Í óvísindalegri könnun sem Stefán Jón Hafstein hefur framkvæmt innan Facebook-hópsins „Hlutverk forseta“ kemur fram að um 80 prósent aðspurðra telja forseta Íslands áhrifavald í íslensku samfélagi eins og embætti hans hefur þróast og 70 prósent telja mikilvægt að forseti hafi synjunarvald. Flestir vilja þó að það sé notað varlega eða aðeins í öryggisskyni. Þrátt fyrir mikinn stuðning við synjunarvaldið telja flestir þeirra sem svara könnun Stefáns Jóns að leikreglur um beitingu þess séu óskýrar og meirihluti telur að synjunarvaldið eigi heima hjá bæði þjóð og forseta. Um 48 prósent þátttakenda telja að forsetinn eigi að vera áhrifavaldur í þágu málefna sem hann kýs að setja áoddinn í ræðu og riti en að hann eigi ekki að blanda sér í átakamál líðandi stundar og um helmingur segir að starfstengd reynsla og persónulegir eiginleikar sem viðkomandi telur að komi sér vel fyrir þjóðhöfðingja skipti jafn miklu máli þegar kemur að vali á forseta.
Könnuninni var hleypt af stokkunum með bréfi til um 250 einstaklinga í október sem höfðu vakið athygli Stefáns Jóns á undanförnum árum „fyrir að villja leggja gott til mála“. Samhliða setti Stefán Jón á fót Facebook-hópinn „Hlutverk forseta“. Í bréfinu stóð m.a. að forsetakosningarnar á næsta ári geti markað tímamót í stjórnmálamenningu Íslands. „Forseti Íslands er áhrifavaldur, afstaða hans til samfélagsmála er mikilvæg eins og ráða má af framgöngu allra þeirra sem gegnt hafa embættinu á lýðveldistímanum. Því miður er staðan sú að stjórnarskráin gefur talsvert svigrúm til frjálslegrar túlknunar á hlutverki og framgöngu forseta. Næsti forseti Íslands þarf að hafa skýrt umboð til að tala máli almannahagsmuna og beita áhrifum embættisins til góðs“.
Í gegnum Facebook-hópinn „Hlutverk forseta“ hefur Stefán Jón síðan safnað saman svörum við ýmsum spurningum er varða hlutverk forsetans á undanförnum vikum. Hann hefur nú tekið svörum við þessum spurningum saman og birt. Alls tóku um sjö hundruð manns þátt í könnun Stefán Jóns og var þátttaka valfrjáls. Þ.e. þátttakendur voru ekki valdir með slembiúrtaki. Því er ekki um félagsvísindalega önnun að ræða og svörin ekki tölfræðilega marktæk fyrir þjóðina alla. Tilgangur könnunarinnar var enda sá að kanna afstöðu þess hóps sem þátt tók til nokkurra lykilspurninga og í samantekt sem Stefán Jón hefur sent frá sér vegna hennar segir: „Í flestum tilvikum er um mjög afgerandi afstöðu að ræða hjá hópnum svo könnunin gefur býsna skýra mynd af því hvernig þessir áhugamenn meta embættið“.
Niðurstöður könnunarinnar má lesa í heild sinni hér.
Stefán Jón hefur ítrekað
verið orðaður við framboð til forseta Íslands, en fimmta kjörtímabili Ólafs Ragnars Grímssonar lýkur á næsta ári. Hann upplýsir þó ekki um hvort
hann ætli sér að láta af því verða, hvorki í niðurstöðuskjalinu né í aðsendri
grein sem birtist í dag á Kjarnanum.