Á síðustu misserum hafa tveir þættir haft mikil áhrif á leigumarkaðinn, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Annars vegar hafa áhrif mikil uppkaup fyrirtækja á íbúðum sem síðan eru ætlaðar til útleigu og hins vegar hefur áhrif stóraukin útleiga íbúða til ferðamanna. Þessir þættir virka í sitt hvora átt, hið fyrrnefnda eykur framboð hefðbundins leiguhúsnæðis en hið síðarnefnda dregur úr framboði.
Þetta kemur fram í greiningu hagfræðideildar Landsbankans sem fjallar um stöðuna á leigumarkaði. Hagstofan greindi nýlega frá því að mikil fjölgun hefur orðið í hópi leigjenda í kjölfar hrunsins og hlutfall þeirra hækkað úr 12,8 prósentum í ríflega 20 prósent.
Hagfræðideild Landsbankans segir að svo virðist sem eftirspurn eftir leiguhúsnæði sé mun meira en framboðið. Þar af leiðandi sé staða leigjenda tiltölulega veik. Þá hafi ekki verið byggt mikið af húsnæði ætlað til útleigu, þótt áform séu uppi um slíkt. Ríkisstjórnin lýsti yfir byggingu 2.300 leiguíbúða á næstu 4 árum í tengslum við gerð kjarasamninga í vor. „Útlit er fyrir að þau áform munu tefjast eitthvað, t.d. verður varla lokið við byggingu neinna íbúða á næsta ári og verður tæplega á árinu 2017,“ segja sérfræðingar Landsbankans.
Í greiningunni segir að það hafi færst í vöxt að fyrirtæki, bæði í eigu verðbréfasjóða og einstaklinga, kaupi íbúðir í þeim tilgangi að leigja þær út. Upphaflega hafi félög fyrst litið til íbúða miðsvæðis en það hafi breyst. „Þessi starfsemi hefur þrengt töluvert að hefðbundnum sölu- og kaupamarkaði fasteigna og eflaust stuðlað að verðhækkunum með aukinni eftirspurn. Íbúðir sem hingað til hafa skipt um hendur á nokkurra ára millibili hverfa þannig úr hefðbundinni veltu og fara í útleigu.
Á síðustu ársfjórðungum hefur 5-8% af íbúðum á höfuðborgarsvæðinu sem einstaklingar hafa selt farið til fyrirtækja og er þetta hlutfall mun hærra miðsvæðis í Reykjavík. Gróft áætlað er þarna um 250-300 íbúðir að ræða sem árlega hverfa úr veltu með þessum hætti. Þessar íbúðir stækka leigumarkaðinn og því til viðbótar kaupa leigufélögin væntanlega einnig íbúðir frá öðrum fyrirtækjum,“ segir í greiningunni.
Á móti vegur mikil aukning skammtímaútleigu til ferðamanna. Hagfræðideildin vísar til nýlegrar skýrslu Háskólans á Bifröst um leigustarfsemi til ferðamanna. Samkvæmt skýrslunni er um fjögur prósent húsnæðis í Reykjavík skráð á leigusíðunni vinsælu Airbnb og hefur fjölgað mun meira en framboði hótelherbergja. „Þarna er greinilega um mjög umfangsmikla starfsemi að ræða og ekki er ólíklegt að fjöldi íbúða í þessu mengi sé mun meiri en hefur numið fjölgun leiguíbúða sem leigufélög bjóða fram. Hátt nýtingahlutfall á hótelum í borginni bendir til þess að þessi starfsemi hafi verið nauðsynleg viðbót við það gistirými sem er fyrir hendi til þess að hægt sé að anna eftirspurn.“
Þá segir í greiningu hagfræðideildar Landsbankans að skipting leigu- og eignarmarkaðar sé svipaður hérlendis og á hinum Norðurlöndunum. Flestir búa í eigin húsnæði í Noregi og þar á eftir koma Ísland og Finnland. Að meðaltali leigðu 27 prósent einstaklinga á Norðurlöndunum árið 2013 en hlutfallið var 23 prósent á Íslandi.