Hvað fær ungt fólk til þess að vígbúast, jafnvel sprengja sig í loft upp? Ráðast á eigið fólk? Þetta er ein af stóru spurningum vikunnar. Það er fátt um svör. Einhverjir tala um tryllta hugmyndafræði, fátækt, stríð, erjur, stéttaskiptingu og svo auðvitað ýmsar sálarflækjur.
Við getum líka bætt við einni tilgátunni: Captagon.
Lítil og saklaus pilla en sérstaklega áhrifaríkt og ávanabindandi lyf, framleitt í Sýrlandi og víðar. Þetta lyf hefur fundist í hryðjuverkamönnum, það er afar algengt meðal stríðsmanna Íslamska ríkisins, sem bryðja það víst eins og kandís. Þetta dóp er það sem helst heldur stríðinu gangandi, segja sérfræðingar – það breytir saklausu fólki í trylltar drápsvélar.
Í borgarastyrjöld gilda engin lög, siðferðismörk hafa verið afmáð. Þannig er ástandið í Sýrlandi. Óöld. Einn angi þess er smygl. Gífurlegt magn af ólöglegum varningi rennur gegnum landið: byssur, vopn og svo auðvitað líka vinsælasti smyglvarningur heims: eiturlyf.
Eitt vinsælasta dópið er captagon; afar kröftugar og örvandi amfetamíntöflur – áður þekkt sem fenethylline. Það deyfir allan sársauka og tilfinningar, menn geta vakað dögum saman – meitt og drepið annað fólk án nokkurrar samvisku.
Stríðsmenn Íslamska ríksins og viðmælendur í heimildamynd, sem sýnd var í breska ríkisútvarpinu í september, segja m.a. um captagon:
„Þú getur ekki sofið, þú getur ekki einu sinni lokað augunum. Það er ekkert sem getur stöðvað þig.“
„Eins og þú eigir heiminn. Hafir yfirnáttúrulega krafta sem enginn annar hefur. Mjög góð tilfinning.“
„Eftir að maður tekur captagon hverfur öll hræðsla.“
Fréttaskýrendur BBC og Reuters hafa sagt að eitt af einkennum stríðsins í Sýrlandi sé „spítt-fylleríið“ – neyslan og framleiðslan sé gífurleg. Þetta var sömuleiðis þekkt í síðari heimstyrjöldinni þar sem amfetamínneysla var algeng hjá hermönnum, sér í lagi hjá nasistum, en síðustu ár stríðins voru hermenn nánast mataðir á amfetamíni. Hitler gekk á spítti, sem á margan hátt skýrir hvernig geðveiki hans magnaðist síðustu árin.
Stjórnarherinn í Sýrlandi er sagður dreifa captagoni á meðal hermanna sinna – þannig geti menn barist dögum saman. Stöðugar tilraunir séu svo gerðar til þess að gera lyfið öflugara og áhrifaríkara.
Captagon hefur verið til í hálfa öld – upprunið á Vesturlöndum og var notað sem ofvirkni- og þunglyndislyf. Það er mjög ávanabindandi og var af þeim sökum bannað í flestum ríkjum heims upp úr 1980.
En captagon hvarf samt aldrei alveg.
Þótt að íslamskar vígasveitir bryðji captagonið ákaft er samt stærsti neysluhópurinn í Sádi-Arabíu. Þriðjungur alls þess captagons sem árlega er neytt í heiminum fer þangað, eða um sjö tonn. Talið er að um 40 til 50 þúsund manns leiti sér hjálpar í Sádi-Arabíu á hverju ári vegna ofneyslu captagons . Í Islam er áfengis- og dópneysla fordæmd, en margir líta ekki á captagon sem dóp. Það er ekki reykt eða sett í sprautu, svo það er fyrst og fremst álitið sem lyf. Þeir hermenn sem ekki eru ákafir í trúnni – en þeim mun ákafari í slátrun – eru sagðir öflugustu neytendurnir. Sturlaðir og útúrdópaðir morðingjar.
Lyfið er ekki einungis framleitt í Sýrlandi, heldur sömuleiðis framleitt og smyglað frá Evrópu og öðrum nágrannalöndum. Eins og í öðrum eiturlyfjaviðskiptum er gróðravonin mikil, en mikið er um ódýra og vafasama framleiðslu. Því eru einnig stórhættulegu efni í umferð. Mikil neysla getur haft alvarlegar afleiðingar; valdið geðtruflunum og heilaskaða. Við mikla neyslu verður fólk sturlað og borðar ekki né sefur dögum saman.
Í heimildarmynd BBC segir einn viðmælendanna um captagon-fíklana:
„Við börðum þá – og þeir fundu ekki fyrir sársauka. Sumir hlógu bara við þung högg og barsmíðar. Þá létum við þá vanalega dúsa inni í klefa í tvo sólarhringa. Þá rann af þeim og auðveldara var að eiga við þá.“
Fyrrverandi vígamaður Íslamska ríkisins segir um captagon:
„Þetta er hið fullkomna stríðsdóp. Það gefur manni yfirnáttúrlega krafta og hugrekki. Yfirmenn hvöttu okkur til þess að taka það. Þeir sögðu það gefa okkur orku og hugrekki. Þú getur yfirbugað tíu manns. Þú þarft ekki að sofa né borða, finnur ekki fyrir hræðslu eða þreytu. Við vissum aldrei beinlínis hvað þetta var – lyf eða orkupilla – við bara tókum þetta. En við urðum strax háðir þessu. Það er eiginlega vandamálið.“