Flugmaður sem komst lífs af, þegar herþota rússneska hersins var skotin niður af tyrkneska hernum í fyrradag, segir það af og frá að tíu til tólf viðvaranir hafi borist, eins og yfirvöld í Tyrklandi hafa haldið fram, og svo sé það ekki rétt að þotan hafi verið skotin niður í Tyrklandi, heldur hafi það gerst í lofthelgi Sýrlands. Þar hafi rússneski herinn verið á undanförnum vikum í samvinnu við stjórnarher Sýrlands, undir stjórn Assad forseta, og því hafi engin alþjóðalög verið brotin.
Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins BBC en Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, hefur sagt að framferði Tyrkja sé hrein ögrun við Rússa, og það skipulögð ögrun. Vladímir Pútín forseti Rússlands er sagður æfur vegna atburðarins, og er sjálfstæð rannsókn nú í gangi á vegum Rússa, en þeir halda því fram að Tyrkir hafi verið órétti þegar þotan var skotin niður. Pútín hefur sagt að þessi aðgerð Tyrkja muni hafa „alvarlegar afleiðingar“ í för með sér.
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, lét hafa eftir sér á blaðamannafundi í gær, að Tyrkir væru í fullum rétti að verja sína lofthelgi og því væri ekki hægt að segja að þetta hafi verið rangt hjá Tyrkjum. Þá hefur Atlantshafsbandalagið NATO einnig lagt blessun sína yfir aðgerðir Tyrkja, og ítrekaði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri, þá afstöðu í gær.
Konstantin Murakhtin, sá sem komst lífs af eftir tólf tíma björgunaraðgerðir sérsveita rússneska hersins, sagði í viðtali við fjölmiðla í Rússlandi í morgun, að hann þekkti vel til á þeim slóðum þar sem hann var á flugi ásamt félaga sínum, og það væri alveg öruggt að hann hefði ekki verið í lofthelgi Tyrklands, „ekki einu sinni í eina sekúndu“. Vélin var skotin nær alveg á landamærum Tyrklands og Sýrlands, en eins og að framan greinir þá er hart deilt um hvoru megin vélin var í lofthelginni.
Rússar hafa haldið uppi loftárásum í Sýrlandi, við hlið stjórnarhersins, undanfarinn mánuð og segjast fyrst og fremst einblína á íslamska ríkið sem helsta óvin. Frakkar, Bretar og Bandaríkjamenn, ásamt bandalagi fleiri þjóða, berjast einnig gegn íslamska ríkinu en eru ekki tilbúin að styðja stjórnarher Sýrlands á meðan Assad er við stjórnvölinn. Honum sé ekki treystandi.