
Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, segir að fangarýmum muni fjölga um að minnsta kosti 30 með opnun Hólmsheiðar. Hann segir þó ljóst er að fleiri úrræði þurfa að koma til svo hægt verði að vinna á þeim mikla vanda sem biðlistar eftir afplánun eru. „Þetta eru úrræði eins og rýmkun reglna um afplánun með samfélagsþjónustu og rafrænt eftirlit. Þá má skoða þá leið að breyta reynslulausnarreglum tímabundið en það er verkefni sem Alþingi þarf að fara yfir. Auk þess fyrnast ákveðnar refsingar í þessu árferði.“
Það liggur því fyrir, að vegna skorts á fangelsisplássum og öðrum úrræðum, fyrnast refsingar dæmdra brotamanna þannig að þeir þurfa aldrei að sitja af sér þá dóma sem þeir hafa hlotið. Þetta hefur aukist gríðarlega á undanförnum árum. Á árinu 2009 fyrndust tveir afplánunardómar þar sem sameiginleg dæmd refsing nam 240 dögum. Í fyrra fyrndust 20 dómar, þar sem sameiginleg refsivist var 1.325 dagar. Fyrning hefur því aukist um 450 prósent, ef horft er til þeirra daga sem fyrnast.
Páll segist ekki geta svarað því með einföldum hætti hvað fjölga þyrfti fangelsisplássum mikið til að eyða biðlistum. „Þaðer ekkert einfalt svar við þessu. Það er mögulegt að grípa til ýmissa úrræða sem hafa áhrif á biðlista auk þess að fjölga plássum.“