Ban Ki-moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, mun í þessari viku heimsækja Pyongyang, höfuðborg Norður-Kóreu, og mögulegt er að hann hitti leiðtoga landsins Kim Jong-un. Þetta fullyrðir suður-kóreski fréttamiðillinn Yonhap og bæði breska ríkisútvarpið BBC og The Guardian greina frá í dag. Ef Ban Ki-moon heimsækir Norður-Kóreu verður það í fyrsta sinn síðan 1993 sem æðsti maður Sameinuðu þjóðanna heimsækir einræðisríkið.
Möguleg ferð Ban Ki-moon kemur upp sex mánuðum eftir að ráðamenn í Pyongyang afboðuðu heimboð til landsins á síðustu stundu, en til stóð að Ban Ki-moon og fylgdarlið myndu heimsækja borgina Kaesong. Engar ástæður voru gefnar fyrir skyndilegri hugarfarsbreytingu Norður-Kóreubúa.
Talskona Sameinuðu þjóðanna hefur ekki viljað tjá sig opinberlega um fyrirhugaða ferð aðalritarans.
The Guardian hefur eftir umfjöllun suður-kóreska fjölmiðilsins að Ban Ki-moon muni líklegast hitta Kim Jong-un ef af verðinni verður, af þeirri ástæðu einni að aðalritari SÞ ferðist ólíklega til annars ríkis án þess að hitta leiðtoga þess.
Áður en hætt var fyrirhugaða ferð Ban Ki-moon fyrr á þessu ári þá sagðist hann vonast til að heimsókn hans myndi bæta samskipti milli Norður-Kóreu og Suður-Kóreu. Sjálfur er Ban Ki-moon suður-kóreskur og gegndi stöðu utanríkisráðherra áður en hann varð aðalritari SÞ. Þjóðirnar tvær hafa í áratugi tekist á og eiga formlega séð í stríði þar sem Kóreustríðið frá 1950 til 1953 endaði með gerð vopnahlés en ekki friðarsáttmála.