Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, sagði að loknum fundi sínum með Francois Hollande, forseta Frakklands, í Washington DC í dag, að nauðsynlegt væri að efla samstarf við Frakka til að berjast gegn hryðjuverkasamtökum eins og íslamska ríkinu (Daesh), en ekki síður til að vinna heildrænt að öryggismálum í heiminum. Upplýsingaflæði þyrfti að grundvallast af trausti og samvinnu á mörgum sérfræðisviðum. „Aukið samstarf við Frakka er lykillinn að árangri,“ sagði Obama, en Hollande hafði áður ítrekað svipuð skilaboð.
Hollande sagði mikilvægt fyrir þjóðir heimsins að átta sig á hættunni sem fylgdi íslamska ríkinu og uppgangi þess, einkum í Írak og Sýrland. Aðferðir hryðjuverkamanna væru ómannúðlegar og ögrun við mannkynið. Það væri óhjákvæmilegt að berjast af hörku gegn þessum uppgangi, og ekki síður gegn tengslaneti manna sem tilheyrðu hryðjuverkasamtökum og væru tilbúnir að beita vopnum gegn saklausu fólki. „Hver mínúta getur skipt máli í þeirri vinnu,“ sagði Hollande, og ítrekaði að hann ætlaði sér að halda áfram að beita sér fyrir auknu samstarfi þjóða heimsins. Hann mun funda með Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, á morgun, Vladímir Pútín, forseta Rússlands, skömmu fyrir mánaðarmótin, og fleiri þjóðarleiðtögum, sem geta lagt sitt af mörkum með hernaðaraðgerðum.
Hollande hefur opinberlega lýst yfir stríði gegn íslamska ríkinu (Daesh) eftir að hryðjuverkamenn myrtu 130 manns og særðu hundruð til viðbótar, í árásum í París 13. nóvember síðastliðinn. Gríðarlega umfangsmiklar lögregluaðgerðir eru enn í gangi í Frakklandi, Belgíu, Þýskalandi og víðar, sem miða að því að draga úr hryðjuverkaógn, upplýsa um alla þætti sem tengjast árásunum og ná þeim sem að árásunum stóðu. Samhlið eru hernaðaraðgerðir í Sýrlandi viðvarandi og er loftárásum beitt gegna vígamönnum íslamska ríkisins.
Obama ítrekaði í máli sínu að 65 þjóðir heimsins væru nú að vinn saman að aðgerðum í Sýrlandi sérstaklega, en einnig í Írak og Afganistan. Rússland og Íran væru í samvinnu með stjórnarher Assads í Sýrlandi, en það væri mikið kappsmál að Rússar kæmu í samstarf með bandalagi þjóðanna 65 sem væru að starfa saman. Assad væri ekki treystandi, og því þyrftu Rússar að taka í sáttahönd alþjóðasamfélagsins svo að sameiginlegar aðgerðir gætu hafist.
Hollande tók undir þetta, og sagði það kappsmál að auka samvinnu í hernaðaraðgerðum. Þannig væri best tryggt að hryðjuverkamenn næðu ekki að ógna almenningi.