Verið er að rýma hluta flugstöðvarinnar á Kastrup flugvelli í Kaupmannahöfn. Þetta kemur fram í Twitter-færslu lögreglunnar í Kaupmannahöfn nú fyrir skömmu. Ástæðan er grunsamleg taska. Danska ríkisútvarpið DR greinir frá málinu, og hefur eftir lögreglu að sprengjuleitarhundar séu á staðnum og nú sé verið að kanna hvers lags er.
Fréttamaður DR, Kasper Hartmann, er á flugvellinum. Hann sagði upphaflega að einnig væri búið að girða af álmu 2, en þar hefur WOW Air sína aðstöðu á flugvellinum. DR hefur nú dregið þær upplýsingar til baka og beðist afsökunar á mistökunum.
Upplýsingafulltrúi Kastrup-vallar segir að verið sé að flytja starfsemi úr álmu 3 í álmu 2, þar sem allt sé með eðlilegum hætti. Ekki sé hægt að segja neitt til um hvenær hægt verði að opna álmuna aftur.
Annar fréttamaður DR, íþróttafréttamaðurinn Henrik Liniger, er á flugvellinum vegna þess að hann var að lenda með flugi frá Álaborg. Liniger segir að lögregla sé mjög áberandi á staðnum auk sjúkrabíla og slökkviliðsbíla.
Engar lestar stoppa nú á Kastrup vegna aðgerða lögreglu. Rútur munu flytja fólk á milli álmu 2 og miðborgar Kaupmannahafnar í staðinn.
Fréttin hefur verið uppfærð eftir því sem nýjar upplýsingar hafa borist. Hún verður áfram uppfærð.