Stofnuð hefur verið Facebook-síða þar sem skorað er á Höllu Tómasdóttur, frumkvöðul, fjárfesti, fyrrum stjórnarformann Auðar Capital og ráðstefnustjóra Inspirally WE-ráðstefnunnar sem haldin var fyrr á þessu ári, að bjóða sig fram í embætti forseta Íslands næsta sumar.
Á síðunni segir m.a.: „Við skorum á Höllu Tómasdóttur að gefa kost á sér í embætti forseta Íslands. Höllu fylgir bjartsýni og áræðni, hún er verðugur fulltrúi þjóðarinnar".
Halla stóð fyrir Inspirally-ráðstefnunni sem haldin var fyrr á þessu ári þar sem Christine Lagarde, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, og leikkonan Geena Davis voru á meðal frummælenda. Í aðdraganda hennar sagði hún í samtali við RÚV að hún kallaði eftir meira jafnvægi milli karla og kvenna í samfélaginu og því sem talið er „karlmannlegt“ og „kvenlægt“. Karllæg gildi hefðu verið mjög ráðandi hingað til á Íslandi og allt of ráðandi á sumum sviðum.