Ekki er víst hvort að umsókn Íslands að Evrópusambandinu frá árinu 2009 sé fallin úr gildi. Mögulegt er að það myndi nægja nýrri ríkisstjórn að óska eftir því að viðræður myndu hefjast á ný án þess að til þyrfti nýja umsókn. Þetta er mat Matthias Brinkmann, sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi. Greint er frá þessu í Morgunblaðinu.
Viðræður Íslands og Evrópusambandsins hófust sumarið 2009 í kjölfar þess að Alþingi samþykkti að sækja um aðild. Þær stóðu síðan yfir frá sumrinu 2010 og fram í byrjun árs 2013, þegar ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna ákvað að setja þær á ís. Þá höfðu makrílveiðar Íslendinga og ósamstaða í ríkisstjórninni gagnvart aðild staðið viðræðunum fyrir þrifum um nokkurt skeið og ljóst að ekki næðist að fá niðurstöðu í þær fyrir þingkosningarnar í apríl 2013.
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra í ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, sendi síðan bréf til Edgars Rinkevics, utanríkisráðherra Lettlands, sem fer með formennsku í Evrópusambandinu og sendi samtímis á Johannes Hahn, framkvæmdastjóra nágrannastefnu og aðildarviðræðna sambandsins, þann 12. mars 2015 til að afturkalla aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Þar kom fram að ríkisstjórn Íslands ætlaði ekki að hefja aðildarviðræður á ný.
Síðan þá hefur Ísland ekki verið flokkað sem umsóknarríki á vef Evrópusambandsins en fulltrúar þess hafa ítrekað sagt opinberlega að bréf Gunnars Braga dugi ekki til að afturkalla aðildarumsókn Íslands.