Lögreglan í París komst á sporið um miðstöð hryðjuverkamannanna í Saint-Denis eftir að hafa fundið grunsamlegan farsíma fyrir utan tónleikastaðinn Bataclan. Í aðgerðum lögreglunnar síðastliðið þriðjudagskvöld féll sá sem sagður er sjálfur höfuðpaurinn: Abdel Abaaoud. Hann er talinn hafa skipulagt árásirnar 13. nóvember og jafnvel verið með fleiri hryðjuverk í bígerð. Hugsanlega í fjármálahverfi borgarinnar.
Hann er fæddur 1987 og upp alinn í Brussel í Belgíu, eitt af sex börnum Omar Abaaoud sem fluttist frá Marokkó 1975 og settist að í Molenbeek-hverfinu þar sem hann opnaði matvöruverslun. Þetta hverfi er þekkt fyrir litskrúðuga fjölmenningu en oft hefur verið þar undirliggjandi spenna og átök. Abdel Abaaoud sat inni fyrir þjófnað í Saint Gilles fangelsinu 2010. Í fangelsinu kynnist hann Salah Abdeslam sem undirbjó með honum hryðjuverkin í París og er þessa stundina einn eftirlýstasti maður Evrópu.
Í fyrra fór Abaaoud til Sýrlands til þess að berjast með vígasveitum Íslamska ríkisins og tók með sér í þá för 13 ára gamlan bróður sinn. Hann kom fram í fréttaumfjöllun sem blaðamennirnir Étienne Huver og Guillaume Lhotellier unnu. Ljósmyndir og myndbönd sem tekin eru af honum á landamærum Sýrlands og Tyrklands sýna hann alvopnaðan vera að hlaða upp blóðugum líkum á trukk. Hann er brosandi og hlær þegar hann segir:
„Áður lifði ég áhyggjulausu lífi, var ég bara að leika mér á mótorhjólum, fjórhjólum, fór í frí til Marokkó. Þökk sé Guði, líf mitt er breytt. Nú geng ég á guðs vegum; við erum hér að berjast við villitrúarmenn og liðhlaupa.“
Hann var í nánu sambandi við marga hryðjuverkamenn. Meðal annars Mehdi Nemmouche, Frakka ættaðan frá Alsír, íslamskan öfgamann sem myrti fjóra í Gyðingasafninu í Brussel í maí 2014. Abaaoud hefur lengi verið eftirlýstur. En sagt er að hann hafi snúið aftur til Belgíu til þess að skipuleggja ýmsa hryðjuverkahópa og hvetja unga menn til þess að ganga til liðs við Íslamska ríkið. Þrátt fyrir að hafa verið eftirlýstur fyrir hryðjuverkastarfsemi og meira að segja einu sinni handtekinn af belgísku lögreglunni, sleppur hann aftur til Sýrlands. Þetta er ein ástæða þess að frönsk stjórnvöld hafa sent Belgum tóninn fyrir að hafa sýnt of mikið kæruleysi undanfarið ár hvað varðar hryðjuverkahættu. Hann er talinn tengjast árásum á bænahús gyðinga í vor í París, sömuleiðis er hann tengdur árásinni 21. ágúst síðastliðinn í Thalys-lestinni sem var á leið frá Brussel til Parísar.
Innanríkisráðherra Frakklands, Bernard Cazeneuve, ræddi við fjölmiðla á fimmtudag þegar tilkynnt var að Abaaoud hefði verið einn þeirra sem látist hefði í handtökunum í Saint-Denis. Hann sagði Abaaoud hafa komið frá Sýrlandi, líklegast í gegnum Grikkland. Öll löggæsluyfirvöld og njósnastofnanir héldu að maðurinn væri enn í Sýrlandi og það virtist hafa komið öllum að óvörum að hann væri kominn til Frakklands. Viðbrögð við þessu klúðri, eins og það er kallað, eru að herða enn frekar landamæraeftirlit um alla Evrópu.
Abaaoud er talinn hafa verið í sambandi við æðstu ráðamenn Íslamska ríkisins, eins og Abu Bakr al-Bagdadi, og komið skilaboðum áleiðis til ýmissa hryðjuverkahópa í Evrópu. Strax eftir árásirnar föstudaginn þrettánda nóvember beindust öll spjót að Abaaoud. Hann var höfuðpaurinn sem ennþá gekk laus. Hann tjáði sig um ódæðisverkin í tímaritinu Dabiq sem er gefið út af Íslamska ríkinu.
Að morgni þriðjudags ruddist síðan lögreglan inn í íbúð hryðjuverkamanna í Saint-Denis, þrír létust, einn af þeim var Abaaoud. Lík hans var illa útleikið, sem torveldaði rannsóknina. Fingraför leiddu svo í ljós að þarna var um að ræða höfuðpaurinn, Abdel Abaaoud.