Í morgun var birtur listi yfir 21 stærstu hluthafa Íslandsbanka eftir hlutafjárútboð þar sem íslenska ríkið seldi 35 prósent eignarhlut í bankanum fyrir 55,3 milljarða króna.
Á listanum kemur fram að þeir 20 fjárfestar sem keyptu mest í útboðinu eiga samtals 18 prósent hlut í bankanum. Það þýðir að hinir þátttakendurnir í útboðinu, en þeir alls voru um 24 þúsund talsins, keyptu samanlagt 17 prósent hlut.
Íslenska ríkið er áfram stærsti eigandi bankans með 65 prósent hlut. Lífeyrissjóður verslunarmanna, Gildi, Capital World Invsestors og RWC Asset Management höfðu þegar við upphaf útboðsins skuldbundið sig til að kaupa um það bil tíu prósent af öllu útgefnu hlutafé Íslandsbanka í hlutafjárútboði bankans og verða svokallaðir hornsteinsfjárfestar.
Samkvæmt hluthafalistanum sem birtur var í morgun tók Capital World Investors stærstan hluta af þessum bita, eða 3,8 prósent. Íslensku lífeyrissjóðirnir tveir eiga svo 2,3 prósent hvor og RWC Asset Management á 1,5 prósent hlut. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, stærsti lífeyrissjóður landsins, á líka samanlagt 1,5 prósent hlut í bankanum. Aðrir sem mynda listann yfir 21 stærstu eigendur bankans eru erlendir fjárfestingarsjóðir og íslenskir lífeyrissjóðir. Enginn einkafjárfestir kemst inn á listann.
Lágt verð og mikið ávöxtun strax
Níföld eftirspurn var eftir bréfum í Íslandsbanka í hlutafjárútboði bankans sem lauk í síðustu viku. Allir greinendur voru sammála um að bréfin væru lágt verðlögð, sérstaklega í samanburði við gengi bréfa í Arion banka, hinum kerfislega mikilvæga bankanum sem skráður er á markað. Það ýtti undir mikla þátttöku í útboðinu.
Þegar bréfin voru tekin til viðskipta í gær hækkuðu þau strax um 20 prósent. Það þýðir að sá sem keypti fyrir eina milljón króna var strax búinn að hagnast um 200 þúsund krónur.
Tæplega þrír fjórðu hlutar allra viðskipta sem áttu sér stað í Kauphöllinni í gær voru með bréf í Íslandsbanka. Heildarvirði viðskiptanna nam 5,4 milljörðum króna. Stór hluti þeirra sem seldu voru litlir einstaklingar sem höfðu keypt fyrir lágar fjárhæðir, milljón krónur eða minna. Það þýðir að ansi margir þátttakendur í útboðinu ákváðu að leysa út ávöxtunina á fyrsta degi.