Hlutabréf í japanska félaginu Japan Post Holding, sem til þessa hefur verið alfarið í eigu japanska ríkisins, voru tekin til viðskipta í kauphöllinni í Japan í dag, og hækkaði gengi bréfanna um 26 prósent frá skráningargengi. Fjárfestar sýndu þessari skráningu mikinn áhuga og náði japanska ríkið sér samtals í tæplega tólf milljarða Bandaríkjadala, jafnvirði 1.700 milljarða króna, með skráningu á markað.
Skráningin á Japan Post Holding er sú stærsta frá því kínverski vefverslunarrisinn Alibaba var skráður á markað í Bandaríkjunum, í september í fyrra.
Japanska ríkið seldi um ellefu prósent hlut í bankanum Japan Post Bank og tryggingarfélaginu Japan Post Insurance, en þessi félög eru dótturfélög Japan Post Holding.
Með þessari sölu og skráningu, hyggjast japönsk stjórnvöld fjármagna áætlun sem meðal annars miðar að því ljúka endurreisnarstarfi vegna eyðileggingar sem jarðskjálfti og flóðbylgja í kjölfarið skildu eftir sig árið 2011.
Sala á eignarhlutum í Japan Post Holding, hófst formlega fyrir um áratug, en þá voru smáir eignarhlutir seldir til fagfjárfesta. Félagið heldur meðal annars um stóran hlut af húsnæðislánum Japans, og hefur ríkisstjórn Shinzo Abe, forsætisráðherra, það á stefnuskrá sinni að selja hluti ríkisins í félaginu á næstu árum, eftir því sem aðstæður leyfa.