Enginn af þeim 224 sem var um borð í flugvél rússneska flugfélagsins Kogalymavia, í flugi númer KGL9268, komst lífs af þegar flugvélin fórst í Egyptalandi í morgun, en hún var á leið frá Sharm el-Sheikh við Rauðahafið til St. Pétursborgar. Hún fórst um tuttugu og tveimur mínútum eftir flugtak.
Vladímir Pútín, forseti Rússlands, hefur lýst yfir þjóðarsorg í Rússlandi og fyrirskipað rannsókn á orsökum þess að vélin fórst. Nær allir um borð voru Rússar, aðallega ferðamenn. Þrír einstaklingar frá Úkraínu voru um borð, af þeim 217 farþegum sem voru í vélinni. Áhöfnin vélarinnar taldi sjö talsins.
Samkvæmt fréttum breska ríkisútvarpsins BBC voru 138 konur í vélinu og sautján börn á aldrinum tveggja til sautján ára. Aðstæður á vettvangi slyssins er sagðar skelfilegar. Hin svokallaði svarti kassi, sem geymir upplýsingar um samskipti og aðgerðir flugmanna, er þegar fundinn og hefur verið fjarlægður af vettvangi til rannsóknar.
Pútín hefur farið fram á að rússneskt rannsóknarteymi fari strax á vettvang til að stýra sjálfstæðri rannsókn. Ekkert hefur verið gefið upp um ástæður þess að vélin fórst, enda rannsókn á frumstigi.