Björgólfur Thor Björgólfsson segir Róbert Wessman og Árna Harðarson ekki hika við að leggja í tugmilljóna króna kostnað til að reyna að klekkja á sér. „Róbert hefur í digra sjóði að sækja, enda gætti hann þess vandlega að koma auð sínum undan kröfuhöfum, í stað þess að gera upp milljarða skuldir sínar við íslensku bankana eftir hrun. Auðvitað gera þeir sér engar vonir um bætur úr minni hendi, enda eina markmiðið að sverta mannorð mitt.“ Þetta kemur fram í nýrri færslu á bloggsíðu Björgólfs Thors, www.btb.is,
Kjarninn greindi frá því á miðvikudag að félag í eigu Árna Harðarsonar, stjórnarmanns og lögmanns lyfjafyrirtækisins Alvogen, ætti um 60 prósent þeirra hlutabréfa sem eru að baki hópmálsókn sem nú er rekin gegn Björgólfi. Árni á hlutabréfin, sem hann hefur keypt af islenskum lífeyrissjóðum nýverið, í gegnum félag sem heitir Urriðahæð ehf. Samtals hefur Árni greitt á milli 25 til 30 milljónir króna fyrir hlutabréfin, sem eru verðlaus nema að til takist að fá viðurkennt fyrir dómstólum að Björgólfur Thor eigi að greiða fyrrum hluthöfum Landsbankans skaðabætur. Til viðbótar þarf Urriðhæð að greiða sinn hluta málskostnaðar. Hann gæti hlaupið á tugum milljóna króna.
Árni er nánasti samstarfsmaður Róberts Wessmans. Þeir störfuðu áður báðir hjá Actavis, á meðan að Björgólfur Thor var aðaleigandi þess fyrirtækis. Síðan að Árni og Róbert hættu störfum hjá Actavis árið 2008 hefur andað verulega köldu milli þeirra og Björgólfs Thors. Hann hefur meðal annars stefnt þeim til greiðslu skaðabóta fyrir meintan fjárdrátt auk þess sem báðir aðilar hafa ítrekað atyrt hinn á opinberum vettvangi á undanförnum árum.
Einstakt mál
Björgólfur Thor fer hörðum orðum um Árna og Róbert í færslunni sem hann setti inn á bloggsíðu sína í dag. Þar segir hann meðal annars að fingraför þeirra hafi verið á málinu frá upphafi. Hann gagnrýnir svo lögmennina sem að málinu hafa komið, þingmanninn Vilhjálm Bjarnason, RÚV og lífeyrissjóði landsins fyrir þeirra aðkomu að því.
Hópmálsóknin gegn Björgólfi Thor var þingfest í vikunni. Málshöfðunin er sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi er lýtur að dómsmálum sem tengjast bankahruninu. Aldrei áður hafa fyrrum hluthafar í íslenskum banka tekið sig saman og stefnt fyrrum aðaleiganda hans fyrir að hafa blekkt sig með saknæmum hætti til að eiga í bankanum. Og krefjast skaðabóta fyrir. Björgólfur Thor hefur ávallt neitað sök og sagt málshöfðunina vera gróðrabrall lögmanna sem að henni starfa.
Kjarninn hefur stefnuna í málinu, sem er 50 blaðsíður að lengd, undir höndum. Hana má lesa hér.
Alls taka 235 aðilar þátt í málsókninni. Þeir eiga samtals 5,67 prósent af heildarhlutafé í Landsbankans, sem féll haustið 2008.
Krefjast að skaðabótaskylda verði viðurkennd
Málsóknarfélagið krefst þess að skaðabótaskylda Björgólfs Thors á því tjóni sem aðilar að félaginu urðu fyrir þegar hlutabréf í Landsbankanum urðu verðlaus við fall hans 7. október 2008. Í stefnunni kemur fram að félagsmenn byggi málsóknina á því „að þeir hefðu ekki verið hluthafar í Landsbanka Íslands hf. og þar með ekki orðið fyrir tjóni, ef ekki hafði komið til hinnar saknæmu og ólögmætu háttsemi stefnda [Björgólfs Thors]“.
Það sem málsóknarfélagið telur að Björgólfur Thor hafi gert, og hafi ollið þeim skaða, er þrennt. Í fyrsta lagi hafi ekki verið veittar upplýsingar um lánveitingar Landsbanka Íslands til Björgólfs Thors og tengdra aðila í ársreikningum bankans fyrir rekstrarárið 2005 og í öllum uppgjörum eftir það fram að hruni.
Í öðru lagi hafi Björgólfur Thor vanrækt á tímabilinu 30. júní 2006 til 7. október 2008, að „upplýsa opinberlega um að Samson eignarhaldsfélag ehf. [Í aðaleigu Björgólfs Thors og föður hans] færi með yfirráð yfir Landsbanka Íslands hf., og teldist því móðurfélag bankans“.
Í þriðja lagi telur félagið að Björgólfur Thor hafi vanrækt að „sjá til þess að Samson eignarhaldsfélag ehf. gerði öðrum hluthöfum Landsbanka Íslands hf. yfirtökutilboð hinn 30. júní 2006, eða síðar, í samræmi við ákvæði laga um verðbréfaviðskipti“.