Kolefnisspor matvælaframleiðslu er sífellt að verða greinilegra með nýjum rannsóknum. Og það er dýpra en áður var talið. Margvísleg losun gróðurhúsalofttegunda verður við framleiðslu á matvælum hvers konar, s.s. vegna þess að til framleiðslunnar er brotið land og búfénaður losar sitt. Talið er að um þriðjungur losunarinnar komi frá ræktun, vinnslu og pökkun matvæla en flutningur þeirra innan landa og á milli hefur hingað til verið vanmetinn, segja vísindamenn sem birt hafa nýja rannsókn um málið í Nature Food, riti sem heyrir undir samsteypuna sem gefur út vísindatímaritið Nature. Samkvæmt rannsókninni er um 20 prósent allrar losunar í matvælaiðnaði vegna flutninga – mun hærra hlutfall en áður var talið.
Matvælaiðnaðurinn er flókið fyrirbæri og það hefur reynst þrautin þyngri að mæla beina losun frá honum, ekki síst þá sem rekja má til flutninga matvara. Hingað til hafa flestar rannsóknir mælt losun vegna flutnings ákveðinnar vöru, s.s. súkkulaðistykkis, allt frá verksmiðjunni og í búðina eða heim til neytandans. En þá hefur verið horft fram hjá losun sem tilkomin er vegna flutninga á hráefnum jafnvel þvert yfir hnöttinn.
Mengyu Li við Háskólann í Sydney og samstarfsmenn hennar vildu ná utan um flutningana í heild. Þau söfnuðu gögnum frá 74 löndum og svæðum, könnuðu uppruna hráefna matvæla og kortlögðu flutninga á þeim frá einum stað til annars. Niðurstaðan: Flutningur á mat samsvaraði losun þriggja gígatonna kolefnis (eitt gígatonn er milljarður tonna) út í andrúmsloftið árið 2017. Það er um 7,5 sinnum meira en áður var talið.
Efnaðri þjóðir heims bera ábyrgð á um helmingi allrar þessarar losunar þrátt fyrir að þar búi aðeins um 12 prósent mannkyns. Efnaminni lönd bera ábyrgð á um 20 prósent af losun frá flutningi matvæla en í þessum löndum býr um helmingur mannkyns.
Munurinn skýrist m.a. af því að efnameiri ríki eru líklegri en þau efnaminni til að flytja inn matvæli frá öðrum löndum. Grænmeti, ávextir og fleiri matvæli er svo oft haldið köldum eða frosnum á ferðalaginu sem eykur losun mikið. Flutningur ávaxta og grænmetis er t.d. talinn losa tvöfalt meira en ræktun þessara sömu matvæla.