365 miðlar, stærsta einkarekna fjölmiðlafyrirtæki landsins, tapaði 1.360 milljónum krónum á árinu 2014. Fyrirtækið hagnaðist hins vegar um 106 milljónir króna á fyrri hluta ársins 2015. Þetta kemur fram í tilkynningu sem 365 miðlar sendu frá sér vegna afkomu sinnar í dag.
Í tilkynningunni segir að stóran hluta tapsins á árinu 2014 megi „rekja til kostnaðar vegna sameiningar, endurskipulagningar, niðurfærslu dagskrárbirgða og sérstakra afskrifta sem samtals nemur um 1.071 milljónum króna“.
Sala jókst um 24 prósent á fyrri hluta ársins 2015 og nam samtals um 5,6 milljörðum króna. Á fyrri hluta ársins 2014 nam sala 365 4,5 milljörðum króna.
Þá segir að 365 hafi nýlega ákveðið að fara í útboð með öll bankaviðskipti sín "og þar með undirbúa félagið betur fyrir mögulega skráningu félagsins í Kauphöll Íslands".
Í kjölfarið valdi félagið að ganga til samninga við Arion
banka og segir að það muni minnka fjármagnskostnað félagsins "verulega" frá árinu 2014.
365 greiddi 372 milljónir vegna öfugs samruna
Í tilkynningunni kemur fram að Yfirskattanefnd hafi úrskurðað að 365 hafi verið óheimilt að draga vaxtagjöld frá skattskyldum tekjum árin 2009-2014. Málið snýst um niðurfellingu vaxta á lánum sem eru tilkomin vegna öfugs samruna Rauðsólar ehf. og 365 miðla þann 1. janúar 2009. Rauðsól, sem þá var í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, keypti 365 miðla af 365 ehf. í nóvember 2008 á 1,5 milljarð króna og með yfirtöku á hluta af skuldum félagsins. Gamla 365 ehf., sem var endurnefnt Íslensk afþreying ehf., fór í þrot og kröfuhafar þess töpuðu 3,7 milljörðum króna. Í dag er Ingibjörg Pálmadóttir, eiginkona Jóns Ásgeirs, aðaleigandi 365 miðla.
Í ársreikningi 365 miðla fyrir árið 2013 sagði að ef málið myndi tapast gæti „það haft veruleg áhrif á eiginfjár- og langtímastöðu félagsins“.
Nú hefur málið tapast og 365 miðlar hafa þurft að greiða 372 milljónir króna í endurálagningu. Í tilkynningunni sem send var út í dag segir að stjórn 365 hafi „ákveðið að fara með málið fyrir dómstóla enda málið að mati ráðgjafa félagsins frábrugðið þeim málum sem þegar hafa komið til kasta dómstóla. 365 hefur greitt álagninguna en mun höfða dómsmál til að fá henni hnekkt“.
Árið 2014 um margt sérstakt
Í fréttatilkynningunni er haft eftir Sævari Frey Þráinssyni, forstjóra 365 miðla, að árið 2014 hafi verið um margt sérstakt. " 365 hafði þá ný hafið starfsemi á fjarskiptamarkaði, sem hafði tímabundið í för með sér aukin kostnað fyrir félagið. Tekjuvöxtur var töluverður eða 13% í áskriftarsölu sjónvarps, auglýsingasala var undir væntingum en jókst um 3%, fjarskiptatekjur jukust umtalsvert eða um 877% milli ára í kjölfar sameiningar við Tal. Mörgum mikilvægum verkefnum lauk á síðasta ári sem styrktu rekstrargrundvöll 365 til lengri tíma. Þar ber fyrst að telja sameining við Tal sem rennir enn frekari stoðum undir fjarskiptarekstur félagsins. Gengið var frá endurfjármögnun félagsins og á árinu voru sameinaðir A- og B-flokkar hlutafjár og hlutafé aukið í nýjum B-flokki hlutafjár um 445 millj.kr. Jafnframt var gripið til umfangsmikilla hagræðingaraðgerða, skorið niður í mannahaldi og yfirstjórn sem og kostnaðarlækkunum náð fram í samningum við birgja.[...]. Horfur í rekstri eru góðar en seinni hluti ársins er að jafnaði betri en fyrri."