Fjölmiðlavíti til varnaðar

Óhætt er að segja að Se og Hør málið í Danmörku hafi varpað kastljósinu á verklag fjölmiðla í landinu. Borgþór Arngrímsson kynnti sér þetta ótrúlega mál.

Seoghor
Auglýsing

Dómar sem féllu í hinu svonefnda Se og Hør máli í Danmörku fyrir nokkrum dögum hafa vakið mikla athygli. Dómarnir eiga sér ekki fordæmi á Norðurlöndum og munu hafa mikil áhrif á störf blaðamanna á komandi árum. Þetta er álit danskra fjölmiðlasérfræðinga. Sjö einstaklingar voru dæmdir til refsingar og útgefandi Se og Hør, fyrirtækið Aller, var sektað um jafnvirði 160 milljóna íslenskra króna.

Se og Hør skandallinn, einsog Danir kalla málið, byrjaði í apríl 2014 þegar Ken B. Rasmussen, fyrrverandi blaðamaður á vikublaðinu Se og Hør sendi frá sér bókina ”Livet, det forbandede” þar sem lýst var lífinu á vikublaðinu Set & Hört. Í bókinni, sem höfundur kallaði skáldsögu, er lýst vinnubrögðum á samnefndu slúðurblaði, sem engum gat dulist að væri í raun Se og Hör. Dagblaðið BT hafði nokkru áður en bókin kom út fjallað nokkuð um innihald hennar, sem sagt var „eldfimt”. Lögreglan hafði veður af innihaldinu en hafðist ekki að fyrr en bókin var komin út.

Upplýsingasölumaðurinn  

Það eldfima efni sem BT hafði greint frá reyndist  vera það að starfsmaður dansks greiðslukortafyrirtækis hafði selt blaðamönnum Set og Hørt (Se og Hør) upplýsingar um greiðslukortanotkun margra þekktra Dana á árunum 2008 – 2011, þar á meðal sona Margrétar Þórhildar drottningar, Friðriks og Jóakims. Starfsmaðurinn (sem kallaður var tys-tys kilden, suss suss heimildin) var á þessum árum starfsmaður greiðsluþjónustufyrirtækis og hafði aðgang að upplýsingunum sem voru trúnaðarmál. Fyrst eftir útkomu bókarinnar vildi lögreglan ekki staðfesta að suss-suss heimildin væri í raun til en stuttu eftir að bókin kom út gaf maður að nafni Peter Bo Henriksen sig fram hjá lögreglu og sagðist vera sá sem selt hefði Se og Hør trúnaðarupplýsingarnar. Hann væri suss-suss heimildin.

Auglýsing

Daginn sem bókin kom út hóf Aller fyrirtækið, útgefandi Se og Hør, innanhússrannsókn hjá blaðinu, nokkrir starfsmenn voru sendir í ótímabundið leyfi. Danskir fjölmiðlar kölluðu þetta „Heimsendingarþjónustu Aller”. Útgáfa Se og Hør stöðvaðist jafnframt um tíma. Lögreglan lagði einnig hald á tölvur, síma og margs konar gögn á skrifstofum Se og Hør. Úgáfufyrirtækið vildi ekki una því en Hæstiréttur Danmerkur heimilaði notkun allra gagnanna.

Tímafrek rannsókn   

Rannsóknin á Se og Hør reyndist bæði flókin og tímafrek. Gögn sem lögreglan lagði hald á hjá blaðinu leiddu í ljós að suss-suss heimildin var ekki eini maðurinn sem fengið hafði borgað fyrir margs konar upplýsingar. En það er önnur saga.

Í janúar í fyrra tilkynnti lögreglan að rannsókn Se og Hør málsins lyki á fyrri hluta þessa árs. Tólf einstaklingar voru á lista grunaðra, auk Aller útgáfufyrirtækisins.

Átta voru ákærðir  

6. júlí síðastliðinn voru ákærurnar birtar Átta einstaklingar voru ákærðir, þar á meðal Henrik Qvortrup, sem var ritstjóri Se og Hør á árunum 2002 -2008, Kim Henningsen sem var ritstjóri frá 2009 – 2012, Ken B. Rasmussen, sem kom upp um málið með bók sinni og síðast en ekki síst suss-suss heimildin Peter Bo Henriksen.

Sjö voru dæmdir

Dómar í undirrétti (lægsta dómstig af þrem) voru kveðnir upp fyrir þrem dögum, 24. nóvember. Peter Bo Henriksen fékk þyngsta dóminn 18 mánaða óskilorðsbundið fangelsi og hald lagt á 365 þúsund krónur (tæpar 6 milljónir íslenskar). Henrik Qvortrup fékk 15 mánaða fangelsi, þar af þrír mánuðir óskilorðsbundnir og auk þess 200 klukkustunda samfélagsþjónustu. Kim Henningsen fékk 12 mánaða fangelsi, skilorðsbundið og 200 klukkustunda samfélagsþjónustu. Ken B. Rasmussen, höfundur bókarinnar ”Livet, det forbandede” fékk fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi og 100 klukkustunda samfélagsþjónustu.  Aðrir fengu vægari dóma og einn, Per Ingdal útgáfustjóri, var sýknaður af ákæru. Aller fyrirtækið fékk 10 milljón króna sekt (160 milljónir íslenskar). Peter Bo Henriksen, suss-suss heimildin, tilkynnti þegar dómurinn lá fyrir að hann myndi áfrýja, aðrir tóku sér umhugsunarfrest.  

