Skelfing greip um sig meðal flóttamannanna. Þau sátu í rútu sem hafði tveimur tímum áður keyrt út frá ókunnri borg. Osló hét hún víst. Noregur var áfangastaður sem þau höfðu haldið að væri öruggur. Og svo keyrði rútan út af þjóðveginum og sniglaðist upp hlykkjóttan fjallveg, út í myrkar óbyggðir í húmi nætur. Eftir á sögðu flóttamennirnir við norska blaðið Aftenposten að þeir hefðu haldið að sinn síðasti dagur væri upp runninn. Margir áttu sárar minningar frá ofbeldi í heimalandinu, lífsháska sem þau höfðu lent í á erfiðu ferðalagi og mannvonsku kaldrifjaðra smyglara. Nokkrir byrjuðu að gráta hástöfum. En svo renndi rútan í hlað við háfjallahótelið Hornsjø, í nágrenni við Lillehammer. Morguninn eftir vaknaði flóttafólkið við algjöra kyrrð og fjallasýn sem rúmaði heila ólympíuleika fyrir ellefu árum síðan.
Hornsjø er eitt af mörgum hótelum í Noregi sem nú hýsa flóttafólk, til lengri eða skemmri tíma. Norska sjónvarpsstöðin TV2 segir frá því að um 8000 flóttamenn búi á hótelum víðs vegar um Noreg, gjarna í náttmyrkrinu í Norður-Noregi eða á öðrum afskekktum stöðum. Reikningur norsku útlendingastofnunarinnar hleypur á 6,5 milljónum norskra króna á sólarhring, um 100 milljónir íslenskra króna.
Útlendingastofnunin segist vilja skipta út hótelgistingunni fyrir einfaldari aðbúnað í íþróttasölum eða álíka. En fólk heldur bara áfram að streyma inn, og þá er einfaldara að senda fólk þangað sem þegar eru uppbúin rúm. Auðvitað koma upp tillögur um annað húsarými: íþróttahallir, gamlar herbúðir, óseld hús sem standa auð. Í nágrenni Stafangurs hefur meira að segja komið til tals að flóttafólk geti gist í aflögðum útsjávaríbúðabragga sem áður var tengdur olíuborpalli en stendur nú á eða við land. Þó hefur Noregur ekki fengið í fangið nema brotabrot af þeim fólksfjölda sem hefur streymt til Svíþjóðar.
Ekki rúm fyrir þau á gistihúsinu
Í Svíþjóð er allt orðið fullt. Sænski fjármálaráðherrann varar flóttafólk við að koma til Svíþjóðar því það geti ekki treyst því að fá þak yfir höfuðið fyrir veturinn. Sænska kerfið er sprengt. Svíþjóð getur ekki skotið skjólshúsi yfir fleiri flóttamenn, segir ríkisstjórnin, og hefur sótt um neyðaraðstoð til ESB. Sænska stjórnin vill að Evrópusambandið telji landið með Grikklandi og Ítalíu, í hópi þeirra landa sem þegar hafa sprengt getu sína til að geta tekið á móti flóttamönnum svo vel sé.
Svíþjóð áætlar að um 190.000
manns muni koma til landsins áður en árið er liðið í þeim tilgangi að sækja um
hæli. Hlutfallslega er þetta miklu fleiri en komið hafa til Þýskalands, sem þó
hefur verið hvað mest í fréttum fyrir að taka flóttafólki opnum örmum.
Þjóðverjar munu líklega taka við einni milljón fram að áramótum, en Þjóðverjar
eru átta sinnum fleiri en Svíar, svo miðað við höfðatölu er álagið 60% meira á
sænska kerfið. Flóttamannafjöldinn í Svíþjóð á þessu ári tilsvarar því að 6500
flóttamenn kæmu og sæktu um hæli á Íslandi.
Nágrannalöndin Noregur og Danmörk fá ekki nema brotabrot af sænska flóttamannastraumnum til sín. Hér er gott yfirlit norska blaðsins Aftenposten á mismunandi móttökum flóttafólks í skandinavísku löndunum þremur. Noregur á von á 25-30 þúsund manns og Danmörk ekki nema 15 þúsundum, enda hafa dönsk yfirvöld fátt gert til að laða til sín flóttafólk.
