Um fjögur þúsund kínverskir embættismenn og aðrir gestir fögnuðu frumsýningu fyrstu farþegaflugvélarinnar af gerðinni C919 í Shanghai í gær. Flugvélin er sú fyrsta sem kínverska ríkisfyrirtækið Comac framleiðir. Afhjúpun flugvélarinnar markar tímamót þar sem Kína blandar sér í samkeppni á markaði flugvélaframleiðslu, þar sem fyrir eru risarnir Airbus og Boeing.
Í frétt Business Insider um frumsýningu flugvélarinnar segir að Kína vilji með eigin framleiðslu ná til sín hluta af þeim fjárhagslega ávinningi sem nú rennur til annarra flugvélaframleiðenda. Nokkuð er liðið frá því að vinna hófst við smíði vélarinnar, sem var árið 2008. Þá var áætlað að áætlunarflug myndi hefjast árið 2016 en það tafðist um eitt ár.
Í C919 flugvélunum eru sæti fyrir 168 farþega og keppir vélin því helst við A320 flugvél Airbus og 737 flugvél Boeing. Comac, framleiðandi vélanna, segir að alls hafi 21 viðskiptavinur pantað 517 eintök af C919 til þessa, einkum kínversk flugfélög.