Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefur ritað borgarstjóranum Degi B. Eggertssyni bréf vegna uppbyggingar á svo nefndum stjórnarráðsheit, en eins og greint var frá í gær þá skrifaði Dagur húsmeistara ríkisins, Stefáni Thors, bréf þar sem talað var fyrir friðlýsingu húsa á reitnum, og að uppbyggingu í takt við húsnæðisstefnu ríkis og borgar. Hann hafði þá áður skrifað forsætisráðherra bréf en ekki fengið svar við því.
Sigmundur Davíð segir að forsætisráðuneytið sé reiðubúið til samstarfs við borgina, og ástæðulaust sé að óttast um adrif húsanna, meðal annars vegna þess að hluti þeirra sé þegar friðaður. Þá geri hann ráð fyrir að borgin beiti sér með svipuðum hætti vegna uppbyggingar á öðrum reitum í borginni.
Bréf Sigmundar Davíðs fer orðrétt hér á eftir:
„Vísað er til bréfs yðar, dags. 29. október sl. sem sent var Húsameistara ríkisins og fjölmiðlum. Í bréfinu ítrekið þér erindi sem forveri yðar sendi forsætisráðuneytinu á síðastliðnu ári og varðar vilja borgarinnar til að eiga samskipti við forsætisráðuneytið um skipulag framtíðaruppbyggingar á vegum Stjórnarráðsins. Forsætisráðuneytið hefur verið, og er enn, reiðubúið til að eiga samstarf við borgina um þessi mál og telur það af ýmsum ástæðum tímabært og æskilegt. Ráðuneytið fagnar því áhuga Reykjavíkurborgar á slíku samstarfi.
Ástæðulaust er fyrir borgaryfirvöld að óttast um afdrif húsanna þriggja sem nefnd eru í bréfum borgarstjóranna. Húsið við Lindargötu 7 hefur verið friðlýst og segir sig því sjálft að gildandi skipulag veitir ekki heimild til niðurrifs hússins. Stjórnvöld hafa varið fjármagni í viðgerðir á gamla Hæstaréttarhúsinu við Lindargötu 3 og hyggjast nýta það áfram. Þá stendur ekki til að rífa húsið sem stendur við Sölvhólsgötu 13.
Forsætisráðuneytið fagnar þeirri stefnumörkun sem felst í yfirlýstum vilja Reykjavíkurborgar til að endurskoða skipulag miðborgarinnar með það að markmiði að vernda söguleg mannvirki sem ekki njóta friðunar vegna aldurs.
Ráðuneytið væntir þess að sama nálgun verði viðhöfð við endurskoðun skipulags á öðrum reitum í miðborg Reykjavíkur og lítur svo á að í erindi borgarinnar felist auk þess hvatning til forsætisráðuneytisins um að tryggja að fleiri hús, sem ekki njóta sjálfkrafa aldursfriðunar samkvæmt lögum, verði varðveitt. Ráðuneytið mun leitast við að fylgja þeirri hvatningu vel eftir.“