„Við höfum auðvitað verulegar áhyggjur,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í hádeginu þegar hún ásamt Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra kynntu hertar samkomutakmarkanir að loknum ríkisstjórnarfundi í hádeginu.
20 manna samkomubann tekur gildi á miðnætti annað kvöld, og gildir næstu þrjár vikur eða til 13. janúar. Þá verða 200 manna hólf verða skilgreind á fjöldasamkomum og þar verður neikvæðra hraðprófa krafist. Katrín segir þetta ekki skemmtileg tíðindi að flytja þjóðinni í aðdraganda jóla. Markmiðið sé samt sem áður að halda samfélaginu gangandi eins og kostur er. Reglur á landamærum verða óbreyttar til 15. janúar.
Í minnisblaðinu sem sóttvarnalæknir skilaði til heilbrigðisráðherra í gær er lagt til aðgrunnskólar, framhaldsskólar og háskólar hefji ekki starfsemi fyrr en 10 janúar. Ekki var fallist á þá tillögu en Willum segir að ráðherra skólamála muni ræða við skólastjórnendur um skólahald að loknu jólafríi. Ekki hefur komið til tals að loka leikskólum.
Sundlaugar og líkamsræktarstöðvar mega taka við helmingi færri gestum en vanalega og afgreiðslutími veitinga- og skemmtistaða verður styttur enn frekar. Þá verður tveggja metra nálægðarregla tekin upp í stað eins metra reglu nú. Um átta mánuðir eru síðan 20 manna samkomutakmarkanir voru síðast í gildi hér á landi.
Blanda af tveimur faröldrum
Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands, segir stöðuna ískyggilega í færslu á Facebook í morgun þar sem hann fjallar um vöxt faraldursins. Thor talar um nýjan Covid-veruleika þar sem tvöföldunartími ómíkron-afbrigðisins sé nær því að vera tveir til þrír dagar, auk þess sem delta-afbrigðið sé enn að greinast og því sé um blöndu af tveimur faröldrum að ræða.
Vika frá síðustu hugleiðingu þegar var komin vísbending um viðsnúning og svo jókst vaxtarhraðinn. Fram að síðustu...
Posted by Thor Aspelund on Tuesday, December 21, 2021
12 sjúklingar liggja á Landspítala með Covid-19 og er meðalaldur þeirra 58 ár. Tveir eru á gjörgæslu og annar þeirra í öndunarvél. 2.035 eru í eftirliti á Covid göngudeild spítalans, þar af 718 börn. Frá því að fjórða bylgja faraldursins hófst í lok júní hafa 235 lagst inn á Landspítala.
57 prósent þjóðarinnar móttækileg fyrir alvarlegum veikindum af völdum ómíkron
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir í nýjum pistli á covid.is að óskhyggja megi ekki blinda sýn okkar þó að bólusetning gegn Covid-19 hafi vissulega skilað miklu í baráttunni við faraldurinn.
77 prósent landsmanna hafa fengið tvær bólusetningar og um 43% þrjá skammta eða svokallaða örvunarbólusetningu. Þórólfur segir þessa góðu þátttöku skila árangri en staðreyndin sé samt sem áður sú að 57 prósent þjóðarinnar er móttækileg fyrir alvarlegum veikindum af völdum ómíkron-afbrigðisins þar sem niðurstöðu rannsókna sýna að vernd að völdum fyrri sýkinga og vernd af bólusetningum eru hins vegar minni en gegn delta-afbrigðinu.
„Við verðum að nýta okkur þær upplýsingar sem liggja fyrir um raunverulegan árangur bólusetninganna og leggja þannig mat á þá hættu sem stafar af COVID-19. Samfélagslegum aðgerðum þarf jafnframt að beita á hóflegan og skynsamlegan máta til að vernda heilbrigði almennings,“ segir Þórólfur í pistli sínum.