Saksóknari í Frakklandi hefur staðfest að Abdelhamid Abaaoud, sem talinn er hafa verið höfuðpaurinn í skipulagningu hryðjuverkaárásarinnar í París í síðustu viku, lést í aðgerðum lögreglu í St. Denis í gær.
Frá þessu var greint rétt í þessu. Það tók langan tíma að bera kennsla á Abaaoud vegna þess að öll þriðja hæðin í húsinu sem lögregla réðst inn í í gærmorgun féll saman.
Eftir árásirnar síðastliðið föstudagskvöld var talið að Abaaoud væri í Sýrlandi en síðar kom í ljós í rannsókn yfirvalda að hann hefði komist aftur til Evrópu. Hann fór frá heimalandi sínu, Belgíu, í fyrra til þess að berjast með Íslamska ríkinu í Sýrlandi. Vitað var að hann hafði að minnsta kosti einu sinni áður komist aftur til Evrópu.
Saksóknarinn Francois Molins hefur greint frá því að aðgerðir lögreglu í St. Denis hafi hafist klukkan 4.20 aðfaranótt fimmtudags. Lögregla fékk ábendingar á mánudaginn sem leiddu til þess að farið var að hlera síma og fylgjast með Abaaoud.