Hryðjuverkasamtökin Boko Haram urðu fleirum að bana í fyrra en öll önnur hryðjuverkasamtök í heiminum, þar með talið hið svokallaða Íslamska ríki. Boko Haram bar ábyrgð á dauða 6.664 einstaklinga í fyrra en Íslamska ríkið 6.073, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Institute of Economics and Peace, sem New York Times greinir frá.
Samanlagt bera hryðjuverkasamtökin tvö ábyrgð á helmingi allra dauðsfalla sem verða í hryðjuverkaárásum. Boko Haram hefur heitið stuðningi sínum við Íslamska ríkið, þótt ekki sé ljóst í hversu sá stuðningur felst.
Að minnsta kosti tvær mannskæðar árásir hafa verið gerðar í vikunni í Nígeríu, þar sem Boko Haram hafa aðsetur sitt, og talið er að samtökin beri ábyrgð á þeim báðum. Á þriðjudagskvöld varð sprenging á markaðstorgi í borginni Yola, sem varð 32 að bana. 80 til viðbótar særðust. Enginn hefur hefur lýst árásinni á hendur sér en stjórnvöld segja að Boko Haram hafi verið þar að verki.
Í gær var svo tvöföld sjálfsmorðsárás gerð í Kano, en stjórnvöld segja að tvær konur hafi sprengt sig í loft upp á markaði þar. 12 hið minnsta eru látnir og tugir særðir að sögn stjórnvalda, en vitni og Rauði krossinn telja að allt að 50 til 60 manns hafi látist.
Margir háttsettir embættismenn í Nígeríu og nágrannaríkjunum, sem og alþjóðlegir sérfræðingar, segja við New York Times að undanfarið hafi hallað undan fæti hjá samtökunum og þau geti ekki lengur náð yfirráðum yfir heilum bæjum eða rænt stórum hópum fólks, eins og áður hefur verið gert. Þess í stað séu árásir á minni skala gerðar á markaði og aðra opinbera staði.