John Brennan, yfirmaður bandarísku leyniþjónustunnar CIA, telur hryðjuverkaárásirnar í París á föstudaginn ekki vera einstæður atburður og segir hugsanlegt að Íslamska ríkið hafi einnig undirbúið samskonar árásir annarstaðar. Leyniþjónustur í Evrópu eigi erfitt með að fylgjast með hugsanlegum hryðjuverkamönnum vegna þess að fylgjast þarf með svo mörgum
Reuters greindi frá þessu í gær og hafði eftir Brennan að það væri fólk af evrópskum uppruna sem þyrfti að fylgjast með. „Vinir okkar í Evrópu eiga við stór verkefni að etja þessa stundina því svo margir Evrópubúar hafa ferðast til Sýrlands og Írak og til baka. Það reynir á getau þeirra til að fylgjast með þessu fólki.“
Jafnvel þó Íslamska ríkið hafi þegar lýst ábyrgð á hryðjuverkaárásunum í París vill Brennan ekki fullyrða að upplýsingar leyniþjónustunnar bendi þess. Hryðjuverkin í París og í árásinni á farþegaþotuna, sem fórst með 224 um borð í Egyptalandi 31. oktober, beri hins vegar handbragð íslamskra öfgamanna.
Í gær hótaði Íslamska ríkið árás á Washington, höfuðborg Bandaríkjanna. Brennan segir það líta út fyrir að öfgamennirnir hafi undirbúið fleiri hópa sem geta framið hryðjuverk á Vesturlöndum. „Ég mundi gera ráð fyrir að þetta sé ekki eina árásin sem Íslamska ríkið hefur í hyggju. Leyniþjónustur í Evrópu og víðar vinna hörðum höndum að því að komast til botns í þessu.“
Talið er að allt að fimm þúsund Evrópubúar hafi farið til Sýrlands til að berjast síðan árið 2011. Um 1.400 þeirra hafa franskt ríkisfang en aðeins 900 hafa snúið aftur heim til Frakklands. Frönsk yfirvöld hafa merkt á bilinu tíu til 20 þúsund manns sem hugsanlega öryggisógn.
„Við erum komin að því að leyniþjónusturnar anna ekki meiru. Þær gera ráð fyrir að eitthvað gerist en vita ekki hvenær eða hvar,“ er haft eftir Nathalie Goulet, yfirmanni rannsóknarnefndar franska þingsins um hryðjuverkasamtök, á vef Reuters.