Ráðist var á París, höfuðborg Frakklands, í gærkvöldi. Talið er að árásarmennirnir hafi verið átta og eru þeir allir látnir, sjö þeirra með því að sprenga sjálfa sig í loft upp. Vitorðsmenn ganga þó enn lausir. Árásamennirnir drápu að minnsta kosti 120 manns og særðu um 200 í viðbót, þar af 80 alvarlega. Ráðist var á fólkið með hríðskotabyssum og sprengjum við þjóðarleikvang Frakka, á börum, veitingastöðum og í tónleikasal í París. Allir staðirnir áttu það sameiginlegt að vera staðir þar sem fólk fer til að skemmta sér. Til að horfa á fótbolta, drekka, borða, hlusta á tónlist. Og samkvæmt fregnum flestra miðla heims var árásunum ekki beint gegn neinum sérstökum einstaklingum. Árásarmennirnir voru að reyna að myrða sem flesta.
Árásirnar, sem virðast þaulskipulagðar, áttu sér stað á sex mismunandi stöðum víðsvegar um París, samkvæmt The Guardian.Tvær sjálfsmorðsárásir voru gerðar á Stade de France, þjóðarleikvang Frakka í norðurhluta borgarinnar, á meðan að landslið Frakka lék æfingaleik við Þýskaland. Fleiri sprengjur sprungu við leikvanginn.
Flestir saklausir borgarar féllu hins vegar á tónleikastaðnum Bataclan, þar sem bandaríska hljómsveitin Eagles of Death Metal var með tónleika.
Samkvæmt frásögnum franskra fjölmiðla þá réðust árásarmenn, vopnaðir hríðskotabyssum, fyrst tilviljunarkennt gegn fólki sem var á kaffihúsum í nágrenni tónleikarstaðarins, en hann er með þekktari slíkum í Frakklandi. Árásarmennirnir fóru síðan inn á Bataclan og hófu tilviljunarkennda skothríð á fjöldann sem þar var til að fylgjast með tónleikunum. Mennirnir hlóðu vopn sín aftur og aftur og ætluðu sér, samkvæmt frásögnum þeirra sem af lifðu, að drepa sem allra flestra.
Þegar lögreglan bjóst til þess að ráðast inn í Bataclan þá sprengdu þrír mannanna sig í loft upp og settu af stað röð annarra sprenginga inni á tónleikarstaðnum.
Endanleg tala um hversu margir létust á og við Bataclan liggur ekki fyrir. En samkvæmt BBC voru fórnarlömbin um 80 talsins.
Saklaust fólk að skemmta sér myrt
Árásir voru gerðar á bari og veitingarstaði á fimm öðrum stöðum í París. Á meðal þeirra var vinsæll pizzastaður og kambódískur veitingastaður. Árásirnar voru gerðar þegar mest er að gera á slíkum stöðum, á föstudagskvöldi, og gestir eru sem flestir.
Auk þess voru sprengjur sprengdar fyrir utan Stade de France, þar sem Francois Hollande Frakklandsforseti og um 80 þúsund aðrir voru að horfa á landsleik Frakklands og Þýskalands. Leiknum var auk þess sjónvarpað til milljóna áhorfenda út um allan heim. Þrír árásarmenn voru felldir þar.
Neyðarástandi lýst yfir og landamærum lokað
Hollande tilkynnti í gær að neyðarástandi hefði verið lýst yfir í öllu Frakklandi. Það er í fyrsta sinn sem það er gert síðan árið 2005. Auk þess voru um 1.500 hermenn kallaðir út á götur Parísar og landamærum Frakklands lokað. Flugvellir voru þó áfram opnir en mörg af stærstu flugfélögum heims hafa þegar tilkynnt að þau muni fresta flugum. Hollande sagði árásirnar vera „fordæmalausar hryðjuverkaárásir á Frakkland“.
Engin hefur lýst yfir ábyrgð á árásunum en talið er að þær tengist Íslamska ríkinu (ISIS). Sú ályktun margra erlendra stórfjölmiðla byggir á vitnisburði ýmissa sem lifðu af árásirnar og heyrðu hróp og köll árásarmannanna á meðan að á þeim stóð.
Leiðtogar stærstu ríkja heims hafa flestir fordæmt voðaverkin. Barack Obama Bandaríkjaforseti sagði þau vera árás á allt mannkyn. Xi Jinping, forseti Kína, fordæmdi þær og Malcolm Turnbull, forsætisráðherra Ástralíu, sagði að árásirnar væru verk djöfulsins. David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, sagðist í áfalli yfir atburðunum. Bretar myndu gera allt sem þeir gætu til að aðstoða Frakka í þessum aðstæðum.