Einungis 50 læknar og 200 hjúkrunarfræðingar eru nú í Aleppo, stærstu borg Sýrlands, samkvæmt nýrri skýrslu mannréttindasamtaka lækna (Physicians for Human Rights), sem Newsweek greinir frá. Eingöngu er einn taugalæknir, einn hjartalæknir og einn kvenkyns kvensjúkdómalæknir í borginni samkvæmt rannsókninni, og hvorki geðlækn né sálfræðing að finna.
Árið 2010 var einn læknir fyrir hverja 800 einstaklinga í borginni, en nú er hlutfallið einn læknir á hverja 7.000 einstaklinga. Fólki í borginni hefur á sama tíma fækkað úr tveimur milljónum árið 2010 í rúmlega 300.000 í ár. Til samanburðar var hlutfall lækna við einstaklinga einn læknir á tæplega 300 einstaklinga á Íslandi árið 2011.
Frá því að stríðið braust út í Sýrlandi fyrir fjórum árum síðan hafa 95 prósent lækna flúið frá Aleppo, verið drepnir eða verið fangelsaðir, samkvæmt skýrslunni. Innan við þriðjungur af spítölum borgarinnar eru enn opnir, enda hafa stjórnvöld herjað á þá með loftárásum og öðrum sprengjuárásum meira en 45 sinnum, segja læknarnir.
„Við sjáum þetta sem hryllilegt fordæmi fyrir það sem gæti orðið mjög áhrifaríkt vopn í stríðsrekstri,“ segir Michele Heisler, einn höfunda skýrslunnar og prófessor við háskólann í Michigan. „Þegar farið er að herja á spítala svo að fólk geti hvorki veitt né notið heilbrigðisþjónustu er það lævísk leið til að sá skelfingu.“
Flestar árásir hafa verið gerðar á spítala í Aleppo, en árásir á spítala eru engu að síður vandamál um allt Sýrland og 686 heilbrigðisstarfsmenn hafa verið drepnir frá því í mars 2011.
Við framkvæmd skýrslunnar var rætt við 24 heilbrigðisstarfsmenn í Sýrlandi auk starfsfólks á öllum 10 spítölunum sem eru opnir. Heisler segir við Newsweek að það geti verið að fleiri læknar séu í borginni, en þori ekki að tala um það. Samkvæmt vitnisburði einhverra búi þeir á spítalanum þar sem þörfin sé sífelld, og að margir þurfi að framkvæma aðgerðir sem þeir hafi aldrei áður gert. „Fyrir mörg okkar er hugmyndin um að sérstaklega sé reynt að sækja að fólki sem leitar heilbrigðisþjónustu og þeim sem eiga að vera að hjálpa og heila, það er ákveðinn hryllingur í því. Það er mjög yfirþyrmandi leið til að skapa ótta og getur látið fólk gefa upp alla von.“