Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, svarar því ekki beint hvort hann ætli að bjóða sig aftur fram í forsetakosningunum á næsta ári og segir að slík niðurstaða fáist ekki á einhverri einni stundu. „Eitt af því sem skapar mér vanda í þessum efnum er að ég er sífellt að hitta fólk sem hvetur mig áfram. Það er óneitanlega umhugsunarefni hvers vegna hugarástand hjá þjóðinni sé með þeim hætti að það sé ekki yfirgnæfandi skoðun þorra þjóðarinnar, ef ekki allrar, að það sé í fínu lagi að ég hætti.“ Þetta kemur fram í viðtali við Ólaf Ragnar í DV í dag.
Þar segist forsetinn horfa á samfélagið og forsetaembættið að nokkru leyti með augum greindands og reyni að taka sjálfan sig út úr myndinni. „Þá er það visst áhyggjuefni að það skuli enn vera svo ríkt í hugum manna að það þurfi að vera á Bessastöðum einstaklingur sem ekki haggast í róti umræðunnar, bloggsins og hitans sem fylgir átökum dagsins. Þar með er ég ekki að segja að að ég sé eini maðurinn sem geti gegnt því hlutverki. Ég hef sagt við marga að það sé ekki hægt að gera þá kröfu á mig að ég sé alltaf þessi kjölfesta. Ég er búinn að vera lengi í þessu embætti og það felur í sér margvíslegar takmarkanir á einkalífi, sem ég ætla ekkert að tíunda, en eru hluti af þeirri upplifun og skyldum sem felast í embættinu.“
Segir það misskilning að um klækjastjórnmál hafi verið að ræða
Ólaur Ragnar tilkynnti í áramótaávarpi sínu fyrir fjórum árum að hann ætlaði ekki að bjóða sig aftur fram í forsetakosningunum 2012. Honum snérist síðan hugur eftir að stór hópur skoraði á hann en áskildi sér rétt til að hætta áður en kjörtímabilið væri á enda. Í yfirlýsingu sem Ólafur Ragnar sendi frá sér þá sagði: „Í rökstuðningi er vísað til vaxandi óvissu varðandi stjórnskipan landsins og stöðu forseta í stjórnarskrá, umróts á vettvangi þjóðmála og flokkakerfis, sem og átaka um fullveldi Íslands. Þá er einnig áréttað mikilvægi þess að standa vörð um málstað þjóðarinnar á alþjóðavettvangi.“
Ólafur Ragnar hefur, líkt og við blasir, ekki hætt á miðju kjörtímabili. Hann segir að ekki hafi verið um klækjastjórnmál að ræða af sinni hálfu. „Eins og ég fjallaði um í síðasta áramótaávarpi, þá taldi ég rétt að láta af embætti fyrir fjórum árum; það var einlæg skoðun og niðurstaða okkar Dorritar. Síðan hófst atburðarrás sem allir þekkja. Sumir hafa túlkað það þannig að þarna hafi verið á ferð klækjastjórnmál af minni hálfu en það er algjör misskilningur.
Í þessu embætti læra menn að bera virðingu fyrir embættinu og að bera virðingu fyrir þjóðinni. Menn átta sig fljótlega á því þegar þeir eru kosnir til þessa trúnaðar að það er vilji þjóðarinnar sem ræður. Það er sú skylda sem sérhver, sem gegnir þessu embætti, verður að meta mest. Lærdómurinn er sá að þjóðin ræður“.