Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, fer undan í flæmingi og það bendir eindregið til þess að hann geti ekki svarað fyrir gjörðir sínar. Þetta segir Ingibjörg Kristjánsdóttir, eiginkona Ólafs Ólafssonar, í svari sem hún sendi Kjarnanum. Ingibjörg skrifaði grein í Fréttablaðið á föstudag þar sem hún sakaði Pál um mannréttindabrot gegn föngum, meðal annars manni hennar. Páll tjáði sig um greinina við Kjarnann á laugardag og hafnaði ásökunum Ingibjargar.
Ingibjörg segir að viðhorf og hegðun Páls sé í engu samræmi við eðlilega framkomu opinberra starfsmanna, og segir að hann geti enn beðist afsökunar á þessu „frumhlaupi“ sínu ef honum sé umhugað um að vera tekinn alvarlega.
Svar Ingibjargar í heild sinni má lesa hér að neðan.
Páll Winkel fangelsismálastjóri gerir tilraun til að svara grein minni sem birtist í Fréttablaðinu síðastliðinn föstudag.
Í greininni vek ég athygli á ómaklegu framferði Páls gagnvart skjólstæðingum sínum á Kvíabryggju á opinberum vettvangi nýverið. Annars vegar að hann hefur ítrekað komið fram í fjölmiðlum og tjáð sig um einkamálefni fanga. Hins vegar að hann segir ósatt varðandi þetta sama mál.
Ég tek það fram að hann nefnir ekki nöfn skjólstæðinga sinna, en hann sér til þess að lesendur átta sig á því hverja hann er að tala um, sem er brot á ákvæði um þagnarskyldu í lögum um fullnustu refsinga. Viðurlög við því er allt að 1 árs fangelsi, samkvæmt almennum hegningarlögum, og allt að 3ja ára fangelsi ef hann hefur gert það sér til ávinnings.
Ég upplýsti í grein minni að hann fór með rangt mál þegar hann sagðist ekki hafa vitað af málinu fyrr en skömmu áður en hann tjáði sig um það í fjölmiðlum, og staðhæfði jafnframt að hann hefði stoppað málið af í framhaldinu.
Í viðtali við Kjarnann síðastliðinn laugardag víkur Páll sér undan því að svara ásökunum um að hann brjóti á skjólstæðingum sínum. Að hann hafi farið með rangt mál. Hann ber því við að hann geti ekki svarað aðstandendum fanga hverjum fyrir sig þar sem þeir skipta hundruðum?! Ekki verður annað skilið á Páli en að hann telji eðlilegast að aðstandendur fari með mál sín í gegnum Afstöðu, sem eru samtök fanga.
Ef Páll Winkel forstjóri Fangelsismálastofnunar ákveður að opinbera einkamál skjólstæðinga sinna og fara með rangt mál í fjölmiðlum varðandi málefni þeirra, liggur þá ekki beint við fyrir mig sem aðstandanda, að mæta forstjóranum og mótmæla aðför hans á opinberum vettvangi? Það stendur hvergi skrifað í skýin að forstjóri Fangelsismálastofnunar skuli ekki svara alvarlegum ásökunum nema að þær komi til hans í gegnum Afstöðu.
Það er einkennilegt að Páll skuli ekki svara málinu efnislega. Það að hann fer undan í flæmingi bendir eindregið til þess að hann geti ekki svarað fyrir gjörðir sínar. Þær hljóta því að standa óhaggaðar sem sannleikurinn í málinu.
Það kemur einnig undarlega fyrir sjónir að forstjórinn noti orðalagið “Konan, sem kveðst maki refsifanga, sakar mig um ýmis brot……” Hvað á hann við með því? Er hann að gefa í skyn að ég sé ekki eiginkona Ólafs, eða liggur efinn í því að eiginmaðurinn minn sé refsifangi? Eða er hann einfaldlega að tala niður til mín sem aðstandanda?
Viðhorf og hegðun Páls er í engu samræmi við eðlilega framkomu opinbers starfsmanns, forstjóra Fangelsismálastofnunar. Ef Páli er umhugað um að vera tekinn alvarlega sem maður sem ber hag skjólstæðinga sinna fyrir brjósti, og berst fyrir breyttum áherslum í fangelsismálum, þá bendi ég Páli á að hann getur enn dregið orð sín til baka og beðist afsökunar á þessu frumhlaupi sínu.
Þetta er afstaða mín sem aðstandanda og borgara.
Ingibjörg Kristjánsdóttir