„Ég verð að viðurkenna að mér hefði fundist smartara ef Björk hefði notað þetta tækifæri til að hvetja til samstarfs og samtals um þessi mikilvægu mál, frekar en að biðja alþjóðapressuna um þennan stuðning gegn okkur í ríkisstjórninni.“
Þetta segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, atvinnuvegaráðherra, á Facebook síðu sinni vegna blaðamannafundar sem Andri Snær Magnason rithöfundur og Björk Guðmundsdóttir héldu í dag, þar sem þau óskuðu eftir stuðningi frá heimsbyggðinni gegn stóriðjustefnu stjórnvalda hér á landi.
Ragnheiður Elín segist hafa verið mikill aðdáandi Bjarkar um áratugaskeið og að hún vilji gjarnan ræða við Björk um orkumálin. „Ég hef aldrei rætt umhverfis og orkumál við Björk - myndi gjarnan vilja gera það. Ég held að við sem sitjum í núverandi ríkisstjórn séum ekki þeir miklu andstæðingar hennar eins og mér sýnist hafa verið dregið upp á blaðamannafundinum áðan. Ég held að báðar séum við unnendur íslenskrar náttúru og viljum framtíð landsins okkar og þjóðar sem allra besta. Ýmislegt sem þarna var fullyrt er einfaldlega rangt og ég held að það væri mun vænlegri leið að setjast yfir þau atriði og athuga í raun hvað okkur greinir á áður en blásið er í herllúðra. Björk er stórkostlegur tónlistarmaður sem ég hef dáð og dýrkað um áratuga skeið. Ég hef kannski verið of feimin við stórstjörnuna til að biðja hana að hitta mig og ræða þessi mál. Kannski að ég manni mig upp í það...,“ sagði Ragnheiður Elín á Facebook síðu sinni.