Athygli danskra fjölmiðla hefur einkum beinst að Henrik Qvortrup, sem var ritstjóri Se og Hør þegar samið var við suss-suss heimildina. Henrik Qvortrup er einn þekktasti fréttahaukur landsins. Hann var, þegar bókin kom út, helsti stjórnmálaskýrandi sjónvarpsstöðvarinnar TV2 en hætti samstundis. Hann hefur síðan verið blaðamaður á fríblaðinu MX, Metroexpress, og einnig stjórnað þáttum á útvarpsstöðinni Radio24syv. Á árunum 1998 – 2000 var Henrik Qvortrup aðstoðarmaður (spindoktor) Anders Fogh Rasmussen, sem þá var formaður Venstre.

Fjölmargar spurningar vakna

Dómarnir, einsog málið allt, hafa vakið mikla athygli í Danmörku og einnig í nágrannalöndunum. Danskir fjölmiðlar kalla þetta mesta og sögulegasta fjölmiðlahneyksli í sögu landsins.

Ástæður þess að málið hefur vakið svo mikla athygli eru nokkrar. Se og Hør er mjög þekkt blað sem mjög margir lesa (þótt margir þykist aldrei fletta því). Að blaðið skuli hafa gengið jafn langt og raun ber vitni til að ná í „uppsláttarfyrirsagnir” hefur líka komið mörgum á óvart. Fjölmiðlasérfræðingar vilja ekki kalla það fréttir að tilteknir þjóðþekktir einstaklingar séu, eða hafi verið, á sólarströndum Spánar, slíkt flokkist undir slúður. Engir þjóðarhagsmunir séu í húfi þótt ógiftur þingmaður og ógift sjónvarpsfréttaþula hafi sést saman á götu í Róm. Það hefur líka vakið athygli að fyrst blaðið kaus að borga, í þessu tilviki suss-suss heimildinni skyldi ritstjórnin ekki sýna meiri varkárni í samskiptum og reyna þannig að vernda heimildamanninn.

Fjölmiðlasérfræðingar undrast einnig að blaðamenn „óbreyttir hásetar” eins og það er orðað skuli dregnir til ábyrgðar og dæmdir fyrir það eitt að hlýða fyrirskipunum yfirmanna. Margir fjölmiðlasérfræðingar sem danskir fjölmiðlar hafa rætt við undanfarna daga telja að dómarnir í Se og Hør málinu muni verða til þess að blaðamenn verði tregari til að takast á við og rannsaka erfið mál ef þeir eigi á hættu að vera gerðir ábyrgir fyrir því sem miðillinn birtir. Sérfræðingarnir eru líka sammála um að dómarnir nú sýni að miðlarnir geti ekki gert hvað sem er til að krækja í uppsláttarfyrirsagnir, sem freista lesenda.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Losun koldíoxíðs út í andrúmsloftið á stóran þátt í því að þolmarkadagur jarðar er jafn snemma á árinu og raun ber vitni.
Þolmarkadagur jarðarinnar er runninn upp
Mannkynið hefur frá upphafi árs notað þær auðlindir sem jörðin er fær um að endurnýja á heilu ári. Til þess að viðhalda neyslunni þyrfti 1,7 jörð.
Kjarninn 29. júlí 2021
Örn Bárður Jónsson
Ný stjórnarskrá í 10 ár – Viska almennings og máttur kvenna
Kjarninn 29. júlí 2021
Til að fá að fljúga með flugfélaginu Play verða farþegar að skila inn vottorði um neikvæða niðurstöðu úr PCR-prófi eða hraðprófi.
Hafa þurft að vísa vottorðalausum farþegum frá
Flugfélagið Play hefur fengið jákvæð viðbrögð við þeirri ákvörðun að meina farþegum um flug sem ekki hafa vottorð um neikvætt COVID próf. Fyrirkomulagið verður enn í gildi hjá Play þrátt fyrir að vottorðalausum muni bjóðast sýnataka á landamærunum.
Kjarninn 29. júlí 2021
Kamilla Jósefsdóttir og Alma Möller landlæknir.
Sértæk bóluefni gegn delta-afbrigði „okkar helsta von“
Frá því að fjórða bylgja faraldursins hófst hér á landi hafa sextán sjúklingar legið á Landspítala með COVID-19. Tíu eru inniliggjandi í dag, þar af tveir á gjörgæslu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Kort Sóttvarnastofnunar Evrópu sem uppfært var í dag.
Ísland orðið appelsínugult á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu
Mikil fjölgun greindra smita hér á landi hefur haft það í för með sér að Ísland er ekki lengur grænt á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu. Væru nýjustu upplýsingar um faraldurinn notaðar yrði Ísland rautt á kortinu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningateymis almannavarna.
Smitrakningunni „sjálfhætt“ ef fjöldi smita vex gríðarlega úr þessu
Miklar annir eru nú hjá smitrakningarteymi almannavarna. Á bilinu 180-200 þúsund notendur eru með smitrakningarforrit yfirvalda í símum sínum og það gæti reynst vel ef álagið verður svo mikið að rakningarteymið hafi ekki undan. Sem gæti gerst.
Kjarninn 29. júlí 2021
Ari Trausti Guðmundsson
Faraldur er ekki fyrirsjáanlegur
Kjarninn 29. júlí 2021
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
„Ekki má hringla með marklínuna“
Dómsmálaráðherra vonar að stjórnarandstöðunni „auðnist ekki að slíta í sundur þá einingu sem ríkt hefur meðal landsmanna í baráttunni gegn veirunni“. Samhliða útbreiddri bólusetningu þurfi að slá nýjan takt og „leggja grunn að eðlilegu lífi á ný“.
Kjarninn 29. júlí 2021
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar
None