Barack Obama, Bandaríkjaforseti, sagði í ræðu í Manila á Filippseyjum að Kínverjar yrðu að hætta endurheimt lands í Suður-Kínahafi. Bandaríkin stæðu þétt með Filippseyingum þegar kæmi að vörnum og öryggi landsins. Filippseyjar gera tilkall til yfirráða á svæðinu þar sem Kínverjar hafa byggt manngerðar eyjur og siglt herskipum sínum.
Reuters greindi frá þessu í morgun. Obama flutti ræðu eftir fund sinn með Benigno Aquino, forsætisráðherra Filippseyja. Nú stendur yfir ráðstefna Asíu- og Kyrrahafsríkja í Manila. Obama ítrekaði að hann hlakkaði til þegar öll ríkin sem gera tilkall til hafsvæðisins leysi þessa deilu sín á milli.
Uppbygging lands í Suður-Kínahafi hefur verið bitbein ríkja í Suðaustur Asíu um nokkurt skeið. Kína hefur komið hergögnum fyrir á þessum manngerðu eyjum sínum og hrekur á brott hvern þann sem reynir að komast nálægt. Bandaríski herinn flaug nýverið yfir eyjarnar og myndaði.
Kínverjar hafa áður sagt að nú sé uppbyggingu eyjanna lokið. Kjarninn fjallaði um þá yfirlýsingu Kínverja í sumar þegar utanríkisráðherra Kína, Wang Yi, talaði á fundi ríkjanna í Suðaustur Asíu (ASEAN) í ágúst. Þá hafa Japanir veitt meira fé til varnarmála til að mæta Kína.