Upptökur af samskiptum flugmanna í flugvélinni sem fórst í Egyptalandi um liðna helgi, tuttugu og tveimur mínútum eftir flugtak, eru nú komnar inn á borð rússneskra rannsakenda sem leitast við að upplýsa um hvers vegna vélin fórst. Hinn svokallaði svarti kassi, sem geymir endurrit af hljóðupptökum, fannst fljótt á staðnum þar sem vélin brotlenti. Vladímír Pútín, forseti Rússlands, segir að allt verði gert til þess að upplýsa málið og bregðast við þegar fyrir liggur hvað gekk á.
Möguleikanum á því að hryðjuverkasamtökin Íslamska ríkið, sem Rússar berjast við í Sýrlandi við hlið stjórnarhersins í landinu, hafi grandað vélinni hefur ekki verið ýtt útaf borðinu. Hann þykir ólíklegur, sökum þess í hvaða hæð vélin var þegar hún missti hæð, en ekkert er þó útilokað.
Enginn af þeim 224 sem var um borð í flugvél rússneska flugfélagsins Kogalymavia, í flugi númer KGL9268, komst lífs af þegar flugvélin fórst í Egyptalandi, en hún var á leið frá ferðamannastaðnum Sharm el-Sheikh við Rauðahafið til St. Pétursborgar í Rússlandi. Talsmenn Kogalymavia segja að allt bendi til þess að vélin hafi ekki farist vegna tæknibilunar, heldur frekar skyndilegs höggs eða annarra ytri áhrifa. Yfirvöld í Rússlandi hafa ekkert viljað segja um málið, en segja of snemmt að segja til um hvað gerðist, þar sem málið sé í rannsókn, aðsögn BBC.
Eftir að vélin fórst lýstu hryðjuverkasamtök, sem starfaða hafa undir verndarvæng Íslamska ríkisins, yfir ábyrgð á því að vélin fórst. Sú yfirlýsing hefur hins vegar ekki verið metin trúverðug, hvorki af yfirvöld í Egyptalandi né Rússlandi. Mikill titringur er sagður í Rússlandi vegna málsins, og eru forsvarsmenn Kogalymavia flugfélagsins sagðir undir mikilli pressu vegna málsins.