Vladimír Pútin, forseti Rússlands, hefur heitið því að Rússar muni efla loftárásir sínar á Íslamska ríkið í Sýrlandi og hefja alþjóðlega leit að sökudólgunum sem grönduðu rússnesku farþegaþotunni yfir Sínaí-skaga í Egyptalandi í síðsta mánuði. Rannsókn stjórnvalda í Kreml bendir til þess að hryðjuverkamenn hafi komið sprengju fyrir um borð í vélinni. Reuters greinir frá þessu.
„Við munum finna þá hvar sem þeir halda sig og refsa,“ sagði Pútín á fundi með yfirmönnum hermála sem sýnt var beint frá í sjónvarpi í dag. Þar til nú hafa Rússar ekki gefið mikið fyrir skýringar vestrænna stjórnvalda um að hryðjuverkamenn hafi verið að verki og lagt áherslu á að niðurstöður rannsóknarinnar. 224 létust þegar farþegaþotunni var grandað 31. október.
Seint í gærkvöldi tilkynnti Alexander Bortnikov, yfirmaður alríkislögreglu rússneska sambandsríkisins, að rannsóknin hefði leitt í ljós að merki um grunsamlegt sprengiefni hafi fundist í flaki farþegaþotunnar og á eigum farþeganna. „Samkvæmt greiningu sérfræðinga okkar sprakk heimagerð sprengja […] um borð í vélinni sem varð til þess að þotan fór í sundur á flugi. Það skýrir hvers vegna skrokkur vélarinnar dreifðist um svo stórt svæði,“ sagði Bortnikov. „Við getum sagt með óyggjandi hætti að um hryðjuverk var að ræða.“
Pútín sagði á fundi sínum með yfirmönnum hermála í Rússlandi að um einn „blóðugasta atburð í nútímasögu Rússlands“ væri að ræða og skipaði flughernum að efla loftárásir sínar í Sýrlandi til að svara árásinni á ferðalangana um borð í farþegaþotunni. „Hernaður flughers okkar í Sýrlandi getur ekki einfaldlega haldið áfram. Hann þarf að efla þannig að glæpamennirnir skilji að hefnd sé óhjákvæmileg,“ sagði Pútín.
Reuters hefur eftir frönskum ríkisstarfsmanni að Rússar hafi þegar aukið við loftárásir sínar gegn Íslamska ríkinu í Raqqa í norðanverðu Sýrlandi. Heimildarmaðurinn segir Reuters að það sé til marks um að Rússar séu þegar farnir að hafa áhyggur af ógninni sem stafar af Íslamska ríkinu.