Bretar munu taka þátt í hernaðaraðgerðum gegn Íslamska ríkinu ef David Cameron forsætisráðherra fær sínu framgengt. Hann hyggst leggja fram tillögur fyrir þingið í næstu viku. Þá hefur hann boðið Frökkum afnot af herstöð Breta á Kýpur. Þetta kom fram á blaðamannafundi Cameron og Francois Hollande Frakklandsforseta, en þeir funduðu í París í morgun. Þeir heimsóttu einnig Bataclan, tónleikastaðinn þar sem flestir létust í hryðjuverkaárásunum fyrir rúmri viku.
Hollande sagði að Frakkar ætluðu sér að auka við loftárásir sínar gegn Íslamska ríkinu til þess að valda sem mestum skaða. Þá hefur flugmóðurskipið Charles de Gaulle verið undirbúið til að taka þátt í árásunum, en skipið er nú þegar undan ströndum Sýrlands. Frakkar ætli sér að halda áfram vinnu við að ná pólitískri lausn í Sýrlandi, en sagði að Bashar al-Assad Sýrlandsforseti gæti ekki gegnt neinu hlutverki í framtíð landsins. Hann sagði jafnframt að það væri þörf á því að öll Evrópusambandsríkin ynnu saman gegn hryðjuverkum.
Brussel enn á hæsta viðbúnaðarstigi
Sextán einstaklingar voru handteknir í Belgíu í gær, á öðrum degi viðamikilla aðgerða lögreglu og hersins í tengslum við hryðjuverkin í París og gruns um áætluð hryðjuverk í Brussel. Ráðist var inn á nítján staði í aðgerðum gærkvöldsins, en grunaði hryðjuverkamaðurinn Salah Abdeslam náðist ekki.
Um hádegi greindi saksóknari í Brussel frá því að fimm til viðbótar hefðu verið handteknir í frekari aðgerðum í nótt.
Enn er hæsta viðbúnaðarstig í gildi í Brussel, en ástandið verður endurmetið síðdegis. Innanríkisráðherra Belgíu, Jan Jambon, segir að aðgerðum lögreglu og hers sé ekki lokið og muni halda áfram næstu klukkustundir og daga. Of snemmt væri að segja til um það hvort hættan á hryðjuverkum sé minni en hún var um helgina. Ástandið sé mjög viðkvæmt.
Allir skólar og neðanjarðarsamgöngur í Brussel eru lokaðar í dag, en strætisvagnar ganga og sumar verslanir og heilbrigðisstofnanir eru opnar.
Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd Mattew Bello Garrido af Grand Place í miðborg Brussel eru fáir á ferli.
Öllum heimsóknum til NATO aflýst
Höfuðstöðvar Atlantshafsbandalagsins (NATO) eru opnar en hluti starfsfólksins var beðinn um að vinna að heiman í dag. Þá hefur öllum heimsóknum í höfuðstöðvarnar verið aflýst, að sögn Reuters. Allar helstu stofnanir Evrópusambandsins eru líka opnar en mikil öryggisgæsla er alls staðar.
Á lestarstöðvum í Brussel hefur verið tekið upp landamæraeftirlit á nýjan leik og ekki er hægt að kaupa lestarmiða úr borginni án þess að sýna vegabréf.