Tjaldbúðir flóttamanna
Við flóttamannamóttökuna í Malmö er risin tjaldborg. Fyrstu tjöldunum var slegið upp fyrir tveimur vikum og nú er þar pláss fyrir 400 flóttamenn. “Yfirleitt þarf fólk ekki að vera þarna lengur en fimm til sex tíma,” segir Rexhep Hajrizi, starfsmaður flóttamannamóttökunnar við sænska blaðið Dagens nyheter. Okkur finnst þetta ekki góð lausn en við eigum ekki annars völ. Þetta er þak yfir höfuðið og er hlýtt. Þetta er þúsund sinnum betra en að bíða úti á bílastæði.”
Tjaldbúðirnar eru ekki hugsaðar sem íverustaður, heldur biðstofa. En raunveruleikinn er að hátt í 2000 manns koma til Svíþjóðar um Malmö á sólarhring. Um 250 manns gistu í tjaldbúðunum aðfaranótt föstudags og þeim fjölgar.
Ólíkar aðferðir Norðurlandanna
Ein af ástæðunum fyrir því að Norðmenn eiga í basli við að koma flóttafólkinu fyrir þrátt fyrir miklu minni fjölda er sú að þar á bæ skylda reglurnar hælisleitendur til að búa á sérstökum gististöðum á vegum ríkisins. Í Svíþjóð geta hælisleitendur fundið sér íverustað sjálfir, um leið og búið er að skrá þá inn í landið. Báðar lausnirnar hafa nokkuð til síns ágætis en einnig ókosti. Norðmenn eru að byggja upp bákn en Svíar lenda í að hælisleitendur hópi sig saman í fátækum hverfum þar sem margir eru fyrir og erfitt að ná til þeirra til að aðstoða þá til þátttöku í sænsku samfélagi.
Rasistaflokkarnir láta til sín taka
Bæði í Noregi, Svíþjóð og Danmörku eru stjórnmálaflokkar sem vildu helst að útlendingar héldu sig utan landamæranna. Framfaraflokkurinn norski situr nú í ríkisstjórn, sem hefur dregið þó nokkuð úr kokhreystinni. Formaðurinn Siv Jensen ákvað samt sem áður að gleyma því í smástund að hún væri fjármálaráðherra, þegar hún hvatti norsk sveitarfélög í sumar til að neita að taka á móti flóttamönnum.
Í Svíþjóð hefur breiðfylking stjórnmálaflokka náð samkomulagi um breytingar á útlendingalögum og móttöku flóttamanna, gagngert til þess að einangra öfgahægriflokkinn Svíþjóðardemókratana. Og í Danmörku leggur Þjóðarflokkurinn það til að jafnvel eftir að flóttafólk fær hælisumsókn samþykkta verði það samt sem áður vistað á sérstökum, ríkisreknum gististöðum. Flokkurinn vill líka að draga úr allri aðstoð sem flóttafólk fær til að aðlagast þjóðfélaginu, læra tungumálið og fá vinnu, til þess að það geri sig ekki of heimankomið. “Við leggjum þannig áherslu á það við þetta fólk að það ætti ekki að búast við að Danmörk verði heimili þeirra til framtíðar,” segir formaður Þjóðarflokksins Kristian Thulesen Dahl.
Hins vegar veit fagfólk í þessum geira mætavel hversu mikilvægt það er að vel takist til í móttöku flóttamannanna, aðbúnaði, menntun og aðlögun. Í nýlegri skýrslu um flóttamannamál varar OECD við sleifarlagi í aðlögun flóttamanna. Nýjar og gamlar rannsóknir sýna að innflytjendur sem ekki ná fótum í nýju þjóðfélagi eiga á hættu að lenda í fátæktargildru með tilheyrandi félagslegum vandamálum. Engu að síður megi búast við þjóðhagslegum ávinningi af innflytjendastraumnum til lengri tíma litið, bæði vegna atvinnuþátttöku þeirra og framlags þeirra til að yngja upp þjóðfélagið.