Þeir sem styðja ríkisstjórnarflokkanna eru líklegri til þess að búa í eigin húsnæði en þeir sem styðja hana ekki. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR. 78 prósent stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar búa í eigin húsnæði en 66 prósent þeirra sem styðja hana ekki.
83 prósent þeirra sem styðja Framsóknarflokkinn búa í eigin húsnæði og 78 prósent þeirra sem styðja Sjálfstæðisflokkinn. Eitt helsta kosningamál Framsóknarflokksins fyrir síðustu kosningar var að leiðrétta verðtryggð húsnæðislán, og leiðréttingin svokallaða var framkvæmd af ríkisstjórnarflokkunum.
77 prósent þeirra sem styðja VG búa í eigin húsnæði og 74 prósent stuðningsmanna Samfylkingarinnar. 53 prósent Bjartrar framtíðar og 54 prósent stuðningsmanna Pírata búa í eigin húsnæði.
Eldra fólk býr í eigin húsnæði, unga fólkið leigir og býr hjá foreldrum
Fólk yfir fimmtugu er líklegra til að búa í eigin húsnæði en aðrir aldurshópar. Til dæmis sögðust 94 prósent fólks á aldrinum 50 til 67 ára búa í eigin húsnæði en 77 prósent þeirra sem eru á aldrinum 30 til 49 ára og 28 prósent þeirra sem eru 18 til 29 ára.
Í yngsta aldurshópnum segjast 36 prósent vera á leigumarkaði og jafnstór hópur býr í foreldrahúsum.
Meðal þeirra sem eru 30 til 49 ára er hlutfall eigenda orðið 77 prósent, en 22 prósent eru á leigumarkaði.
Tekjulægsta fólkið á leigumarkaði
Meðal þeirra sem hafa heimilistekjur undir 250 þúsund krónum á mánuði býr 30 prósent í eigin húsnæði, en stærsti hópurinn, 45 prósent, er á leigumarkaðnum. 24 prósent þessa hóps býr í foreldrahúsum.
54% þeirra sem hafa 350 til 399 þúsund krónur í tekjur á mánuði búa í eigin húsnæði en 26 prósent eru á leigumarkaði og 19% í foreldrahúsum.
Hlutfall þeirra sem búa í eigin húsnæði hækkar uppfyrir 70 prósent í næstu tekjuflokkum og fer í 83 prósent hjá þeim sem eru með 800 til 999 þúsund á mánuði í heimilistekjur.
Athygli vekur að ellefu prósent þeirra sem eru með yfir milljón á mánuði í heimilistekjur á mánuði segjast búa í foreldrahúsum. 11 prósent þessa hóps er á leigumarkaði og 78 prósent eru í eigin húsnæði.
Færri í eigin húsnæði en áður
MMR gerði aðra könnun á húsnæði fólks árið 2013 og séu kannanirnar bornar saman hefur þeirm sem búa í eigin húsnæði fækkað um þrjú prósent og þeim sem búa í leiguhúsnæði fjölgað um tvö prósent. Báðar þessar breytingar eru þó innan vikmarka.
Vikmörk í könnuninni eru 3,1 prósent, sem þýðir að miðað við 1000 svarendur geti raunverulegar tölur verið á bili sem er 3,1 prósentum lægra til 3,1 prósentum hærra en í könnuninni.