Það eru merkilegir tímar í íslensku viðskiptalífi þessa dagana. Kastljósið beinist að fjármálakerfinu en eigendaskipti eru framundan bæði á Íslandsbanka og Arion banka. Eins og fram hefur komið mun ríkið eignast Íslandsbanka að fullu, sem hluti af stöðugleikaframlagi slitabús Glitnis, en líklegt er að Arion banki fái nýja eigendur á einkamarkaðnum. Ríkið á þrettán prósent hlut í bankanum.
Í ljósi sögunnar, og einnig nýlegra dóma Hæstaréttar í málum sem snúa að stjórnendum og hluthöfum gömlu bankanna, þá hljóta stjórnvöld, Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands - sem harðlega voru gagnrýnd af rannsóknarnefnd Alþingis fyrir það hvernig þau stóðu sig í aðdraganda hruns bankanna - að kappkosta að vel takist við að fá framtíðareigendur að endurreistu fjármálakerfi.
Fyrirtækin Virðing og Arctica Finance vinna nú að því að setja saman hópa fjárfesta til þess að kaupa Arion banka. Um mikil verðmæti er að ræða, en eigið fé bankans nam um 170 milljörðum króna. Þá eru einnig mikil viðskiptapólitísk völd í því fólgin að eiga bankann með öllum hans eignum, þar á meðal sjóðastýringarfélaginu Stefni. Sjóðir á vegum þess eru stórir hluthafar í mörgum mikilvægum fyrirtækjum.
Í fréttum, einkum fréttaskýringum Morgunblaðsins, hefur það verið nefnt að lagt sé upp með að hafa eignaraðildina dreifða og að enginn eigandi fari yfir 10 prósent eignarhlut, sem telst virkur í skilningi laga. Gerist það, þarf Fjármálaeftirlitið (FME) að meta hæfi eigenda til þess að fara með virkan eignarhlut.
Það verður að segjast alveg eins og er, að það er einkennilegt að Alþingi hafi ekki sett upp skýran ramma og leiðarvísi um það, hvernig skuli staðið að því að breyta eignarhaldi að bankanna. Undanfarin ár hefur eignarhaldið tekið mið af tímabundnum aðstæðum, fjármagnshöftum og aðgerðum sem byggðu á neyðarlögunum.
Nú er tíminn til þess að breyta hlutum varanlega og koma bönkunum í fastar skorður, jafnvel þó umtalsverð hagræðing í kerfinu sé eftir ennþá.
Þó fjárfestar út í bæ eignist einn af endurreistu bönkunum, þá verður alltaf að hafa það hugfast að ekkert hefur breyst í regluverkinu, hvað meginlínurnar varðar. Ef bankarnir lenda í vandræðum þá liggur fyrir að Seðlabanki Íslands er banki bankanna. Þannig lenda vandamál á fjármálamarkaði oft í fangi skattgreiðenda. Einmitt af þessum sökum ætti það að vera kappsmál að hafa allt er varðar sölu á endurreistu bönkunum upp á borðum, svo að almenningur geti fylgst með hverju skrefi.